Á Bresku jómfrúareyjunum í Karabíahafinu, sem lúta eins og nafnið gefur til kynna að nokkru leyti stjórn Breta, er ekki innheimtur skattur af tekjum og ekki lagður á sölu- eða virðisaukaskattur. Þar er hins vegar innheimtur skattur sem hlutfall af launum og einnig stimpilgjöld og gjöld á nokkrar tegundir þjónustu. Mestallar tekjur hins opinbera koma þó af leyfisgjöldum sem erlend fyrirtæki greiða fyrir að fá að skrá aðsetur sitt á eyjunum. Meira en hálf milljón fyrirtækja er skráð á eyjunum, þótt íbúarnir séu ekki nema rétt ríflega 20.000. Eyjaskeggjar hafa einnig talsverðar tekjur af ferðamönnum. Innan Evrópu má geta þess að í Mónakó eru tekjur einstaklinga ekki skattlagðar. Þar er hins vegar lagður skattur á tekjur fyrirtækja og innheimtur virðisaukaskattur. Ríkið hefur miklar tekjur af rekstri spilavíta. Þá eru einnig lágir skattar í Andorra, meðal annars greiða einstaklingar ekki heldur tekjuskatt þar. Þá eru lágir skattar í Liechtenstein, sem hefur, líkt og Bresku jómfrúareyjurnar, umtalsverðar tekjur af skráningu erlendra fyrirtækja. Erfitt er að finna dæmi um lönd þar sem ríkið er svo vel stætt að það greiðir íbúunum frekar en að leggja gjöld á þá. Það eru þó einhver dæmi um að ríki láti þegnana njóta þess með beinum greiðslum að ríkisvaldið hefur aðra tekjustofna en skatta. Sem dæmi má nefna að frá árinu 1982 hafa íbúar Alaskafylkis í Bandaríkjunum fengið senda ávísun árlega vegna tekna fylkisstjórnarinnar af olíu. Í ár (2007) fékk hver íbúi 1.654 Bandaríkjadali. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hversu hátt hlutfall er tekjuskattur einstaklinga af allri skattheimtu ríkissjóðs og hver yrðu áhrif þess að fella hann niður? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað er átt við með umframbyrði skatta? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað eru jaðarskattar? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað eru skattleysismörk? eftir Gylfa Magnússon
- Þarf maður að greiða tekjuskatt af launum sem maður fær greidd í Sviss? eftir Ragnar Guðmundsson
- Hvernig er tekið tillit til beinna og óbeinna skatta við mat á launaþróun? eftir Gylfa Magnússon
- Hver er rökstuðningurinn á bak við hátekjuskatt? eftir Gylfa Magnússon
- Nasa: Visible Earth. Sótt 11.10.2007.
Í hvaða landi eru skattar lægstir? Er eitthvert ríki sem jafnvel er svo vel stætt að það getur greitt borgurunum arð?