Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hinar miklu göngur makríls (Scomber scombrus) inn í lögsögu Íslands árin eftir aldamót hafa væntanlega ekki farið framhjá mörgum.
Þegar dýrastofnar, svo sem fiskar, breyta göngum sínum og fara í vistkerfi sem þeir hafa ekki áður verið algengir í, má sterklega gera ráð fyrir að þeir valdi breytingum á vistkerfinu. Í þessu tilviki á vistkerfinu á landgrunninu umhverfis landið. Áhrifin eru vissulega bæði jákvæð og neikvæð.
Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa undanfarin sumur gert út leiðangra til að reyna að varpa ljósi á hversu mikill makríll gengur inn í lögsöguna og einnig hversu umfangsmikið afrán hans er á svæðinu.
Makríll (Scomber scombrus).
Niðurstöður úr magainnihaldi makríls á flestum svæðum kringum landið sýna að makríllinn étur aðallega krabbaflær, einkum rauðátu (Calanus finmarchicus). Það sama á við um síldina (Clupea harengus). Rauðáta, ásamt skyldum tegundum, auk ljósátu (Euphausia) og loðnuseiða og -eggja er mikilvægasta fæða hennar. Makríllinn át hlutfallslega meira af fiski en síldin.
Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar sýndu að makríllinn jók þyngd sína að jafnaði um 42% sumrin 2009 – 2011. Að teknu tilliti til mats stofnunarinnar á stærð makrílstofnsins sem gekk á þessum árum inn í lögsöguna jafngildir þetta að afránið hafi verið upp á 2,5 – 3,5 milljón tonn.
En hver eru hugsanleg áhrif þess að svo stór stofn kemur inn í nýtt vistkerfi? Fyrst skulum við beina sjónum okkar að hugsanlegum neikvæðum áhrifum þessarar „heimsóknar“.
Í fyrsta lagi étur makríllinn gríðarlegt magn af rauðátu sem getur haft áhrif á aðrar tegundir sem byggja tilvist sína að einhverju leyti á svifdýrum eins og rauðátu. Þetta eru meðal annars ungviði botnfiska og loðnu, kolmunna og lax.
Í öðru lagi gæti makríllinn haft áhrif á afkomu sjófugla. Undanfarin ár hefur varpárgangur hjá sjófuglum eins og lunda (Fratercula arctica) verið slakur. Rannsóknir hafa sýnt að óvenju lítið hefur verið af sandsíli í hafinu. Margir hafa viljað tengja það afráni makríls á sandsíli eða að það hafi farið halloka fyrir makrílnum í samkeppni um fæðu á landgrunninu.
En jákvæð áhrif eru einnig til staðar. Sennilega er makríllinn kærkomin fæða hjá sumum tegundum á Íslandsmiðum svo sem hjá fiskætum eins og súlu (Morus bassanus) og dílaskarfi (Phalacrocorax carbo) auk stærri fiska svo sem túnfisk og ýmsum tegundum sjávarspendýra. Rannsóknir hafa sýnt að stofnstærð súlu, bæði hér á landi og í Noregi, hefur aukist verulega á undanförnum árum. Að vísu eru sveiflur á fæðu súlunnar milli tegunda en rannsóknir hafa sýnt að við Vestmannaeyjar var makríllinn helsta fæða hennar árin 2006 og 2007. Þá voru göngur makríls hingað á landgrunnið miklar en á sama tíma var síld helsta fæða súlunnar fyrir austan land. Súlu hefur fjölgað víða í vörpum í Norður-Noregi, svo sem í Lofoten, og er því ekki útilokað að súlan hagnist á auknum göngum makríls og jafnvel aukinni stofnstærð hans á Norðaustur-Atlantshafi.
Þegar fjallað eru um jákvæð áhrif makríls vegna aukinnar gengdar hans á Íslandsmið, má ekki líta fram hjá áhrifum hans á hag þjóðarinnar. Undanfarin ár hafa íslensk skip veitt vel yfir 100 þúsund tonn af makríl sem skilar milljörðum í þjóðarbúið. Það er svo önnur spurning hvort það vegur upp á móti vistfræðilegum áhrifum makrílsins hér við land.
Fleiri og ýtarlegri rannsóknir á komandi árum eiga örugglega eftir að færa okkur betri skiling á áhrifum makríls við Ísland.
Mynd:
Jón Már Halldórsson. „Hvaða áhrif hefur það á lífríki Íslands að milljónir tonna af makríl koma hingað á sumrin?“ Vísindavefurinn, 9. janúar 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65595.
Jón Már Halldórsson. (2014, 9. janúar). Hvaða áhrif hefur það á lífríki Íslands að milljónir tonna af makríl koma hingað á sumrin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65595
Jón Már Halldórsson. „Hvaða áhrif hefur það á lífríki Íslands að milljónir tonna af makríl koma hingað á sumrin?“ Vísindavefurinn. 9. jan. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65595>.