Markflæði má ráða af bylgjuhraða á vatni: Sé steini kastað í kyrrt vatn berast bylgjur frá steininum jafnt í allar áttir, en í streymandi vatni hraðar undan straumnum en móti honum, þá er Fr < 1. Við straumhraða markflæðis berast engar bylgjur móti straumi (Fr = 1), en við hraðara streymi (Fr > 1) fer að „togna á vatninu“ þar sem það streymir hraðar en vatnið rétt ofar í farveginum – þetta sést meðal annars á vatnsborðslækkun ofan við flúðir. Þetta getur leitt til slagsuðu í vatninu, eins og fram kemur á myndinni hér fyrir meðan þar sem straumhraði er teiknaður móti vatnsdýpi, hvort tveggja á lograkvarða. Þar kemur fram að bæði við Vaðöldu (A) og Upptyppinga (B og C) hefur slagsuða átt þátt í rofinu.
Í greininni eru reiknaðar ýmsar fleiri stærðir sem koma við sögu, svo sem skerspenna milli vatns og bergs, en hún er háð straumhraða, seigju vatnsins og dýpi.
Hér má sjá stórgrýti sem hlaupið hefur lagt frá sér í Möðrudal – takið eftir manninum á miðri mynd.
Stutt svar við spurningunni er því, að hitamyndun skiptir sennilega ekki máli við vatnsrof, en að slagsuða geti verið mikilvægur rofvaldur í miklum hamfarahlaupum. Þess má geta í lokin að "slagsuða" hefur verið nefnd "holun" af jarðfræðingum, sem er ágæt þýðing (eða aukaþýðing) á "cavitation". Frekari fróðleikur á Vísindavefnum eftir sama höfund:
- Hvað er vatnsrof?
- Hvenær er talið að Jökulsá á Fjöllum hafi byrjað að mynda undirlendi í Öxarfirði með framburði sínum?
- Alho o.fl., 2005. Reconstruction of the largest Holocene jökulhlaup within Jökulsá á Fjöllum, NE Iceland. Quaternary Science Reviews, 24, 2319-2334.
Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvað gerist í bergi þar sem hamfarahlaup rennur yfir? Í svarinu við spurningunni ,,Hvað er vatnsrof?" kemur fram að um sogkraft er að ræða. Myndast ekki líka (verulegur) hiti sem myndar þenslu í berginu og greiðir fyrir því að losnar um það? Ég hefði líka áhuga á að vita hvort myndast loft við bergið, eins og þegar skipsskrúfa er keyrð of hratt í sjó. Hver eru áhrif þess lofts á rofmáttinn?