Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um geðhvarfasýki II og að hvaða leyti er hún ólík hringhygli?

Þórdís Kristinsdóttir

Geðhvarfasýki telst til geðrofssjúkdóma þar sem fram koma ýmis geðrofseinkenni, svo sem missir á raunveruleikatengslum, ofskynjanir, ranghugmyndir og truflun á formi hugsana eða tilfinningaflatneskja, framtaksleysi og þunglyndi. Geðhvarfasýki er almennt talin hrjá um 1% þjóðarinnar. Sjúkdómnum er skipt í undirflokka eftir ólíkri birtingu hans og hversu mikil áhrif sjúkdómurinn hefur á daglegt líf. Talað er um geðhvarfasýkisrófið (e. bipolar spectrum) eftir því hve alvarlegt ástandið er. Dæmi um undirflokka sem spanna geðhvarfasýkisrófið eru geðhvarfasýki I og II, blönduð geðhvarfasýki og hringhygli (e. cyclothymia).

Einkenni geðhvarfasýki eru oflæti (e. mania) og þunglyndi, en mjög mismunandi er milli einstaklinga hvernig þau koma fram. Tímabil oflætis og þunglyndis geta skipst á á reglulegan hátt, annað ástandið getur verið meira ríkjandi en hitt eða þau geta verið blönduð.

Þunglyndistímabil einstaklings með geðhvarfasýki getur ýmist einkennst af langvarandi spennu með ofvirkni, örvæntingu og ofskynjunum eða af daufleika og áhugaleysi með leiða, lélegu sjálfsáliti og niðurbrjótandi hugsunum.

Oflæti eða geðhæð (e. mania) er skaptruflun sem einkennist af óeðlilegri spennu, örlyndi, málgleði, athyglisbresti og tapi á raunveruleikatengslum. Einstaklingur talar þá hátt og mikið, skiptir ört um umræðuefni, er mjög jákvæður, sjálfstraustur og mannblendinn, er á miklu iði og missir auðveldlega einbeitingu. Einnig geta einkenni á við ofskynjanir og ofsjónir fylgt geðhvarfasýki. Þunglyndi er algengara einkenni en oflæti og margir sjúklingar finna ekki fyrir raunverulegu oflæti. Þó geta þeir upplifað skemmri tímabil af óeðlilegri jákvæðni og ofsagleði þegar þeir eru að jafna sig af þunglyndinu.

Öll ofantalin einkenni þurfa ekki að koma fram hjá sama einstaklingi til þess að hann greinist með geðhvarfasýki. Styrkur og eðli einkenna hjá hverjum og einum ræður því hvers kyns geðhvarfasýki einstaklingur telst hafa. Viðmið eru aðeins breytileg milli landa en eru samhljóða hvað varðar helstu atriði.

Einkenni geðhvarfasýki eru oflæti (e. mania) og þunglyndi, en mjög mismunandi er milli einstaklinga hvernig þau koma fram.

Einstaklingar með geðhvarfasýki I hafa upplifað að minnsta kosti eitt tímabil oflætis eða blandað tímabil með slæmu þunglyndi þess á milli og einkenni eru það alvarleg að einstaklingar getur ekki sinnt daglegum störfum. Tímabil oflætis eru ýkt og geta jafnvel verið hættuleg svo í sumum tilvikum er sjúkrahúsvistunar þörf. Einstaklingar með geðhvarfasýki II upplifa vægara form oflætis (e. hypomania) en þess á milli koma slæm þunglyndistímabil og eru þau meira ríkjandi í sjúkdómnum. Geðhvarfasýki II hefur áhrif á daglegt líf en kemur þó ekki í veg fyrir að einstaklingar sinni daglegri rútínu og ástandið kallar ekki á sjúkrahúsvistun. Hringhygli veldur vægari tilfinningalegum hæðum og lægðum en geðhvarfasýki I og II. Einstaklingar upplifa vægt oflæti og þunglyndistímabil sem eru þó ekki eins alvarleg og í geðhvarfasýki II og einstaklingar upplifa hvorki oflæti í sinni venjulegri mynd né blönduð tímabil. Þar sem ástandið eykur líkur á að þróa með sér geðhvarfasýki I eða II er sérstaklega mikilvægt að einstaklingar fái viðeigandi meðferð.

Lífeðlisfræðileg orsök geðhvarfasýki hefur ekki verið fundin og almennt er talið að ástandið stafi af samspili margra þátta. Geðhvarfasýki er algengari í sumum fjölskyldum en öðrum og rannsóknir benda til þess að erfðaþáttur sé til staðar. Sjúkdómurinn stafar þá líklega af fjölmörgum mögulegum mismunandi sjúkdómsgenasamsætum þar sem að tilvist hverrar og einnar samsætu eykur hættuna á þróun sjúkdómsins aðeins lítið en samlegðaráhrif margra sjúkdómssamsæta auka líkurnar mikið. Dæmi eru um eineggja tvíbura þar sem annar er með geðhvarfasýki en ekki hinn. Þannig skipta fleiri þættir en eingöngu gen máli við þróun sjúkdómsins.

