Hvert fara jökulhlaup ef það gýs í miðri Bárðarbunguöskjunni og hversu stór geta þau orðið. Er hamfarahlaupið í Jökulsá á fjöllum fyrir 2500-2800 árum þaðan?Jökulhlaup vegna gosa í þeim hluta Bárðarbungu-Veiðivatnakerfis sem er undir jökli, hafa runnið til suðvesturs, vesturs og norðausturs – og ef til vill til suðausturs um Grímsvötn. Hlaupvatn hefur runnið um Tungnaá, til dæmis 1766, til Vonarskarðs í Skjálfandafljót, til dæmis 1902, og um Dyngjuháls í Jökulsá á Fjöllum á árunum 1711-1729 og 1902.[1] Hlaupvatn hefur runnið undan Sylgjujökli um farveg Sylgju og áfram til vesturs norðan Gjáfjalla, eins og Tröllahraun rann síðar,[2] einnig um farveg Köldukvíslar að Syðri-Hágöngu og þaðan til Þjórsár.[3] Ekki er ljóst hvort þessi hlaup voru vegna eldgosa undir jökli. Gos í suðurhlíðum Bárðarbungu geta veitt hlaupvatni til Skaftárkatla og Grímsvatna[4] og valdið hlaupum í Skaftá og Skeiðará. Vel má vera að aukin merki um jarðhitavatn í Jökulsá á Fjöllum í Gjálpargosinu 1996 hafi verið ættuð úr öskju Bárðarbungu.[5] Ummerki um allmörg jökulhlaup í Jökulsá á Fjöllum eru þekkt frá forsögulegum tíma, en ekki vitað hvort þau voru öll af völdum eldgosa, né heldur hvort eldgosin voru á Bárðarbungu-Veiðivatnakerfi.[6] Tvö þessara hlaupa voru hamfarahlaup, það yngra með reiknuðu hámarksrennsli um eða yfir hálfri milljón rúmmetra á sekúndu og talið hafa komið að minnsta kosti að hluta undan Dyngjujökli fyrir um það bil 2500 árum. Óljóst er hvort orsökin var tæming jökulstíflaðs lóns eða eldgos. Tilvísanir:
- ^ Sigurður Þórarinsson, 1950. Jökulhlaup og eldgos á jökulvatnasvæði Jökulsár á Fjöllum. Náttúrufræðingurinn, 20, 113-133. Sigurður Þórarinsson, 1974. Vötnin stríð. Saga Skeiðarárhlaupa og Grímsvatnagosa. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
- ^ Elsa Vilmundardóttir og Guðrún Larson, óbirt gögn. Ingibjörg Kaldal og fleiri, 1990. Jarðgrunnskort: Botnafjöll, 1913 IV, 1:50.000. Landmælingar Íslands, Orkustofnun og Landsvirkjun, Reykjavík.
- ^ Sigmundur Freysteinsson , 1972. Jökulhlaup í Köldukvísl. Jökull, 22, 83-88.
- ^ Helgi Björnsson og fleiri, 1992. Vatnajökull, Norðvesturhluti, 1:100 000. Ísa- og vatnaskil. Raunvísindastofnun Háskólans og Landsvirkjun, Reykjavík.
- ^ Hrefna Kristmannsdóttir og fleiri, 1999. The impact of the 1996 subglacial volcanic eruption in Vatnajökull on the river Jökulsá á Fjöllum, North Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research, 92, 359-372.
- ^ Sigurður Þórarinsson, 1959. Some geological problems involved in the hydroelectric development of the Jökulsá á Fjöllum. Rannsóknarskýrsla. Rafmagnsveitur ríkisins, Reykjavík. Haukur Tómasson, 1973. Hamfarahlaup í Jökulsá á Fjöllum. Náttúrufræðingurinn, 62, 77-98. Kristján Sæmundsson, 1973. Straumrákaðar klappir í kringum Ásbyrgi. Náttúrufræðingurinn, 43, 52-60. Helgi Björnsson og Páll Einarsson, 1990. Volcanoes beneath Vatnajökull, Iceland. Evidence from radio echo-sounding, earthquatkes and jökulhlaups. Jökull, 40, 147-168. Waitt, R.B., 2002. Great Holocene floods along Jökulsá á Fjöllum, north Iceland. Flood and Megaflood Processes and Deposits: Recent and Ancient Examples. (P.I. Martini, V.R. Baker og G. Garzon ritstjórar). Special Publications of the International Association of Sedimentologists. Blackwell Science, Oxford, 37-51. Kirkbride, M.P. og fleiri, 2006. Radiocarbon dating of mid-Holocene megaflood deposits in the Jökulsá á Fjöllum, north Iceland. Holocene, 16, 605-609.
- Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar, bls. 252.
Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.