Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er best að kenna íslenska málfræði?

Höskuldur Þráinsson

Áður en þessari spurningu er svarað þarf fyrst að átta sig á því hvað á að kenna og til hvers. Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er markmið íslenskukennslu meðal annars að „fræða um mál og bókmenntir og ... efla færni í málnotkun“ og svipað á við um framhaldsskólann. Spurningin er þá hvernig málfræðikennsla tengist þessu. Sumir virðast líta svo á að málfræðikennslan sjálf eigi að „efla færni í málnotkun“, það er kenna grunnskólabörnum beinlínis að tala og skrifa, og hún eigi engan rétt á sér nema hún geri það. En þetta er misskilningur sem gæti stafað af því að málfræðikennsla í íslenskum skólum tengdist upphaflega kennslu í latínu og öðrum málum sem nemendur kunnu ekkert í þegar þeir komu í skólann. Þess vegna þurfti í raun og veru að kenna þeim að beygja sagnir eins og latnesku sögnina amo ‘elska’ í persónu, tölu, tíð, hætti og mynd (amo – amas – amat – amamus – amatis – amant og svo framvegis). En þannig er þetta auðvitað ekki þegar íslenskir nemendur og íslensk málfræði á í hlut.

Nemendur kunna málfræði síns eigin móðurmáls að langmestu leyti þegar skólaganga þeirra hefst og þess vegna þarf til dæmis ekki að kenna íslenskum nemendum að beygja sagnir eins og elska (ég elska – þú elskar – hann/hún elskar – við elskum – þið elskið – þau elska ...). Hins vegar þekkja börn auðvitað ekki þau málfræðihugtök sem eru notuð í lýsingu á málum og umræðum um þau, til dæmis hugtök eins og persóna, tala, háttur, tíð, fall, kyn og svo framvegis og þau gera sér enga grein fyrir því hvaða hlutverki þessi fyrirbæri gegna í málinu. Málfræðikennslan á að kynna þessi hugtök og efla þennan skilning. Hún á sem sé að vera liður í því að „fræða um mál“, eins og segir í námskránni. Og þar á þá fyrst að leggja áherslu á það sem er einfalt og reglulegt en ekki einblína á það sem er óreglulegt og flókið. Annars fer allt í graut.

Nemendur kunna málfræði síns eigin móðurmáls að langmestu leyti þegar skólaganga þeirra hefst.

En af hverju á að „fræða um mál“ á þennan hátt? Er eitthvert gagn að því? Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að auðvitað á að fræða um málið og eðli þess eins og önnur fyrirbæri sem fjallað er um í skólakennslu, jafnvel þótt ekki sé alltaf ljóst að það hafi einhvern hagnýtan tilgang. Það þykir til dæmis sjálfsagt að fræða um sögu, jarðfræði og líffræði þótt ekki verði til dæmis séð að menn verði meiri afreksmenn í íþróttum af því að læra um mannslíkamann. En síðan er líka „gagn“ að því að læra lýsandi málfræði á þennan hátt vegna þess að málfræðihugtökin gera okkur kleift að ræða um mál, hvort sem það er íslenska eða önnur mál.

Þetta er til dæmis hliðstætt því að kenna tónfræði í tónlistarnámi. Nemandi í píanóleik verður ekki í sjálfu sér fingrafimari eða nákvæmari í túlkun blæbrigða af því að læra um hugtök eins og dúr, moll, þríund, sjöund, punkteruð nóta, mismunandi takttegundir (2/4, 3/4, 4/4, 5/4, 6/8 ...), fjórðapartsþögn, fermata, krómatískur skali og svo framvegis. En þessi hugtök gera kennaranum kleift að ræða um tónlist við nemandann og leiðbeina honum — og nemandinn getur líka sjálfur notað þau í umræðu um tónlist og um leið stuðla þau að því að hann áttar sig betur á uppbyggingu og eðli verkanna sem hann er að fást við. Eins þarf oft að nota málfræðileg hugtök í umfjöllun um mál og leiðbeiningum um málnotkun, hvort sem um er að ræða móðurmálið eða erlend mál. Málfræðikennsla þarf að taka mið af þessu og það er nauðsynlegt að bæði nemendur og kennarar átti sig á því.

Mynd:

Höfundur

Höskuldur Þráinsson

prófessor í íslensku við HÍ

Útgáfudagur

25.4.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Höskuldur Þráinsson. „Hvernig er best að kenna íslenska málfræði?“ Vísindavefurinn, 25. apríl 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67092.

