Áður en þessar miklu göngur hófust á Íslandsmið var makríllinn aðeins flækingur hér á landi. Fyrst varð vart við hann í torfum árið 1904 fyrir Norðurlandi og svo reglulega á fyrri hluta síðustu aldar, meðal annars við Keflavík 1934 og í Skerjafirði 1938. Einnig var allmikið um hann undan suðvesturlandi sumarið 1987 og við Suðurland 1991. Makríllinn er uppsjávarfiskur líkt og síld og loðna. Á veturna heldur hann sig djúpt á hafi úti en þegar vora tekur safnast hann saman í miklar torfur og færir sig nær landi til hrygningar og fæðuöflunar. Fæða makrílsins er breytileg eftir aldri og stærð hans. Ungfiskurinn étur fiskilirfur og krabbasvif svo sem ljósátu. Fullorðinn fiskur étur einnig krabbaflær svo sem ljósátu og rauðátu en einnig aðra hryggleysingja sem finnast í uppsjónum eins og pílorma. Fullorðinn makríll er einnig mikil fiskiæta, hann étur sandsíli, síld, brisling og sardínu. Á Norður-Atlantshafi hrygnir makríllinn frá maí og fram í júlí. Eggin eru um 1-1,38 mm í þvermál og svífa um á 7-9 metra dýpi frá yfirborði. Sviflægar lirfurnar klekjast út eftir 4-7 daga og eru þá 3,5-3,9 mm á lengd. Að hrygningu lokinni byrja ætisgöngur og þá hafa á síðastliðnum árum komið miklar göngur inn í lögsögu Íslands. Fyrir utan manninn eru fjölmargar tegundir dýra sem éta makríl, þeirra á meðal eru ýmsar tegundir háfiska, svo sem hámeri, og túnfiskur. Einnig er nokkuð um að fuglar éti makríl. Makríll er mikið veiddur þar sem hann er að finna. Mestu veiðisvæðin eru í Norðursjó og hafa helstu veiðiþjóðirnar verið Norðmenn, Rússar og Evrópusambandsríki. Aflinn hefur verið frá 600 þúsund og upp í milljón tonn. Veiðar Íslendinga hafa verið að aukast á síðastliðnum árum og voru í fyrra tæplega 120 þúsund tonn. Mynd: Seafood from Norway. Sótt 11. 10. 2010. Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvað getið þið sagt mér um líffræði makrílsins? Nú er makríllinn að verða áberandi í íslensku vistkerfi. Mig langar að vita hvers konar fiskur þetta er.