Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Skapa peningar hamingju?

Ragna B. Garðarsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Svarið við þessari spurningu er í stuttu máli: Já, en að takmörkuðu leyti í þróuðum löndum eins og Íslandi.

Fræðimenn hafa sýnt fram á að fjölskyldulíf, vinátta og hjónabönd hafa mun meiri áhrif á hamingju fólks á Vesturlöndum heldur en tekjur og eignir. Engu að síður er sú trú útbreidd að peningar og efnislegar eigur séu forsenda hamingju.

Rannsóknir sem bera saman hversu hamingjusamt fólk segist vera og þjóðarframleiðslu í mismunandi löndum hafa sýnt að fólk í ríkari löndunum segist að öllu jöfnu vera hamingjusamara en fólk í fátækari löndunum. Þessi tengsl á milli afkomu þjóða í efnahagslegum skilningi og hamingju eru mjög sterk en þó ekki algild eins og sjá má á mynd 1. Filippseyingar hafa til dæmis ekki mikla peninga milli handanna en segjast þó vera jafn hamingjusamir og Austurríkismenn, sem eru talsvert ríkari þjóð. Sambandið er sveiglínulaga sem þýðir að fyrir fátækari þjóðirnar eykst hamingjan eftir því sem efnahagurinn batnar, en fyrir ríkari þjóðirnar eykst hamingjan lítið þó efnahagurinn batni, enda lifa flestir íbúar þeirra þjóða yfir fátæktarmörkum.


Mynd 1: Samband vergrar þjóðarframleiðslu og huglægrar vellíðunar. Heimild: David Bell, 2006. Smelltu til að skoða stærra eintak af myndinni.

Ef við lítum á hvað gerist innan þjóða, frekar en milli þjóða, kemur hins vegar aðeins í ljós veikt samband milli efnahagsstöðu og hamingju einstaklinga. Innan þjóða er sambandið einnig sveiglínulaga líkt og sambandið á milli landa er. Þetta þýðir að hjá þeim efnaminni innan hverrar þjóðar eykst hamingjan nokkuð við hverja krónu en eftir að nauðþurftarmörkum er náð bætir hver króna mjög litlu við hamingju einstaklinga eins og þeir meta hana sjálfir.

Sumar rannsóknir benda enn fremur til þess að sú hamingjuaukning sem verður við auknar tekjur sé ekki tilkomin vegna sjálfra teknanna, heldur vegna þess að fólk er sáttara þegar það er hærra í þjóðfélagsstiganum. Hamingjuaukningin yrði því mun minni ef efnahagsstaða samborgaranna styrktist samhliða eigin tekjuaukningu. Fyrir ríkar þjóðir er því ólíklegt að hamingja einstaklingsins aukist verulega við það að verða ríkari þó velferð hans aukist í einhverjum skilningi. Búið er að mæta grunnþörfum fólksins og umfram það eykst hamingja fólks ekki mikið jafnhliða auknum tekjum.

Hagfræðingar nefna þetta minnkandi jaðarnytjar (e. decreasing marginal utility) sem snýst um það að því meira sem maður hefur af einhverri tiltekinni vöru eða þjónustu, því minna máli skiptir hver viðbótareining fyrir velferð einstaklingsins sem um ræðir.


Mynd 2: Sú trú er útbreidd að peningar og efnislegar eigur séu forsenda hamingjunnar.

Ýmsar rannsóknir hafa tekist á við tengsl hamingju og löngunar í aukna fjármuni – með öðrum orðum hvort það hafi áhrif á hamingju fólks að vera efnishygginn. Fólk sem er efnishyggið er líklegra til að telja að hamingjan sé fólgin í eignum og peningum, það telur einnig að mæla megi velgengni í peningum og það leggur meiri áherslu á slík verðmæti en aðra þætti lífsins. Niðurstöður þessara rannsókna hafa allar verið á sama veg: Efnishyggið fólk er óhamingjusamara en fólk sem leggur áherslu á önnur lífsmarkmið.

Þessar rannsóknir hafa fyrst og fremst verið gerðar í löndum þar sem flestir hafa allt til alls og það kann að einhverju leyti að skýra þessar niðurstöður. Í þeim löndum bætir hver króna litlu við hamingju einstaklingsins og því óraunhæft að ætla að auknir fjármunir auki lífshamingjuna til muna.

Áhrif peninga á hamingju fólks fara einnig eftir því hvaða markmið það hefur með öflun þeirra. Markmið þurfa að vera raunsæ, þeim þarf að vera hægt að ná. Peningar geta keypt fjárhagslegt öryggi, þeir geta keypt frelsi til athafna og sjálfstæði. Rannsóknir hafa sýnt að því fólki farnast betur sem leggur áherslu á þessa þætti þegar það metur mikilvægi þess að eignast fjármuni. Ef, hins vegar, fólk langar til að auka efnislegan hag sinn vegna þess að það heldur að það eitt og út af fyrir sig veiti þeim hamingju eða slökkvi efasemdir um eigið ágæti, þá er fólk að hamast við óraunhæf markmið og því líklegra til að stuðla að óhamingju sinni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Bell, D. (2006). Annexes. Quality of Life and Well Being: Measuring the Benefits of Culture and Sport: Literature Review and Thinkpiece. Scottish Executive Social Research, 98-133.
  • Diener, E., Diener, M., & Diener, C. (1995). Factors predicting the subjective well-being of nations. Journal of Personality and Social Psychology, 69, 851-864.
  • Diener, E., Sandvik, E., Seidlitz, L., & Diener, M. (1993). The relationship between income and subjective well-being: Relative or absolute? Social Indicators Research, 28(3), 195-223.
  • Garðarsdóttir, R. B., Jankovic, J., & Dittmar, H. (2007). Is This as Good as it Gets? Materialistic Values and Well-Being. Consumer culture, identity, and well-being, Chapter 4. European Monographs in Social Psychology (Ed. Helga Dittmar). London: Psychology Press.
  • Inglehart, R. (1997). Modernization and Postmodernization: Cultural, Economic and Political change in 43 societies. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.
  • Kasser, T. & Kanner, A. D. (Eds., 2004). Psychology and consumer culture: The struggle for a good life in a materialistic world. Washington, DC: APA.
  • Kasser, T. & Ryan, R. (1993). A dark side of the American dream: Correlates of financial success as a central life aspiration. Journal of Personality and Social Psychology, 65, 410-422.
  • Nickerson, C., Schwarz, N., Diener, E., & Kahneman, D. (2003). Zeroing in on the dark side of the American dream: A closer look at the negative consequences of the goal for financial success. Psychological Science, 14, 531-536.
  • Srivastava, A., Locke, E. A., & Bartol, K. M. (2001). Money and subjective well being: It's not the money it's the motives. Journal of Personality and Social Psychology, 65, 959-971.

Mynd af manni með peninga:

Höfundar

Ragna B. Garðarsdóttir

dósent í félagssálfræði við Sálfræðideild HÍ

aðjúnkt í heilsuhagfræði

Útgáfudagur

18.12.2007

Síðast uppfært

26.8.2020

Spyrjandi

Vilhjálmur Einarsson, f. 1988

Tilvísun

Ragna B. Garðarsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. „Skapa peningar hamingju?“ Vísindavefurinn, 18. desember 2007, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6969.

Ragna B. Garðarsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. (2007, 18. desember). Skapa peningar hamingju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6969

Ragna B. Garðarsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. „Skapa peningar hamingju?“ Vísindavefurinn. 18. des. 2007. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6969>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Skapa peningar hamingju?
Svarið við þessari spurningu er í stuttu máli: Já, en að takmörkuðu leyti í þróuðum löndum eins og Íslandi.

Fræðimenn hafa sýnt fram á að fjölskyldulíf, vinátta og hjónabönd hafa mun meiri áhrif á hamingju fólks á Vesturlöndum heldur en tekjur og eignir. Engu að síður er sú trú útbreidd að peningar og efnislegar eigur séu forsenda hamingju.

Rannsóknir sem bera saman hversu hamingjusamt fólk segist vera og þjóðarframleiðslu í mismunandi löndum hafa sýnt að fólk í ríkari löndunum segist að öllu jöfnu vera hamingjusamara en fólk í fátækari löndunum. Þessi tengsl á milli afkomu þjóða í efnahagslegum skilningi og hamingju eru mjög sterk en þó ekki algild eins og sjá má á mynd 1. Filippseyingar hafa til dæmis ekki mikla peninga milli handanna en segjast þó vera jafn hamingjusamir og Austurríkismenn, sem eru talsvert ríkari þjóð. Sambandið er sveiglínulaga sem þýðir að fyrir fátækari þjóðirnar eykst hamingjan eftir því sem efnahagurinn batnar, en fyrir ríkari þjóðirnar eykst hamingjan lítið þó efnahagurinn batni, enda lifa flestir íbúar þeirra þjóða yfir fátæktarmörkum.


Mynd 1: Samband vergrar þjóðarframleiðslu og huglægrar vellíðunar. Heimild: David Bell, 2006. Smelltu til að skoða stærra eintak af myndinni.

Ef við lítum á hvað gerist innan þjóða, frekar en milli þjóða, kemur hins vegar aðeins í ljós veikt samband milli efnahagsstöðu og hamingju einstaklinga. Innan þjóða er sambandið einnig sveiglínulaga líkt og sambandið á milli landa er. Þetta þýðir að hjá þeim efnaminni innan hverrar þjóðar eykst hamingjan nokkuð við hverja krónu en eftir að nauðþurftarmörkum er náð bætir hver króna mjög litlu við hamingju einstaklinga eins og þeir meta hana sjálfir.

Sumar rannsóknir benda enn fremur til þess að sú hamingjuaukning sem verður við auknar tekjur sé ekki tilkomin vegna sjálfra teknanna, heldur vegna þess að fólk er sáttara þegar það er hærra í þjóðfélagsstiganum. Hamingjuaukningin yrði því mun minni ef efnahagsstaða samborgaranna styrktist samhliða eigin tekjuaukningu. Fyrir ríkar þjóðir er því ólíklegt að hamingja einstaklingsins aukist verulega við það að verða ríkari þó velferð hans aukist í einhverjum skilningi. Búið er að mæta grunnþörfum fólksins og umfram það eykst hamingja fólks ekki mikið jafnhliða auknum tekjum.

Hagfræðingar nefna þetta minnkandi jaðarnytjar (e. decreasing marginal utility) sem snýst um það að því meira sem maður hefur af einhverri tiltekinni vöru eða þjónustu, því minna máli skiptir hver viðbótareining fyrir velferð einstaklingsins sem um ræðir.


Mynd 2: Sú trú er útbreidd að peningar og efnislegar eigur séu forsenda hamingjunnar.

Ýmsar rannsóknir hafa tekist á við tengsl hamingju og löngunar í aukna fjármuni – með öðrum orðum hvort það hafi áhrif á hamingju fólks að vera efnishygginn. Fólk sem er efnishyggið er líklegra til að telja að hamingjan sé fólgin í eignum og peningum, það telur einnig að mæla megi velgengni í peningum og það leggur meiri áherslu á slík verðmæti en aðra þætti lífsins. Niðurstöður þessara rannsókna hafa allar verið á sama veg: Efnishyggið fólk er óhamingjusamara en fólk sem leggur áherslu á önnur lífsmarkmið.

Þessar rannsóknir hafa fyrst og fremst verið gerðar í löndum þar sem flestir hafa allt til alls og það kann að einhverju leyti að skýra þessar niðurstöður. Í þeim löndum bætir hver króna litlu við hamingju einstaklingsins og því óraunhæft að ætla að auknir fjármunir auki lífshamingjuna til muna.

Áhrif peninga á hamingju fólks fara einnig eftir því hvaða markmið það hefur með öflun þeirra. Markmið þurfa að vera raunsæ, þeim þarf að vera hægt að ná. Peningar geta keypt fjárhagslegt öryggi, þeir geta keypt frelsi til athafna og sjálfstæði. Rannsóknir hafa sýnt að því fólki farnast betur sem leggur áherslu á þessa þætti þegar það metur mikilvægi þess að eignast fjármuni. Ef, hins vegar, fólk langar til að auka efnislegan hag sinn vegna þess að það heldur að það eitt og út af fyrir sig veiti þeim hamingju eða slökkvi efasemdir um eigið ágæti, þá er fólk að hamast við óraunhæf markmið og því líklegra til að stuðla að óhamingju sinni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Bell, D. (2006). Annexes. Quality of Life and Well Being: Measuring the Benefits of Culture and Sport: Literature Review and Thinkpiece. Scottish Executive Social Research, 98-133.
  • Diener, E., Diener, M., & Diener, C. (1995). Factors predicting the subjective well-being of nations. Journal of Personality and Social Psychology, 69, 851-864.
  • Diener, E., Sandvik, E., Seidlitz, L., & Diener, M. (1993). The relationship between income and subjective well-being: Relative or absolute? Social Indicators Research, 28(3), 195-223.
  • Garðarsdóttir, R. B., Jankovic, J., & Dittmar, H. (2007). Is This as Good as it Gets? Materialistic Values and Well-Being. Consumer culture, identity, and well-being, Chapter 4. European Monographs in Social Psychology (Ed. Helga Dittmar). London: Psychology Press.
  • Inglehart, R. (1997). Modernization and Postmodernization: Cultural, Economic and Political change in 43 societies. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.
  • Kasser, T. & Kanner, A. D. (Eds., 2004). Psychology and consumer culture: The struggle for a good life in a materialistic world. Washington, DC: APA.
  • Kasser, T. & Ryan, R. (1993). A dark side of the American dream: Correlates of financial success as a central life aspiration. Journal of Personality and Social Psychology, 65, 410-422.
  • Nickerson, C., Schwarz, N., Diener, E., & Kahneman, D. (2003). Zeroing in on the dark side of the American dream: A closer look at the negative consequences of the goal for financial success. Psychological Science, 14, 531-536.
  • Srivastava, A., Locke, E. A., & Bartol, K. M. (2001). Money and subjective well being: It's not the money it's the motives. Journal of Personality and Social Psychology, 65, 959-971.

Mynd af manni með peninga:...