Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um egypskar rúnir? Er hægt að læra fornegypsku?

Ulrika Andersson og Þorsteinn Vilhjálmsson



Elsta fornegypska letrið nefnist híeróglýfur eða helgirúnir og er upphaflega myndletur þar sem hvert tákn er upphaflega mynd af einhverju sem tengdist því sem það vísaði til. Elstu áletranir sem fundist hafa eru frá tímabilinu 2920-2575 fyrir Krist og er talið að þær hafi verið gerðar skömmu eftir að notkun letursins hófst.

Híeróglýfur voru í fyrstu einkum notaðar í trúarlegum textum og af því draga þær nafn sitt. Orðið er grískt og merkir eiginlega "heilagur útskurður" en egypska heitið merkti "orð guðsins". Híeróglýfurnar voru notaðar á svipaðan hátt og letur yfirleitt, til að skrá, tímasetja og staðsetja hluti, verk og atburði.

Egypskt myndletur lítur út eins og litlar myndir sem raðað er í lóðréttar raðir. Yfirleitt á að lesa raðirnar frá hægri til vinstri en þó stundum öfugt. Oft er hægt að komast að því í hvora áttina á að lesa með því að athuga hvernig fólk og dýr á myndunum snúa því að þau horfa yfirleitt í átt að upphafi textans.

Eftir að myndmálið þróaðist gat hvert tákn staðið ýmist fyrir hlut, annað orð sem tengdist tákninu eða fyrir tiltekið hljóð. Þannig gátu tveir hringir táknað annaðhvort "sól", "dagur" eða "sólguð". Sérhljóð eru ekki táknuð í híeróglýfum og voru þau því valin eftir samhengi.

Um leið og helgirúnirnar komu til sögu hófst lestur og sagnaritun hjá Fornegyptum. Því fór þó fjarri að allir gætu skrifað þetta letur. Slík kunnátta var takmörkuð við presta sem jafnframt urðu þá að skrifarastétt er þjálfaði sjálf arftaka sína. Skrifurunum fannst mikilvægt að vernda ritmálið fyrir breytingum þannig að híeróglýfurnar breyttust óverulega þó að talmál tæki breytingum í landinu.

(Mynd úr bók Cerams, bls. 98).

Í fyrstu var skriftin nokkuð óregluleg. Reglur virðast þá hafa verið óljósar og því er ógerningur að þýða textana. Um 2600 fyrir Krist byrjuðu skrifararnir hins vegar að setja sér reglur en þá voru táknin orðin um 700. Sú tala hélst í aðalatriðum óbreytt í 2000 ár. Fyrst í stað var mest um áletranir sem grafnar voru á lágmyndir eða málaðar á tré eða málm. Snemma var farið að rista híeróglýfur á lok á krukkum til að merkja þær eiganda sínum og lýsa innihaldi þeirra og meðferð. Einnig skrifuðu menn söngva, trúarreglur, helgisiði, goðsagnir og bænir.

Skrift með helgirúnum var ekki sérlega þjál til mikilla ritstarfa eins og skrifararnir þurftu að vinna þegar fram liðu stundir. Þess vegna þróaðist önnur skrift sem við getum kallað á íslensku prestaletur (enska hieratic). Það var í fyrstu byggt á helgirúnunum en þróaðist síðan sjálfstætt. Það var oftast skrifað með reyrpenna og bleki á papýrus eða leður.

Í þriðja lagi þróaðist svokallað alþýðuletur (demotic writing) frá því um 700 fyrir Krist og var notað í viðskiptum og í bókum. Fjögur hundruð árum síðar barst grískt stafróf til Egyptalands og kom smám saman í staðinn fyrir fornegypsku leturgerðirnar. Síðasta þekkta áletrunin þar sem þær eru notaðar er frá árinu 349 eftir Krist.

