Stærðfræðikennsla í skólum á að endurspegla hinar fjölbreyttu ásýndir stærðfræðinnar. Hún er vísindi, list, tjáningarmiðill og tæki til að takast á við erfið úrlausnarefni.Getur þessi tilvitnun fært lesandann nær svarinu? Lítum á viðfangsefni stærðfræðinnar. Í svari við spurningunni Hver fann upp stærðfræðina? var haft eftir þýska nítjándu aldar stærðfræðingnum Kronecker að Guð hafi skapað heilu tölurnar en allt hitt væri mannanna verk. Þá var raunar átt við jákvæðar heilar tölur. Færa má rök að því að fyrirbrigði eins og neikvæðar tölur séu verk manna, skipan sem menn hafa fundið upp sem eins konar eftirlíkingu eða tvífara jákvæðu talnanna, til dæmis í þeim tilgangi að greina á milli eigna og skulda eða tekna og gjalda.
En séu heilu jákvæðu tölurnar ekki mannanna verk, þá mætti segja hið sama um grunnformin beina línu og hring, jafnvel lokaða ferla, svo sem þríhyrning og ferhyrning, eða rúmmyndir eins og kúlu. Sumir mundu jafnvel segja að stærðfræðin sé allt í kring um okkur, við þyrftum einungis að uppgötva hana. Samkvæmt því hafa tölur og form alltaf verið til. Menn hafi uppgötvað þessa hluti og síðan skapað um þau kerfi. Það sem mætti þá eigna mönnum sem uppfinningu er að skapa kerfi um þessar grundvallareiningar. Stærðfræðileg kerfi eru þá uppfinning manna; vísindaleg kerfi sem nota má sem tjáningarmiðil og tæki til að takast á við erfið úrlausnarefni eða þau mætti flokka sem hreina list. Mynd: Heimasíða Fractal Explorer.