Höskuldur Þráinsson. (2014, 25. apríl). Hvernig er best að kenna íslenska málfræði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67092

Höskuldur Þráinsson. „Hvernig er best að kenna íslenska málfræði?“ Vísindavefurinn. 25. apr. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67092>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er best að kenna íslenska málfræði?
Áður en þessari spurningu er svarað þarf fyrst að átta sig á því hvað á að kenna og til hvers. Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla er markmið íslenskukennslu meðal annars að „fræða um mál og bókmenntir og ... efla færni í málnotkun“ og svipað á við um framhaldsskólann. Spurningin er þá hvernig málfræðikennsla tengist þessu. Sumir virðast líta svo á að málfræðikennslan sjálf eigi að „efla færni í málnotkun“, það er kenna grunnskólabörnum beinlínis að tala og skrifa, og hún eigi engan rétt á sér nema hún geri það. En þetta er misskilningur sem gæti stafað af því að málfræðikennsla í íslenskum skólum tengdist upphaflega kennslu í latínu og öðrum málum sem nemendur kunnu ekkert í þegar þeir komu í skólann. Þess vegna þurfti í raun og veru að kenna þeim að beygja sagnir eins og latnesku sögnina amo ‘elska’ í persónu, tölu, tíð, hætti og mynd (amo – amas – amat – amamus – amatis – amant og svo framvegis). En þannig er þetta auðvitað ekki þegar íslenskir nemendur og íslensk málfræði á í hlut.

Nemendur kunna málfræði síns eigin móðurmáls að langmestu leyti þegar skólaganga þeirra hefst og þess vegna þarf til dæmis ekki að kenna íslenskum nemendum að beygja sagnir eins og elska (ég elska – þú elskar – hann/hún elskar – við elskum – þið elskið – þau elska ...). Hins vegar þekkja börn auðvitað ekki þau málfræðihugtök sem eru notuð í lýsingu á málum og umræðum um þau, til dæmis hugtök eins og persóna, tala, háttur, tíð, fall, kyn og svo framvegis og þau gera sér enga grein fyrir því hvaða hlutverki þessi fyrirbæri gegna í málinu. Málfræðikennslan á að kynna þessi hugtök og efla þennan skilning. Hún á sem sé að vera liður í því að „fræða um mál“, eins og segir í námskránni. Og þar á þá fyrst að leggja áherslu á það sem er einfalt og reglulegt en ekki einblína á það sem er óreglulegt og flókið. Annars fer allt í graut.

Nemendur kunna málfræði síns eigin móðurmáls að langmestu leyti þegar skólaganga þeirra hefst.

En af hverju á að „fræða um mál“ á þennan hátt? Er eitthvert gagn að því? Í fyrsta lagi er mikilvægt að átta sig á því að auðvitað á að fræða um málið og eðli þess eins og önnur fyrirbæri sem fjallað er um í skólakennslu, jafnvel þótt ekki sé alltaf ljóst að það hafi einhvern hagnýtan tilgang. Það þykir til dæmis sjálfsagt að fræða um sögu, jarðfræði og líffræði þótt ekki verði til dæmis séð að menn verði meiri afreksmenn í íþróttum af því að læra um mannslíkamann. En síðan er líka „gagn“ að því að læra lýsandi málfræði á þennan hátt vegna þess að málfræðihugtökin gera okkur kleift að ræða um mál, hvort sem það er íslenska eða önnur mál.

Þetta er til dæmis hliðstætt því að kenna tónfræði í tónlistarnámi. Nemandi í píanóleik verður ekki í sjálfu sér fingrafimari eða nákvæmari í túlkun blæbrigða af því að læra um hugtök eins og dúr, moll, þríund, sjöund, punkteruð nóta, mismunandi takttegundir (2/4, 3/4, 4/4, 5/4, 6/8 ...), fjórðapartsþögn, fermata, krómatískur skali og svo framvegis. En þessi hugtök gera kennaranum kleift að ræða um tónlist við nemandann og leiðbeina honum — og nemandinn getur líka sjálfur notað þau í umræðu um tónlist og um leið stuðla þau að því að hann áttar sig betur á uppbyggingu og eðli verkanna sem hann er að fást við. Eins þarf oft að nota málfræðileg hugtök í umfjöllun um mál og leiðbeiningum um málnotkun, hvort sem um er að ræða móðurmálið eða erlend mál. Málfræðikennsla þarf að taka mið af þessu og það er nauðsynlegt að bæði nemendur og kennarar átti sig á því.

Mynd:

...