Samkvæmt fornum sögnum stöðvaði Hermes bardaga tveggja snáka með því að reka staf sinn á milli þeirra. Í þakklætisskyni hringuðu snákarnir tveir sig utan um staf hans og mynduðu svonefndan Hermesarstaf eða Merkúrsstaf. Á ensku kallast hann cadaceus. Notkun Merkúrsstafsins til að tákna læknisfræði er í raun ekki alveg rétt þar sem Hermes og Merkúr tengjast læknislistinni ekkert sérstaklega. Hermes var meðal annars verndari þjófa, kaupmanna og ferðalanga auk þess sem hann leiðbeindi sálum manna til undirheima. Væntanlega vilja læknar ekki láta tengja sig við ferðir til undirheima, nema þegar þeir sinna líknandi meðferð. Í fróðlegri grein um staf Asklepíosar og Merkúrsstafinn rekja höfundarnir þennan rugling á táknunum til bókaútgáfu John Churchills í London. Útgáfufyrirtæki hans prentaði fjölmargar bækur um læknisfræði sem seldar voru í Bandaríkjunum og útgáfan notaði Merkúrsstafinn sem einkennistákn sitt. Þess vegna gæti Merkúrsstafurinn hafa orðið að ímynd læknisfræðinnar meðal lækna í Norður-Ameríku seint á 19. öld.
Merki Læknafélags Íslands er greinilega útfærsla á Asklepíosartákninu. Í því er ein slanga og þess vegna vísar það til Asklepíosar. Merki Verzlunarskóla Íslands er hins vegar Merkúrsstafurinn, þar hringa tvær slöngur sig utan um staf, enda var Merkúr verndari verslunarmanna. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er á merki Háskóla Íslands? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
- Hvernig hljómar eiðurinn sem læknar sverja? eftir Stefán B. Sigurðsson
- Blayney, Keith, The Caduceus vs the Staff of Asclepius. Sótt 10.1.2008.
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990.
- Merki Læknafélags Íslands. Sótt 10.1.2008.
- Merki Verzlunarskóla Íslands. Sótt 10.1.2008.
- Peck, Harry Thurston, Aesculapius, í Harpers Dictionary of Classical Antiquities (1898). Sótt 10.1.2008.
- Wilcox, Robert A. og Whitham, Emma M., "The symbol of modern medicine: Why one snake is more than two", í Annals of Internal Medicine, 138:8, bls. 673-677. Sótt 10.1.2008.