Loftbólur í blóðrásarkerfinu geta borist í hjarta eða heila og stíflað þar æðar með alvarlegum afleiðingum.
Loft getur líka komist í blóð þó enginn vefur rofni, blóðrek lofts er til dæmis eitt af því sem gerist við kafaraveiki. Ef kafari kemur of hratt úr kafi losna lofttegundir sem voru uppleystar í blóðinu úr líkamsvökvanum vegna minnkandi þrýstings og loftbólur myndast. Nánar er fjallað um kafaraveiki í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er kafaraveiki og hvernig er hægt að losna við hana? Seinni hluti spurningarinnar fjallar um vatn í lungum en vatn getur komist í lungu bæði utan frá og innan. Þegar fólk er nálægt því að drukkna getur vatn komist utan frá niður í lungun og við getum fengið vatn innan frá í lungun vegna sjúkdóms. Ástæðan fyrir því að það er hættulegt að fá vatn í lungun utan frá er sú að við getum ekki nýtt okkur súrefnið sem er uppleyst í vatninu til að halda lífi. Styrkur þess er alltof lágur í vatni til að lungu geti nýtt sér það, enda hafa þau þróast til þess að afla súrefnis úr andrúmslofti. Afleiðingin getur orðið drukknum vegna súrefnisskorts. Þegar vatn kemur í lungun innan frá eru hugsanlegar orsakir nokkrar. Hjartabilun er algengasta orsökin en þá er blóðrásin treg vegna þess að hjartavöðvinn er slappur, til dæmis eftir hjartaáfall, bilun er í ósæðarloku eða vinstri hjartaloku, svokallaðri tvíblöðkuloku. Þá streymir blóðið ekki eðlilega úr vinstri slegli í ósæðina og þaðan um allan líkamann, heldur verður bakflæði á blóðinu úr slegli í gátt. Bakflæðið getur orðið svo mikið að það þrýstir á blóð í lungnabláæðum með þeim afleiðingum að blóðvökvi síast úr æðunum í lungnablöðrur, sem sagt „vatn safnast í lungun“. Þessi vökvi hindrar eðlilegt flæði súrefnis úr andrúmslofti í lungnablöðrur og einstaklingurinn verður andstuttur eða móður. Lungnasjúkdómar, áverkar á lungum, eiturefni eða sýkingar geta einnig valdið vökvasöfnun í lungum. Þá getur nýrnabilun leitt til óeðlilegrar vökvasöfnunar í líkamanum og þar með í lungunum. Heimildir og mynd: