Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lengra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela. Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á yfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár. Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegineldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla. En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Stardalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum. Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt. Eldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi. Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað um eldvirkni á svæðinu þennan tíma. Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti. Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist Mosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði. Nánari upplýsingar er að finna í Árbók Ferðafélags Íslands 1985 í grein eftir Ingvar Birgi Friðleifsson. „Jarðsaga Esju og nágrennis“, bls. 141-172.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað þýðir nafnið Esja? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvað er móbergshryggur? eftir EDS
- Voru eldgos algeng á ísöld? eftir EDS