Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sérhvert tungumál hefur sinn háttinn á meðferð grískra og latneskra nafna. Á þeim tungumálum sem ekki eru rituð með grísku letri þarf augljóslega að umrita grísk nöfn með einhverjum hætti. Auk þess breytast ósjaldan bæði grísk og latnesk nöfn á ýmsa vegu þegar þau berast yfir í önnur tungumál. Stundum verða til ákveðnar venjur um slíkar umbreytingar en oft er engu líkara en að alger ringulreið ríki og engri reglu sé fylgt.
Í enskumælandi, frönskumælandi og þýskumælandi löndum er löng hefð fyrir ástundun klassískra fræða og þar hafa ákveðnar nafnmyndir fest rætur á löngum tíma. Á ensku heitir rómverska skáldið Horatius til dæmis Horace og á þýsku Horaz. Eigi að síður er það ekki almenn regla eða venja að stýfa endingar nafna því rómverska skáldið Propertius fær áfram að heita Propertius á ensku enda þótt á þýsku heiti hann Properz. Sagnaritarinn Quintus Curtius Rufus heitir hins vegar áfram Curtius á þýsku í stað þess að verða að Curz.
Við Íslendingar þurfum ekki að lenda í sams konar óreglu um meðferð grískra og latneskra nafna. Á íslensku eru tiltölulega fáar hefðir fyrir óreglulegum myndum grískra og latneskra nafna og fáar sem engar eru svo sterkar að ekki megi uppræta þær. Ekki er þar með sagt að við ættum að útrýma öllum ritvenjum um einstök nöfn en þó vaknar spurningin um hvernig skuli fara með grísk og latnesk nöfn á íslensku.
Meðferð grískra og latneskra nafna
Einföld regla sem er auðvelt að beita á langflest grísk og rómversk nöfn er að halda þeim eins líkum frummálinu og mögulegt er. Enn fremur verður að gæta samræmis og fylgja þeim umritunarreglum sem menn hafa komið sér saman um. Með þessu móti er hægt að koma í veg fyrir þá óreiðu sem einkennir meðferð á nöfnum fornmanna í ýmsum öðrum tungumálum.
Samkvæmt reglunum skal umrita latneska nafnið IVLIVS CAESAR sem Júlíus Caesar.
Sennilega hvarflaði að fáum að breyta nöfnum erlendra nútímamanna þegar þau eru rituð á íslensku. Nafni Koizumis, forsætisráðherra Japans, er til dæmis ekki breytt þegar um hann er fjallað á íslensku að öðru leyti en að bætt er við eignarfallsendingunni s. Á sama hátt þurfum við að geta fallbeygt nöfn fornmanna en að öðru leyti er oftast ástæðulaust að breyta nöfnum þeirra þegar búið er að umrita þau. Til dæmis eru hvers kyns styttingar á nöfnum óþarfar. Þess vegna er mælt með að skáldin Pindaros og Óvidius haldi –os og –ius endingum sínum frekar en að nöfn þeirra séu stytt í Pindar og Óvíd, rétt eins og Slobodan Milosevic heitir ekki Slobod Milosev á íslensku.
Umritun
Úr því að íslenska er ekki skrifuð með grísku letri vaknar óhjákvæmilega spurningin um hvernig eigi að umrita grísk nöfn með íslensku stafrófi. Menn hafa komið sér saman um ákveðnar reglur um það sem meðal annars má finna á Wikipediu, frjálsu alfræðiorðabókinni (sjá einnig Aristóteles, 1995, síðara bindi: 289-293).
Latína var ekki rituð með grísku letri heldur með rómversku letri sem okkar stafróf á rætur að rekja til. Engu að síður ritum við ekki latínu nákvæmlega eins og Rómverjar rituðu hana. Þeir notuðu til dæmis einungis hástafi; enn fremur voru bókstafirnir j og u ekki til í fornöld heldur þróuðust þeir úr i og v á miðöldum. Aftur á móti ritum við ekki latneska texta með hástöfum einvörðungu og notum iðulega j og u og broddstafi þar sem þeir þykja hæfa í ritun latneskra nafna á íslensku. Til dæmis ritum við Júlíus en ekki IVLIVS. Sumir ritstjórar latneskra texta nota nú stafina j og u þegar þeir búa latneska texta til prentunar. Það kemur einnig fyrir að ae sé ritað æ. Sú venja hefur myndast að á íslensku megi umrita tvíhljóðann au í latínu með bókstafnum á og tíðkast nú sú venja samhliða þeirri reglu að á íslensku beri að rita au rétt eins og í latínu, til dæmis Plátus / Plautus og Ágústus / Augustus.
Margir vilja breyta latneskum nöfnum þegar þeir rita þau á íslensku. Til dæmis breyta sumir Cato í Kató, Caesar í Sesar og jafnvel Cicero í Síseró, sennilega vegna þess að bókstafinn c vantar í íslenska stafrófið. En vildu þeir sem rita Kató í stað Cato vera fylgnir sér, þá þyrftu þeir einnig að rita Klinton í stað Clinton og ef til vill Sjakk Sjírak í stað Jacques Chirac. Sem betur fer dettur engum í hug að gera slíkt. Vitaskuld ættum við því einnig að rita c í latneskum nöfnum.
Bill Klinton og Sjakk Sjírak?
Hins vegar má benda á að í grísku vantar einnig stafinn c og því ætti aldrei að rita grísk nöfn með c á íslensku verði umritunarreglunum sem hér er vitnað í fylgt eftir. Þegar c kemur fyrir í grískum nöfnum á íslensku er því ljóst að um erlend áhrif er að ræða, í flestum tilfellum áhrif frá ensku.
Rótgróin nöfn
Stundum er hefðin svo sterk að ekki verður við henni hróflað. Hómer og Esóp hafa báðir verið gefnir út á íslensku enda þótt þeir hétu Hómeros og Æsópos ef farið væri eftir umritunarreglunum; taki sínu á þessum nöfnum sleppir hefðin ekki. Grísku endingunni –eus er venjulega breytt í séríslensku endinguna –eifur, til dæmis Ódysseifur og Þeseifur. Sömuleiðis er rótgróin venja að tala um rómverska skáldið Virgil, sem annars héti Vergilius, og Trójukappann Eneas, sem annars héti Æneas. En tilvik sem þessi eru fremur sjaldgæf.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð., inng. og skýringar) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1995).
„Umritun grískra og latneskra nafna á íslensku“ á Wikipediu, frjálsu íslensku alfræðiorðabókinni. Hér má meðal annars finna þumalfingursreglur um meðferð grískra og latneskra nafna og hvernig ráða megi af enskunni hvernig sé við hæfi að fara með þau.
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig ber að umrita grísk og latnesk nöfn á íslensku?“ Vísindavefurinn, 13. febrúar 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5639.
Geir Þ. Þórarinsson. (2006, 13. febrúar). Hvernig ber að umrita grísk og latnesk nöfn á íslensku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5639
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig ber að umrita grísk og latnesk nöfn á íslensku?“ Vísindavefurinn. 13. feb. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5639>.