Eins víst er að helgirúnir væru okkur óskiljanlegar enn þann dag í dag ef ekki væri fyrir Rósetta-steininn sem fannst í Egyptalandsleiðangri Napóleons við Níl árið 1799. Þetta er steinsúla úr svörtu basalti með 14 röðum af híeróglýfum, 32 röðum af alþýðuskrift og 54 röðum með grískum bókstöfum, en sama frásögnin er á öllum þremur ritmálunum. Sagan segir að prestar hafi skrifað það sem á steininum stendur um 205-180 fyrir Krist.

Þar sem sami textinn er þarna skrifaður á þrjá vegu var þetta auðvitað mikill happafengur fyrir fræðimenn sem höfðu verið að glíma við gátu helgirúnanna án árangurs. Einn af þessum mönnum var breski læknirinn og eðlisfræðingurinn Thomas Young (1773-1829) sem er frægur í sögu eðlisfræðinnar fyrir merkilegar tilraunir sem sýndu bylgjueðli ljóssins. Hann fékkst einnig við fornegypsk fræði og komst að því hvar ætti að byrja að lesa á Rósetta-steininum, flokkaði táknin á honum og komst langt með að þýða textann.

En það var franska undrabarnið Jean-François Champollion (1790-1832) sem réð gátuna til hlítar og lagði þannig hornsteininn að skilningi manna á fornegypskum fræðum. Hann komst að því helgirúnirnar gátu ýmist táknað bókstafi eins og við eigum að venjast, atkvæði eða einstaka hluti eða hugmyndir. Hann gat einnig lært koptísku af þessum textum og þýtt mikinn texta frá því máli sem er síðasta stig fornegypsku, en það var þarna skrifað með grískum stöfum. Hugmyndir Champollions vöktu deilur meðal fræðimanna fyrst í stað og inn í þær fléttuðust væringar með mönnum vegna umsvifa Napóleons. Sagan um uppgötvanir Champollions er engu að síður hrífandi dæmi um framfarir í vísindum.

Fornegypska tilheyrir afróasísku málaættinni, en í henni eru um 250 mál sem töluð eru á svæðinu frá Norður-Afríku til Vestur-Asíu. Meðal þessara mála má nefna arabísku, hebresku og hamitísk mál eins og sómalí og galla. Fornegypskan er ekki mjög lík þessum málum en ber þó skýr merki um sameiginlegan uppruna. Eftir að Arabar lögðu undir sig Egyptaland árið 640 eftir Krist hefur verið töluð arabíska í landinu.

Spyrjandi hefur mikinn áhuga á að læra fornegypsku. Við höldum ekki að það sé erfiðara að læra að lesa og skrifa hana en önnur framandi mál. Hins vegar er málið útdautt og þess vegna er því miður ekki einfalt verkefni að læra að tala það. Þetta er svipað og með latínu sem er ekki töluð sem móðurmál nú á dögum, en þó er sá munurinn að miklu styttra er síðan latína var töluð og þar byggjum við á samfelldri hefð tungumála sem hafa þróast frá henni.

Hitt er líka sameiginlegt með fornegypsku og latínu að bæði málin voru notuð öldum og þúsöldum saman og þróuðust og breyttust töluvert á þeim tíma. Fornegypska ritmálið líkir ekki heldur sérlega vel eftir talmálinu því að alla sérhljóða vantar í það eins og áður er sagt.

Mikið efni er að finna á Veraldarvefnum um helgirúnir og skyld fræði. Hægt er að finna það út frá leitarorðum eins og "hieroglyphs, Egyptology, hieratic, demiotic". Okkur sýnist af þessu efni að við getum einnig mælt með bókinni How to Read Egyptian Hieroglyphs eftir Mark Collier.

Auk þess er hægt að lesa á íslensku um Champollion og fleira þessu tengt hjá C.W. Ceram, 1953, sjá heimildaskrá.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:

Höfundar

Ulrika Andersson

vísindablaðamaður

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

12.3.2002

Spyrjandi

Erlingur Einarsson, f. 1988

Tilvísun

Ulrika Andersson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað getið þið sagt mér um egypskar rúnir? Er hægt að læra fornegypsku?“ Vísindavefurinn, 12. mars 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2176.

