Í myndlist síðmiðalda birtist hún oft sem fögur og andlitsföl kona, á þeysireið í vagni sem hvítir fákar draga. Stundum er hún í forláta skikkju með hálfmána á höfðinu, sitjandi á baki hests eða nauts og með kyndil í hönd.
Hlutverk hennar er alveg skýrt. Á kvöldin þegar rökkva tekur og nóttin færist yfir stígur hún endurnærð upp úr hinum mikla útsæ (Ókeanos) sem umflýtur jörðina og tekur við af bróður sínum Helíosi og heldur áfram hringferðinni um himininn. Á ferð sinni yfir næturhimininn lýsist öll jörðin upp af geislum á höfði hennar og er þar komin skýringin á mánaskini nætur.
Selena hefur yndi af fögrum sveinum. Hún kemur til þeirra um nætur og kyssir þá í svefni og dáist af fegurð þeirra. Einn sá frægasti nefnist Endymíon, konungssonur frá Elís í Litlu-Asíu. Hann elskaði Selenu afar heitt. Til að Selena gæti ávallt komið og hrifist af æskuþokka Endymíons bað hún Seif um að láta hann sofa að eilífu. Æ síðan hefur Endymíon sofið undir Latmos-fjalli í Litlu-Asíu, nálægt Míletos. Selena heimsækir hann stundum til að dást að fegurð hans en hún á með honum 50 dætur og heitir sú frægasta Naxos. Endymíon er þekkt táknmynd fullkominnar líkamsfegurðar.
Selena er einnig sögð hafa átt í ástarsambandi við Seif sem gat við henni dóttur, hina albjörtu Pandíu, en fegurð hennar var rómuð meðal goðanna. Samkvæmt sumum frásögnum er Nemeu-ljónið einnig afkvæmi Selenu og Seifs. Skógarpúkinn Pan átti líka í leynilegu ástarsambandi við Selenu en hann tældi hana með því að dulbúast sem kind.
Rómversk hliðstæða Selenu nefnist Luna en gervitungl Luna-geimferðaáætlunar Sovétmanna báru nafn hennar, til dæmis Luna 1 sem skotið var á loft 1959. Luna 1 var fyrsta geimfarið sem komst í námunda við tunglið.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Eftir hvaða guðum heita allar reikistjörnurnar? eftir Sævar Helga Bragason, eðlisfræðinema
- Af hverju er nafnið Tellus (jörðin) komið og hvað heitir tungl okkar á stjörnufræðimáli? eftir EÖÞ
- Hvernig varð heimurinn til samkvæmt grískri goðafræði? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hvernig lítur yfirborð tunglsins út? eftir Sævar Helga Bragason
- Hver eru kennitákn grísku goðanna? eftir Ulriku Andersson
- Selene Wikipedia, Frjálsa alfræðiritið.
- Luna 1 Wikipedia, Frjálsa alfræðiritið.
- Wikimedia Commons - Edward John Poynter - The Vision of Endymion, 1902. (Sótt 18.6.2018).