Það sem helst einkennir byggingarlist Mayanna er að allar byggingar hvíla á sterkum steingrunnum, allt að nokkurra metra háum. Annað sérkenni flestra bygginga, er þakgerðin. Mayar notuðu ekki reglulega burðarboga eins og Rómverjar forðum en beittu svipuðum lögmálum til að bera uppi þök með því að setja steina sífellt innar með vaxandi hæð.
Bogarnir voru þeim vissulega kunnir svo sem sjá má á stjörnuskoðunarturninum í Chichén Itzá og víðar. Flöt steinþök voru algeng en þá var burðarvirkið viðarstoðir og smurt yfir, undir og á milli stoða með steinlími. Þriðja einkenni flestra bygginga eru skreytingar á útveggjum þar sem flókin og oft ótrúlega fíngerð steinmósaík þekur veggi.
Innandyra voru byggingar gjarnan mikið skreyttar með lágmyndum og meðfylgjandi leturflötum auk þess sem marglitar freskur hafa komið í ljós á allmörgum stöðum. Langþekktust veggmálverkanna eru freskurnar í Bonampak í Chiapas-fylki í Mexíkó, málaðar árið 790. Þar eru veggir þriggja lítilla sala í einu húsi þaktir marglitum freskum sem voru í fullkomnu ástandi er þær fundust aftur árið 1946. Á myndunum segir frá tilnefningu eða krýningu nýs ríkisarfa. Í fyrsta salnum er lýst undirbúningi vígslunnar, komu hljómsveitar á staðinn þar sem fyrir eru konungur, tignir gestir og æðstu aðstoðarmenn. Í öðrum sal er lýst árás á nærliggjandi konungsríki, töku fanga, dómi yfir þeim og refsingu á tröppum hofs eða hallar. Í þriðja salnum er lýst hápunkti athafnarinnar með trúardansi á tröppum píramída, þar sem konungur og ættmenn hans í dýrlegum klæðum vekja sér blóð í þágu guðanna. Fjöldi táknmynda á myndflötunum sýna dagsetningar atburða og skýra myndirnar með nöfnum og titlum þátttakenda. Allar eru myndirnar afar natúralistískar þar sem þekkja má ýmsar persónur frá einum sal til annars. Í fyrsta salnum eru andlitsdrættir fólk afslappaðir, í öðrum salnum grimmir í árásinni, í þriðja salnum ábúðarfullir og upphafnir við dómana og fórnirnar. Natúralisminn er mun sterkari og teikningin öll listrænni en sjá má í evrópskri list frá sama tíma.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hverjir voru Mayar og hvar bjuggu þeir? eftir Sigurð Hjartarson
- Hvers konar letur notuðu Mayarnir og um hvað fjalla varðveittir textar þeirra? eftir Sigurð Hjartarson
- Hvernig var samfélag Mayanna, við hvað unnu þeir og hver var heimsmynd þeirra? eftir Sigurð Hjartarson
- Diego de Landa: Relación de las Cosas de Yucatán. Historia 16, Madrid, 1985.
- R.J. Sharer: The Ancient Maya; 5. útg. Stanford Univ. Press, 1994.
- Michael D. Coe: The Maya. Pelican Books 1971.
- Maria Longhena: Maya Script. New York, 2000.
- T.P. Culbert: Maya Civilization. Washington D.C., 1993.
- J.A. Sabloff: The Cities of Ancient Mexico. London, 1997.
- Mary Ellen Mirren: Maya Art and Architeture. London, 1999.
- S.G. Morley: La Civilización Maya. Mexico, DF, 1994.
- Teikning af Copán: Western Kentucky University
- Teikningar af þakgerðum: S.G. Morley (1994), bls. 333)
- Mynd af steinmósaík: Mesoweb Freskur í Bonampak: Ancient Americas