Súlan (Morus bassanus eða Sula bassana) er sjófugl sem verpir hér við land á örfáum stöðum undan suður-, austur-og norðausturlandi. Kunnasti varpstaðurinn hér við land er eflaust Eldey sem liggur suður af Reykjanesi. Íslenskir fuglafræðingar hafa fylgst vel með stærð súlustofnsins hér við land og telur hann nú um 25.000 pör. Stærstur hluti íslenska súlustofnsins verpir í Eldey en hún er að öllum líkindum ein stærsta súlubyggð í heimi. Sökum sérstæðs fuglalífs hefur Eldey verið friðuð síðan 1940 en áður var farið árlega út í eyna til eggjatöku. Súlan er stór fugl, tæplega metri á lengd og vegur á bilinu 2 til 3 kíló. Vænghaf súlunnar er allt að 180 sentímetrar. Af þessu má ráða að súlan er stærsti sjófuglinn hér við land. Helsta fæða súlunnar er fiskur. Veiðitækni súlunnar er sérstaklega tilkomumikil og kallast aðfarirnar súlukast. Súlan veiðir á þann hátt að hún stingur sér úr mikilli hæð ofan í sjóinn um leið og hún leggur vængina að síðunni. Hún stingur sér 3 til 6 metra ofan í sjóinn og grípur þar þann fisk sem hún hafði séð úr lofti áður. Varptími súlunnar er í apríl og maí. Hver kvenfugl verpir aðeins einu eggi í hreiðurhraukinn sem fuglinn býr til úr þara og þangi. Unginn verður yfirleitt fleygur upp úr miðjum ágúst og í september. Ungfuglar á fyrsta ári eru grábrúnir að lit með hvítum doppum á baki. Súlan fær fullorðinsham og verður kynþroska á fimmta ári. Á haustin yfirgefur stærstur hluti stofnsins Íslandsstrendur og flýgur suður að ströndum Evrópu en lítill hluti súlustofnsins dvelur vetrarlangt á miðunum djúpt suður af landinu. Erlendis eru stórar varpstöðvar í Kanada nánar tiltekið við St. Lawrence flóa, víða á Labrador og á Nýfundnalandi. Á eynni St. Kilda á Bretlandseyjum er stærsta súlubyggð í heimi en þar verpa meira en 50.000 pör. Súlan er af ættinni Sulidae en innan þeirrar ættar eru aðeins tvær aðrar tegundir. Þær eru talsvert minni og lifa á suðurhveli jarðar, þær kallast á ensku Cape gannet (l. Morus capenet) sem lifir á nokkrum eyjum suður af Suður-Afríku og Australian gannet eins og fuglinn nefnist á ensku (l. Morus serrator) sem verpir í kringum Tasmaníu og Nýja Sjáland.
Súluungi á fyrsta ári. Myndin af súluunganum er fengin á vefsetrinu www.neseabird.com Myndin af súlubyggðinni er hins vegar fengin á vefsetrinu www.nfinteractive.org