Ulrika Andersson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 12. mars). Hvað getið þið sagt mér um egypskar rúnir? Er hægt að læra fornegypsku? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2176

Ulrika Andersson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað getið þið sagt mér um egypskar rúnir? Er hægt að læra fornegypsku?“ Vísindavefurinn. 12. mar. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2176>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um egypskar rúnir? Er hægt að læra fornegypsku?


Elsta fornegypska letrið nefnist híeróglýfur eða helgirúnir og er upphaflega myndletur þar sem hvert tákn er upphaflega mynd af einhverju sem tengdist því sem það vísaði til. Elstu áletranir sem fundist hafa eru frá tímabilinu 2920-2575 fyrir Krist og er talið að þær hafi verið gerðar skömmu eftir að notkun letursins hófst.

Híeróglýfur voru í fyrstu einkum notaðar í trúarlegum textum og af því draga þær nafn sitt. Orðið er grískt og merkir eiginlega "heilagur útskurður" en egypska heitið merkti "orð guðsins". Híeróglýfurnar voru notaðar á svipaðan hátt og letur yfirleitt, til að skrá, tímasetja og staðsetja hluti, verk og atburði.

Egypskt myndletur lítur út eins og litlar myndir sem raðað er í lóðréttar raðir. Yfirleitt á að lesa raðirnar frá hægri til vinstri en þó stundum öfugt. Oft er hægt að komast að því í hvora áttina á að lesa með því að athuga hvernig fólk og dýr á myndunum snúa því að þau horfa yfirleitt í átt að upphafi textans.

Eftir að myndmálið þróaðist gat hvert tákn staðið ýmist fyrir hlut, annað orð sem tengdist tákninu eða fyrir tiltekið hljóð. Þannig gátu tveir hringir táknað annaðhvort "sól", "dagur" eða "sólguð". Sérhljóð eru ekki táknuð í híeróglýfum og voru þau því valin eftir samhengi.

Um leið og helgirúnirnar komu til sögu hófst lestur og sagnaritun hjá Fornegyptum. Því fór þó fjarri að allir gætu skrifað þetta letur. Slík kunnátta var takmörkuð við presta sem jafnframt urðu þá að skrifarastétt er þjálfaði sjálf arftaka sína. Skrifurunum fannst mikilvægt að vernda ritmálið fyrir breytingum þannig að híeróglýfurnar breyttust óverulega þó að talmál tæki breytingum í landinu.

(Mynd úr bók Cerams, bls. 98).

Í fyrstu var skriftin nokkuð óregluleg. Reglur virðast þá hafa verið óljósar og því er ógerningur að þýða textana. Um 2600 fyrir Krist byrjuðu skrifararnir hins vegar að setja sér reglur en þá voru táknin orðin um 700. Sú tala hélst í aðalatriðum óbreytt í 2000 ár. Fyrst í stað var mest um áletranir sem grafnar voru á lágmyndir eða málaðar á tré eða málm. Snemma var farið að rista híeróglýfur á lok á krukkum til að merkja þær eiganda sínum og lýsa innihaldi þeirra og meðferð. Einnig skrifuðu menn söngva, trúarreglur, helgisiði, goðsagnir og bænir.

Skrift með helgirúnum var ekki sérlega þjál til mikilla ritstarfa eins og skrifararnir þurftu að vinna þegar fram liðu stundir. Þess vegna þróaðist önnur skrift sem við getum kallað á íslensku prestaletur (enska hieratic). Það var í fyrstu byggt á helgirúnunum en þróaðist síðan sjálfstætt. Það var oftast skrifað með reyrpenna og bleki á papýrus eða leður.

Í þriðja lagi þróaðist svokallað alþýðuletur (demotic writing) frá því um 700 fyrir Krist og var notað í viðskiptum og í bókum. Fjögur hundruð árum síðar barst grískt stafróf til Egyptalands og kom smám saman í staðinn fyrir fornegypsku leturgerðirnar. Síðasta þekkta áletrunin þar sem þær eru notaðar er frá árinu 349 eftir Krist.

