Hvað er orðið lýsi gamalt í málinu og er það ekki almennt heiti um ákveðna vörutegund? Nú hefur fyrirtækið Lýsi, að sögn, tryggt sér einkaréttinn á vöruheitinu Lýsi um vörur sem eru lýsi og hótar öðrum málsókn sem nota það orð um vörur sem almenningur þekkir sem lýsi.Heimildir um orðið lýsi hafa verið til í íslensku máli eins langt aftur og ritaðir textar ná og landnámsmenn hafa án efa flutt orðið með sér til landsins. Upphaflega merkingin var 'ljósmeti' enda er orðið rótskylt ljós 'birta, skin; logi, birtugjafi', myndað með hljóðvarpi. Lýsi gat í fornu máli merkt 'birta, ljómi, skin' og þeirri merkingu tengist það orðinu nýlýsi 'birta af vaxandi tungli'. Einnig gat lýsi merkt 'bráðin fita' sem gat bæði verið unnin úr lifur fiska og spiki spendýra, einkum hvala, hákarla og sela. Þessi fita var meðal annars notuð sem ljósmeti. Notaður var sérstakur lýsislampi allt fram undir 1870 að steinolíulampinn kom í staðinn. Best þótti sellýsi sem birtugjafi, þá hákarlslýsi en þorskalýsið verst. Kveikirnir voru úr fífu. Lýsi hefur einnig lengi verið nýtt til manneldis. Áður fyrr var það stundum haft út á fisk og þegar lítið var um viðbit, til dæmis smjör, bræddu menn saman tólg og lýsi og hét afurðin bræðingur. Í áratugi hefur lýsi til manneldis verið selt á flöskum. Nú er einnig hægt að kaupa lýsi í töfluformi. Heimildir:
- Jónas Jónasson. 1961. Íslenzkir þjóðhættir. Þriðja útg. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
- Lúðvík Kristjánsson. 1980. Íslenskir sjávarhættir. Reykjavík: Menningarsjóður.
- File:Lýsislampi 3.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 29.02.2016). Birt undir leyfinu Creative Commons Attribution-Share Alike 3.0 Unported license.