Helstu einkenni ristilkrampa eru óþægindi eða verkir í kviðnum og breytingar á hægðum, ýmist niðurgangur eða hægðatregða. Kviðurinn er oft uppblásinn og fylgir því óþægileg þenslutilfinning og jafnvel ógleði. Verkirnir lagast þó oft tímabundið ef viðkomandi getur losað hægðir eða vind. Önnur einkenni geta verið höfuðverkur, þreyta, kvíði og einbeitingarskortur. Greining sjúkdómsins
Sjúkdómsgreiningin byggist yfirleitt á sjúkrasögu viðkomandi. Ýmsar rannsóknir, til dæmis ristil- og endaþarmsspeglun eða röntgenmyndataka af ristli, eru oft gerðar til þess að útiloka aðra sjúkdóma. Aðrir sjúkdómar sem valdið geta svipuðum einkennum eru mjólkuróþol, glútenóþol, magasár, sníkjudýr, langvinn þarmabólga svo sem sáraristilbólga (colitis ulcerosa) eða svæðisgarnakvef (crohns-sjúkdómur). Mataræði og ráðleggingar
Mataræði getur haft mikil áhrif á ristilkrampa. Vatnsdrykkja er mikilvæg en ráðlegt er að drekka 1-2 lítra af vatni á dag. Trefjaríkt fæði hvetur starfsemi þarmanna, einkum ristilsins, og eru grænmeti og kornmeti því mikilvægar fæðutegundir. Mikilvægt er að borða reglulega og ekki sleppa úr máltíðum, frekar að borða minna í einu og oftar. Piparmyntute hefur oft þótt gott til að slá á einkennin. Sumar fæðutegundir geta ýtt undir einkenni ristilkrampa. Kaffi og mjólk getur í sumum tilfellum verið megin orsök óþægindanna. Ýmsar fæðutegundir svo sem blómkál, spergilkál og baunir auka einnig gasmyndun. Sykurneysla og sterk krydd geta einnig aukið einkennin. Áfengisneysla getur einnig haft slæmt áhrif á ristilinn. Reglusamt líferni er mikilvægt til að draga úr einkennum ristilkrampa. Regluleg hreyfing eykur starfsemi þarmanna og dregur úr streitu, en mikilvægt er að reyna að forðast streituvaldandi aðstæður og reyna að slaka á. Heitir bakstrar og hitapokar geta svo hjálpað til að slá á einkennin. Lyf við ristilkrömpum
Þegar ristilkrampar eru mikið vandamál getur lyfjagjöf í sumum tilfellum hjálpað. Einkum eru þá gefin lyf sem draga úr krampa og samdrætti í meltingafærum svo sem Spasmerin®, Buscopan®, Duspatalin® og Librax®. Hægðalyf og lyf við vindgangi og óróleika í maga geta gagnast sumum og stundum getur hjálpað að gefa sjúklingum kvíðastillandi lyf. Lyfjagjöf skal ávallt vera í samráði við lækni þegar búið er að greina sjúkdóminn. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða hlutverki gegnir ristillinn? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað veldur vindgangi? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvernig starfa líffæri meltingakerfisins saman og hvaða efnaskipti fara þar fram? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað er hollt mataræði? eftir Björn Sigurð Gunnarsson
Þetta svar er unnið upp úr grein sem birtist á Doktor.is og birtist hér með góðfúslegu leyfi. Mynd:
- Teikning: Vermiform appendix á Wikipedia. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. (Sótt 1.11.2010).
Er iðraólga (ristilkrampar) streitu- og/eða álagssjúkdómur? Hvaða lyf (eða önnur ráð) eru helst notuð gegn henni?