Eins víst er að helgirúnir væru okkur óskiljanlegar enn þann dag í dag ef ekki væri fyrir Rósetta-steininn sem fannst í Egyptalandsleiðangri Napóleons við Níl árið 1799. Þetta er steinsúla úr svörtu basalti með 14 röðum af híeróglýfum, 32 röðum af alþýðuskrift og 54 röðum með grískum bókstöfum, en sama frásögnin er á öllum þremur ritmálunum. Sagan segir að prestar hafi skrifað það sem á steininum stendur um 205-180 fyrir Krist.

Þar sem sami textinn er þarna skrifaður á þrjá vegu var þetta auðvitað mikill happafengur fyrir fræðimenn sem höfðu verið að glíma við gátu helgirúnanna án árangurs. Einn af þessum mönnum var breski læknirinn og eðlisfræðingurinn Thomas Young (1773-1829) sem er frægur í sögu eðlisfræðinnar fyrir merkilegar tilraunir sem sýndu bylgjueðli ljóssins. Hann fékkst einnig við fornegypsk fræði og komst að því hvar ætti að byrja að lesa á Rósetta-steininum, flokkaði táknin á honum og komst langt með að þýða textann.

En það var franska undrabarnið Jean-François Champollion (1790-1832) sem réð gátuna til hlítar og lagði þannig hornsteininn að skilningi manna á fornegypskum fræðum. Hann komst að því helgirúnirnar gátu ýmist táknað bókstafi eins og við eigum að venjast, atkvæði eða einstaka hluti eða hugmyndir. Hann gat einnig lært koptísku af þessum textum og þýtt mikinn texta frá því máli sem er síðasta stig fornegypsku, en það var þarna skrifað með grískum stöfum. Hugmyndir Champollions vöktu deilur meðal fræðimanna fyrst í stað og inn í þær fléttuðust væringar með mönnum vegna umsvifa Napóleons. Sagan um uppgötvanir Champollions er engu að síður hrífandi dæmi um framfarir í vísindum.

Fornegypska tilheyrir afróasísku málaættinni, en í henni eru um 250 mál sem töluð eru á svæðinu frá Norður-Afríku til Vestur-Asíu. Meðal þessara mála má nefna arabísku, hebresku og hamitísk mál eins og sómalí og galla. Fornegypskan er ekki mjög lík þessum málum en ber þó skýr merki um sameiginlegan uppruna. Eftir að Arabar lögðu undir sig Egyptaland árið 640 eftir Krist hefur verið töluð arabíska í landinu.

Spyrjandi hefur mikinn áhuga á að læra fornegypsku. Við höldum ekki að það sé erfiðara að læra að lesa og skrifa hana en önnur framandi mál. Hins vegar er málið útdautt og þess vegna er því miður ekki einfalt verkefni að læra að tala það. Þetta er svipað og með latínu sem er ekki töluð sem móðurmál nú á dögum, en þó er sá munurinn að miklu styttra er síðan latína var töluð og þar byggjum við á samfelldri hefð tungumála sem hafa þróast frá henni.

Hitt er líka sameiginlegt með fornegypsku og latínu að bæði málin voru notuð öldum og þúsöldum saman og þróuðust og breyttust töluvert á þeim tíma. Fornegypska ritmálið líkir ekki heldur sérlega vel eftir talmálinu því að alla sérhljóða vantar í það eins og áður er sagt.

Mikið efni er að finna á Veraldarvefnum um helgirúnir og skyld fræði. Hægt er að finna það út frá leitarorðum eins og "hieroglyphs, Egyptology, hieratic, demiotic". Okkur sýnist af þessu efni að við getum einnig mælt með bókinni How to Read Egyptian Hieroglyphs eftir Mark Collier.

Auk þess er hægt að lesa á íslensku um Champollion og fleira þessu tengt hjá C.W. Ceram, 1953, sjá heimildaskrá.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

Myndir:...