Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er rétt að rostungar (Odobenus rosmarus L.) hafa ekki haft fasta viðveru við Ísland um alllangt skeið (margar aldir). Þau stöku dýr sem sjást hér öðru hvoru, um eitt dýr að jafnaði tíunda hvert ár miðað við síðustu 4–5 áratugi, eru flækingar, líklega mest frá Grænlandi. Þau hafa hér skamma dvöl og eru iðulega horfin innan mánaðar.
Meginskýringin á því af hverju þessi flækingsdýr taka sér ekki bólfestu hér við land nú á tímum er líklega að hér er of hlýtt og það skortir ís, sem rostungarnir virðast vera töluvert háðir, að minnsta kosti yfir æxlunartímann og kelfingu. Þá er ekki ólíklegt að dýrunum standi ógn af manninum, en flestir rostungsstofnar hafa frá fornu fari fengið að kenna á ofveiðum og drápum fram úr hófi.
Beinaleifar rostunga hafa fundist á um 230 stöðum á landinu, aðallega á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Einn algengasti fundarstaðurinn er á Snæfellsnesi þar sem þessi mynd er tekin. Þar kastast stundum á land í þungu brimróti tennur og hausar rostunga. Rostungshausinn á myndinni reyndist vera um 1300 ára gamall og nær 12 kg. Ljósmynd: Hilmar J. Malmquist.
Spurningin sem lögð er fram er mjög áhugaverð og gefur til kynna að rostungar hafi áður fyrr lifað við Ísland. Um það hefur þó ríkt óvissa enda lítið um áreiðanleg gögn þar til nýverið að hópur vísindamanna frá Íslandi, Danmörku og Hollandi svipti hulunni af ráðgátunni. Hópurinn staðfesti í fyrsta skipti með erfðarannsóknum og aldursgreiningum á beinaleifum rostunga að á Íslandi lifði sérstakur rostungsstofn um nokkurra þúsunda ára skeið sem varð útdauður um og upp úr landnámi fyrir um 1100 árum.
Gamlar beinaleifar rostunga finnast víða við strendur landsins, einkum þó á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Alls eru þekktir liðlega 220 náttúrlegir fundir beinaleifa og um tugur funda beinaleifa úr fornleifauppgreftri.
Rostungar í látri við Svalbarða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Meginútbreiðsla á fundarstöðum beinaleifa rostunganna endurspeglar vel útbreiðslu á kjörlendi rostunga með tilliti til búsvæða og fæðu. Þetta á líka við um landfræðilega dreifingu á rostungsörnefnum og sögum af rostungum í fornritum. Á vestanverðu landinu og Vestfjörðum er mikið af aðgengilegu, skjólsömu strandsvæði og passlega djúpu sem hentar bæði sem látur og til fæðuöflunar. Í þessum landshlutum er einnig að finna meginútbreiðslu þriggja helstu fæðudýra rostunga, það er rataskeljar, smyrslings og krókskeljar. Þessar þrjár samlokutegundir hafa þrifist við Ísland í fleiri milljónir ára.
Samanburður á erfðaefni hvatbera í beinaleifum rostunga frá Íslandi við DNA-raðir úr núlifandi rostungum og gömlum beinaleifum frá öðrum svæðum í Norður-Atlantshafi, sýnir að rostungarnir á Íslandi mynduðu sérstakan erfðafræðilegan stofn. Greining á aldri beinanna með geislakoli sýndu enn fremur að íslenski rostungsstofninn var hér allt frá því fyrir um 7000 árum f.Kr. fram til 1200 árum e.Kr., en flest sýnanna voru frá því fyrir landnám.
Rostungshaus úr fjöru á Ytri-Görðum, Snæfellsnesi. Sýni nr. W-27. Fundinn í ágúst 2015. Aldur (ár): 1313 ± 27 (C-14 leiðrétt, BP=1950). Heildarþyngd ca. 12 kg, þar af lengri skögultönn 1,7 kg og 57 cm og sú syttri 1,5 kg og 53 cm. Ljósmynd: Vigfús Birgisson fyrir Náttúruminjasafn Íslands.
Líklegt er að veiðar á rostungum og verslun með afurðir þeirra, skögultennur, húðir og lýsi hafi átt þátt í útrýmingu dýranna, en þessar afurðir voru mikils metnar og afar eftirsóttar á landnáms- og þjóðveldisöld (870–1262). Aðrir þættir, einkum hlýnandi loftslag, ísleysi og eldgos, gætu hafa ýtt undir útrýmingu tegundarinnar á Íslandi.
Niðurstöður áðurnefndrar rannsóknar eru meðal fyrstu hugsanlegra dæma um ofnýtingu manna á sjávarlífverum. Niðurstöður rannsóknarinnar, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að, voru birtar í september 2019 í vísindatímaritinu Molecular Biology and Evolution og ber greinin heitið Disappearance of Icelandic Walruses Coincided with Norse Settlement.
Heimildir:
Xénia Keighley, Snæbjörn Pálsson, Bjarni F. Einarsson, Aevar Petersen, Meritxell Fernández-Coll, Peter Jordan, Morten Tange Olsen og Hilmar J. Malmquist. (2019). Disappearance of Icelandic Walruses Coincided with Norse Settlement. Molecular Biology and Evolution, 36(12): 2656–2667.
Bjarni F. Einarsson. (2011). Róum við í selin, rostungs út á melinn. Um rostunga við Íslandsstrendur. Í: Fjöruskeljar. Afmælisrit Til heiðurs Jónínu Hafsteinsdóttur sjötugri 29. mars 2011 (bls. 31-52). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Ævar Petersen. (1993). Rostungar við Ísland að fornu og nýju. Í: Pál Hersteinsson & Sighvatur Gottormsson (ritstjórar), Villt íslensk spendýr (bls. 214–216). Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd.
Bergsveinn Birgisson. (2016). Leitin að svarta víkingnum. Reykjavík: Bjartur.
Sandgerði er á Romshvalsnesi. Áður fyrr var mikið af rostungum á svæðinu. Getið þið sagt mér af hverju rostungar lifa ekki lengur þar eða bara á Íslandi yfir höfuð?
Hilmar J. Malmquist. „Af hverju hurfu rostungar frá Íslandi?“ Vísindavefurinn, 6. janúar 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67675.
Hilmar J. Malmquist. (2020, 6. janúar). Af hverju hurfu rostungar frá Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67675
Hilmar J. Malmquist. „Af hverju hurfu rostungar frá Íslandi?“ Vísindavefurinn. 6. jan. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67675>.