Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Antímon hefur verið þekkt frá örófi alda. Elstu heimildir um notkun efnisins eru frá Fornegyptum sem notuðu efnasamband antímons og brennisteins (Sb2S3) sem andlitsfarða. Með því að skoða egypskt myndletur eða híeróglýfur má sjá að Forneygyptar kölluðu efnið mśdmt, umritað á latneskt stafróf. Arabar þekktu efnið einnig og kölluðu það mesdemet en það er talin vera hljóðlíking við egypska orðið. Grikkir tóku orðið upp og aðlöguðu það sínu máli og töluðu um stimmi. Þetta orð notuðu grísku harmleikjaskáldin í verkum sínum en í meðhöndlun þeirra og annarra Grikkja breyttist það enn og varð að stibi. Latneskir ritarar tóku orðið upp hjá sér á fyrstu öld e. Kr., aðlöguðu það latnesku ritmáli og rituðu stibium.
Tákn frumefnisins antímon Sb, er því skammstöfun á latneska orðinu stibium. Á íslensku er heiti frumefnisins einfaldlega antímon ritað með í-i.
Antímonklumpur hefur málmgljáa þótt hann sé í raun ekki málmur.
En af hverju antímon en ekki stibium? Orðið antímon, sem notað er í öllum nútímatungumálum, varð til á miðöldum. Uppruni þess er ekki þekktur með vissu en sumir halda því fram að það sé komið af orðinu anti-monachos sem á frönsku heitir antimone. Þetta orð var notað meðal svonefndra alkemista eða gullgerðarmanna á miðöldum og þýðir munkabani. Það er líklega til komið vegna þess að margir af fyrstu alkemistunum voru munkar en efnið antímon var eitrað og þar af leiðandi kann það að hafa orðið einhverjum munkum að bana.
Tákn sem alkemistarnir notuðu yfir antímon.
Gríska orðið antimonos er einnig til og vísar það til þess að efni sé ekki til sem málmur eða aðeins til í náttúrunni í efnasambandi við annað efni, það er ekki hreint efni. Sannleikurinn er sá að antímon flokkast sem hálfmálmur, öðru nafni melmi. Melmi er efni sem hefur eiginleika bæði málms og málmleysingja en er í raun hvorugt. Antímon hefur einmitt útlit málms; málmgljáa, eðlismassa svipaðan og hjá járni og álíka mikla hörku og kopar. Efnið hvarfast hins vegar ekki eins og málmur, leiðir illa hita og hefur afar litla rafleiðni, en eitt af megineinkennum málma er mikil rafleiðni og hitaleiðni. Antímon eykur rúmmál sitt við kólnun, líkt og vatn gerir á ákveðnu hitabili, en það er sjaldgæfur eiginleiki efna.
Antímon finnst aðallega í samböndum með súrefni, natríni og brennisteini í náttúrunni. Í iðnaði er það í vaxandi mæli notað við smíði tvista eða díóða, og það er líka notað í innrauða skynjara og við gerð rafhlaðna. Antímon er notað í prent- og skotvopnaiðnaði, í eldspýtur og í blýlausan lóðningarvír (5% antímon, afgangurinn tin og ögn af silfri). Samband antímons og súrefnis er notað í eldheld efni, til dæmis í sum barnaföt, leikföng, flugvélar og áklæði í bíla. Árið 1931 var gefin út mynt úr antímoni í Keichow-sýslu í Kína en hún varð ekki langlíf vegna þess hve mjúk hún var.
Antímon er sjaldgæft efni; hlutfall þess í jarðskorpunni er aðeins 0,2 til 0,5 milljónustu hlutar (e. ppm sem er skammstöfun fyrir part per million). Í nýlegri grein í vísindatímaritinu New Scientist kemur fram að aðeins séu þekktar um 30 ára birgðir af antímoni í heiminum.
Vignir Már Lýðsson. „Hvers vegna er frumefnið antímon táknað með Sb í lotukerfinu? Er til íslenskt nafn á því?“ Vísindavefurinn, 26. september 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6818.
Vignir Már Lýðsson. (2007, 26. september). Hvers vegna er frumefnið antímon táknað með Sb í lotukerfinu? Er til íslenskt nafn á því? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6818
Vignir Már Lýðsson. „Hvers vegna er frumefnið antímon táknað með Sb í lotukerfinu? Er til íslenskt nafn á því?“ Vísindavefurinn. 26. sep. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6818>.