Pabbi minn býr í Svíþjóð og hefur verið spurður hvaðan orðið ferming er komið, þar sem ferming er á flestum tungumálum confirmatio.
Nafnorðið ferming er leitt með viðskeytinu –ing af sögninni að ferma 'staðfesta skírnarsáttmála eða trúarheit einhvers’. Það kom inn í málið fljótlega eftir kristnitöku eins og svo mörg önnur orð sem tengjast helgihaldi. Þar mætti nefna orðin altari, djákni, kirkja, klerkur, messa. Bæði orðin ferma og ferming koma fyrir í fornum heimildum eins og til dæmis Postulasögum. Í Íslenskri orðsifjabók (1989:171) er talið líklegt að sögnin ferma sé tökuorð úr miðlágþýsku eins og mörg önnur orð tengd kristni og kirkju. Í miðlágþýsku var sögnin vermen sem aftur er fengin að láni úr latínu firmāre 'festa, styrkja’. Latneska nafnorðið confirmation 'styrking, staðfesting’ og sögnin confirmāre 'styrkja, staðfesta’ eru af sama stofni og ferma, mynduð með forskeytinu con- 'sam-, saman’. Öll eru latnesku orðin leidd af lýsingarorðinu firmus 'fastur, sterkur, stöðugur, staðfastur’. Flest nágrannamálin hafa valið forskeyttu sögnina og þá um leið forskeytta nafnorðið, til dæmis konfirmere, konfirmation, þ. Konfirmieren, Konfirmation, en íslenska heldur sig við gamla tökuorðið, enda náði latneski forliðurinn con- aldrei að festa hér rætur. Mynd:
- Konfirmasjon - Wikipedia. (Sótt 05.06.2014).