Hér á landi er þekkt arfgeng heilablæðing sem leiðir til ótímabærs dauða. Hún er dæmi um eingenasjúkdóm, sem sagt orsök sjúkdómsins stafar af galla í einu tilteknu geni og kemur fram sem mýlildismein (e. amyloid) í heilaæðum. Mýlildi er uppsöfnun tiltekins prótíns í smáum slagæðum heilans sem leiðir til æðarofs og endurtekinna heilablæðinga. Gallinn er ríkjandi, á líkamslitningi og með mikla sýnd. Þetta þýðir að til þess að fá sjúkdóminn þarf aðeins eitt eintak af gallaða geninu frá öðru hvoru foreldri. Sé einstaklingur með gallann eru helmingslíkur á að barn sem hann eignast erfi hann. Það að sýnd er mikil þýðir að áhrif gallans koma fram í langflestum (ef ekki öllum) sem hafa erft hann og í þessu tilfelli þýðir það að þeir fá heilablæðingu, þá fyrstu oftast fyrir þrítugt. Komið hefur í ljós að þessi erfðagalli finnst í níu ættum á Íslandi og hefur erfst í að minnsta kosti 10 ættliði eða þrjár aldir. Þeir sem hafa fengið sjúkdóminn eru komnir af breiðfirskum eða sunnlenskum ættum. Líkur eru á að stökkbreytingin sé upprunnin í sameiginlegum forföður þessara ætta, enda genið eins í þeim báðum, þótt landsvæðin séu ekki nálægt hvort öðru. Þessi gerð af stökkbreytingu hefur ekki greinst hjá öðrum þjóðum fyrir utan einn mann í New York sem var af engilsaxneskum og króatískum ættum. Svo virðist sem um tilviljun hafi verið að ræða að hann var með sömu stökkbreytinguna. Arfgeng heilablæðing af völdum mýlildismeina hefur einnig verið þekkt um allnokkurt skeið meðal hollenskra ætta. Þar er þó um að ræða aðra stökkbreytingu á öðrum litningi en hjá Íslendingum. Heimildir og mynd:
- Elías Ólafsson. 2000. Taugavísindi. Ný þekking kollvarpar eldri hugmyndum. Læknablaðið, 86:1.
- Einar M. Valdimarsson og Elías Ólafsson. 2002. Heilablóðfall á Landspítala Fossvogi og Landspítala Grensási árið 2001. Afdrif sjúklinga eftir tegundum heilablóðfalls - Ágrip veggspjalda. Læknablaðið, fylgirit 47.
- Ólafur Jensson. 1996. Uppruni manna: Nýjungar í rannsóknum með erfðatækni. Búvísindi, 10.
- Mynd: BBC News