Hvað var ísaldarjökullinn þykkur yfir Reykjavíkursvæðinu á síðasta jökulskeiði?Ísöld hófst fyrir 2,6 milljónum ára. Á því tímabili skiptust á jökulskeið þegar jökulís huldi landið og hlýskeið líkt og í dag þegar jöklar hylja einungis hálendasta hluta landsins. Síðasta jökulskeið, sem hófst fyrir 100.000 árum og lauk fyrir rúmlega 10.000 árum, var eitt af hörðustu jökulskeiðum ísaldar. Það var í hámarki fyrir um 20.000 árum og þá er talið að landið hafi verið ísi hulið að mestu og miklir skriðjöklar hafi teygt sig langt út á landgrunnið. Jökulbungan yfir miðju landinu gæti hafa verið um 2500 m há. Jökullinn sem lá yfir Reykjavík er talinn hafa teygt sig yfir 200 km á haf út.[1] Ekki er vitað með vissu hversu þykkur hann var. Vífilsfell virðist hafa orðið til á kafi í jökli á síðasta jökulskeiði. Það er 655 m hátt. Hæstu tindar Hengils eru yfir 800 m háir. Jöklar virðast hafa gengið yfir þá alla. Hins vegar er óvíst hvort Esjan hafi öll farið á kaf en hafi svo verið hefur einungis þunnur jökull legið á háfjallinu. Þetta þýðir að 600-1000 m þykkur jökull hefur legið yfir miðborg Reykjavíkur þegar mest var. Tilvísun:
- ^ Hreggviður Norðdal og Halldór G. Pétursson 2005. Relative Sea-Level Changes in Iceland; new Aspects of the Weichselian Deglaciation of Iceland. Í: Caseldine, C., Russel, A., Hardardottir, J. & Knudsen, O. (Eds.), Iceland – Modern Processes and Past Environments, bls. 25-78. Elsevier, Amsterdam.
- marzo 2013 | Etxekodeco. (Sótt 20. 1. 2014).