Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Afríska gresjufílnum (Loxodonta Africana) hefur fækkað gríðarlega á undanförnum áratugum eins og sjá má í meðfylgjandi töflu.
Breytingar á stofnstærð afríska gresjufílsins.
Ár
Heildarstofnstærð
>1800
60.000.000
1930
10.000.000
1979
1.300.000
1989
600.000
2005
500.000
Meginástæða hruns fílastofnsins er mikil ofveiði undanfarin 170 ár. Í upphafi voru það einkum evrópskir nýlenduherrar í Afríku sem veiddu fíla í miklum mæli bæði sér til skemmtunar og til að eignast hinar eftirsóttu vígtennur þeirra.
Árið 1960 var sett veiðibann á fíla í stórum hluta Afríku. Þá tók hins vegar við stórfelldur og skipulagður veiðiþjófnaður þannig að bannið hafði ekki tilætluð áhrif. Slælegt veiðieftirlit og spilling voru helstu ástæður þess að ólöglegar veiðar blómstruðu. Mjög erfitt hefur reynst að sporna við þessu og enn þann dag í dag eru fílar mikið veiddir. Sem dæmi er talið að árið 2006 hafi rúmlega 20 þúsund fílar verið felldir. Á sumum svæðum eru veiðarnar svo gengdarlausar að þær eru langt umfram þolgetu þessara stofna og þeir eru í stöðugri rénun. Á öðrum svæðum, einkum vel stýrðum verndarsvæðum, hefur hins vegar orðið mikil offjölgun á fílum, jafnvel svo að þurft hefur að lóga tugum dýra til að koma í veg fyrir gróðurhnignun.
Ein helsta ástæða mikilla veiða undanfarin ár er aukin eftirspurn eftir fílabeini, en hátt verð er greitt fyrir beinin á svörtum markaði. Megnið af fílabeinunum er selt til Asíu og getur uppgangur á ákveðnum svæðum Asíumarkaðar að hluta til skýrt þessa auknu eftirspurn.
Fílabein er ein helsta ástæða veiðiþjófnaðar á fílum. Þetta listaverk er til dæmis gert úr fílabeini.
Asíska fílnum hefur einnig fækkað umtalsvert. Við upphaf síðustu aldar var heildarstofnstærðin um 200 þúsund dýr en nú eru stofnstærðin aðeins á bilinu 35-40 þúsund dýr.
Önnur meginskýring á fækkun fíla er sú að gengið hefur á búsvæði þeirra og á það sérstaklega við um fíla í Asíu. Meira en 20 þúsund fílar lifa innan landamæra Indlands og eru tíðir árekstrar milli fíla og manna þar í landi, enda eru báðar þessar tegundir ansi plássfrekar. Því miður verða slíkir árekstrar sífellt alvarlegri og minna þeir oft frekar á hernaðarátök með tilheyrandi dauðsföllum bæði manna og fíla.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Hvers vegna eru fílar í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn, 3. maí 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6621.
Jón Már Halldórsson. (2007, 3. maí). Hvers vegna eru fílar í útrýmingarhættu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6621
Jón Már Halldórsson. „Hvers vegna eru fílar í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn. 3. maí. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6621>.