Það var ekki fyrr en um miðja síðustu öld að rofa tók til og má þakka það rússneska málfræðingnum Yuri Knorosov (1922-1999), sem upphaflega sérhæfði sig í egypskum fornfræðum. Sem ungur maður barðist hann í sovéska hernum við töku Berlínar og þar hirti hann úr brennandi safni handritsbút sem olli straumhvörfum í ráðningu Mayaletursins. Knorosov hóf að birta rannsóknir sínar 1952 og komst fljótt að því að letur Mayanna var hvorki hreint táknletur né hljóðletur, heldur blanda af hvoru tveggja. Hann uppgötvaði að letrið byggðist á atkvæðum en ekki einstökum stöfum í venjulegu stafrófi. Eins og vænta mátti ollu svo róttækar hugmyndir fjaðrafoki og deilum meðal fræðimanna en ekki liðu mörg ár þar til menn féllust á þær hugmyndir Knorosov að hljóðfræðilegir þættir væru grunnatriði í ráðningu Mayaletursins. Síðari fræðimenn, ekki síst Heinrich Berlin, Tatiana Proskouriakoff, Michael D. Coe og Nikolai Grube hafa síðan hnikað málum áfram og nú er talið að nálega 90% af öllum þekktum leturflötum Mayanna hafi verið ráðnir. Um hvað fjalla svo textar Mayanna? Rannsóknir síðustu áratuga hafa leitt í ljós að flestir textarnir eru sögulegir, segja frá fæðingu, valdatöku og stóratburðum í lífi einstakra konunga, frá stríði við borgríki í nágrenninu og svo framvegis. Ráðning textanna hefur því stórlega aukið þekkingu okkar á sögu Mayanna. Allir leturfletirnir hafa dagsetningar sem auðvelda fræðimönnum að setja atburði í sögulegt samhengi. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hverjir voru Mayar og hvar bjuggu þeir? eftir Sigurð Hjartarson
- Hvers konar borgir og byggingar byggðu Mayarnir og voru þær skreyttar á einhvern hátt? eftir Sigurð Hjartarson
- Hvernig var samfélag Mayanna, við hvað unnu þeir og hver var heimsmynd þeirra? eftir Sigurð Hjartarson
- Hvað getið þið sagt mér um egypskar rúnir? Er hægt að læra fornegypsku? eftir Ulriku Andersson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað er fleygletur? eftir Guðrúnu Kvaran
- Hver fann upp stafrófið? eftir Ian Watson
- Diego de Landa: Relación de las Cosas de Yucatán. Historia 16, Madrid, 1985.
- R.J. Sharer: The Ancient Maya; 5. útg. Stanford Univ. Press, 1994.
- Michael D. Coe: The Maya. Pelican Books 1971.
- Maria Longhena: Maya Script. New York, 2000.
- T.P. Culbert: Maya Civilization. Washington D.C., 1993.
- Mynd: Maya script á Wikipedia. Sótt 13. 5. 2011.