Upphafið að losun hægða eru bylgjuhreyfingar í sveigristli sem er á milli fallristils og endaþarms. Þegar endaþarmurinn fyllist af hægðum strekkist á veggjum hans og áreitir það tognema þar, sem senda skynboð til mænu. Hreyfiboð koma til baka eftir seftaugaþráðum til vöðva í neðri hluta ristils, endaþarmi og endaþarmsopi. Hægðalosun verður þegar innri lokuvöðvi endaþarmsops opnast vegna ósjálfráðs samdráttar í langvöðvum endaþarms og viljastýrðum samdrætti í þind og kviðvöðvum. Margt getur valdið sjúkdómum og kvillum í þörmum sem hefur í för með sér óðeðlilegar hægðir. Hægðatregða er kvilli sem lýsir sér í erfiðleikum með að hafa hægðir og harðlífi sem er óeðlilega þurrar og harðar hægðir. Talið er að skortur á trefjaefnum í fæðunni sé orsakaþáttur þar sem trefjaefni binda margfalt þyngd sína af vatni og gera hægðir mjúkar og miklar. Trefjaefnin eru sem sagt burðarefni hægða og flýta fyrir för þeirra úr líkamanum. Niðurgangur stafar af sýkingu í ristli og kemur í veg fyrir eðlilega upptöku vatns úr fæðumaukinu sem berst í hann. Í kjölfarið verða hægðir mjög vatnskenndar og miklar og ef ástandið varir lengi er bæði hætta á vatns- og steinefnaskorti í líkamanum, en steinefni eru á formi ólífrænna salta sem leysast upp í vatninu. Ef innvortis blæðingar eru í maganum eða þörmum kemur fram blóð í hægðum. Þá verða hægðirnar dökkrauðar, svartar eða tjörukenndar. Einnig er blóð í hægðum talið geta verið vísbending um ristilkrabbamein. Fitugar eða olíukenndar hægðir gefa til kynna sjúkdóma í smáþörmum. Hægðir geta líka borið með sér smitsjúkdóma og eru iðrakreppa, taugaveiki og kólera dæmi um sjúkdóma sem dreifast með saurmegnaðri fæðu eða vatni. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað tekur líkamann langan tíma að melta fæðu? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað veldur vindgangi? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvers vegna fær maður niðurgang af sveskjum? eftir Björn Sigurð Gunnarsson
- Hvað er til ráða gegn ristilkrampa? frá Doktor.is
- Gerard J. Tortora. 1997. Introduction to the Human Body - the essentials of anatomy and physiology, 4. útg., Biological Science Textbooks, Inc.
- Feces. (2008). Í Encyclopædia Britannica. Sótt á Encyclopædia Britannica Online 4. janúar 2008.
- Mynd: National Cancer Institute. Sótt 8. janúar 2008