Ekki er heldur vitað fyrir víst hvaða hlutar heilans verða helst fyrir áhrifum en ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar. Með framförum í tækni, til dæmis í segulómun (e. MRI, magnetic resonance imaging), er nú hægt að rannsaka heilastarfsemi fólks með geðhvarfasýki samanborið við aðra. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að framheilabörkur (e. prefrontal cortex) fólks með geðhvarfasýki sé minni að stærð og virkni en í öðrum. Þessi hluti heilans kemur að þáttum eins og að leysa vandamál og taka ákvarðanir. Bygging hans og tengsl við önnur svæði heilans þroskast á unglingsárum sem gæti skýrt það hvers vegna geðhvarfasýki kemur gjarnan fram um það leyti.

Þunglyndislyf og sum fíkniefni, líkt og kókaín, sem auka styrk mónóamína, svo sem serótóníns, adrenalíns og dópamíns, geta komið af stað oflæti. Það bendir til þess að þessi taugaboðefni komi við sögu í ástandinu. Einnig eru vísbendingar um að glútamat spili hlutverk í bæði geðhvarfasýki og alvarlegu þunglyndi en krufningar á framheila (e. frontal lobe) einstaklinga með báðar þessar raskanir hafa leitt í ljós aukinn styrk glútamats.

Hér eru aðeins talin upp dæmi um möguleg tengsl við geðhvarfasýki en listinn er langur og lengist með auknum fjölda rannsókna sem gerðar eru. Líkt og gildir um marga aðra geðsjúkdóma er orsök sjúkdómsins líklega flókið samspil erfða og umhverfis. Með tímanum verður þó líklega hægt að varpa frekara ljósi á ástandið og stuðla þannig að framförum í meðferð.

Mynd:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:
Hvað getið þið sagt mér um geðhvarfasýki 2 og að hvaða leyti er hún ólík cyclothymiu? Hvað halda vísindamenn að séu lífeðlisfræðileg orsök hypomaníunnar og hvaða hlutar heilans verða fyrir mestum áhrifum?

Höfundur

nemi í læknisfræði við HÍ

Útgáfudagur

24.9.2013

Síðast uppfært

19.2.2019

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um geðhvarfasýki II og að hvaða leyti er hún ólík hringhygli?“ Vísindavefurinn, 24. september 2013, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64387.

Þórdís Kristinsdóttir. (2013, 24. september). Hvað getið þið sagt mér um geðhvarfasýki II og að hvaða leyti er hún ólík hringhygli? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64387

Þórdís Kristinsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um geðhvarfasýki II og að hvaða leyti er hún ólík hringhygli?“ Vísindavefurinn. 24. sep. 2013. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64387>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um geðhvarfasýki II og að hvaða leyti er hún ólík hringhygli?
Geðhvarfasýki telst til geðrofssjúkdóma þar sem fram koma ýmis geðrofseinkenni, svo sem missir á raunveruleikatengslum, ofskynjanir, ranghugmyndir og truflun á formi hugsana eða tilfinningaflatneskja, framtaksleysi og þunglyndi. Geðhvarfasýki er almennt talin hrjá um 1% þjóðarinnar. Sjúkdómnum er skipt í undirflokka eftir ólíkri birtingu hans og hversu mikil áhrif sjúkdómurinn hefur á daglegt líf. Talað er um geðhvarfasýkisrófið (e. bipolar spectrum) eftir því hve alvarlegt ástandið er. Dæmi um undirflokka sem spanna geðhvarfasýkisrófið eru geðhvarfasýki I og II, blönduð geðhvarfasýki og hringhygli (e. cyclothymia).

Einkenni geðhvarfasýki eru oflæti (e. mania) og þunglyndi, en mjög mismunandi er milli einstaklinga hvernig þau koma fram. Tímabil oflætis og þunglyndis geta skipst á á reglulegan hátt, annað ástandið getur verið meira ríkjandi en hitt eða þau geta verið blönduð.

Þunglyndistímabil einstaklings með geðhvarfasýki getur ýmist einkennst af langvarandi spennu með ofvirkni, örvæntingu og ofskynjunum eða af daufleika og áhugaleysi með leiða, lélegu sjálfsáliti og niðurbrjótandi hugsunum.

Oflæti eða geðhæð (e. mania) er skaptruflun sem einkennist af óeðlilegri spennu, örlyndi, málgleði, athyglisbresti og tapi á raunveruleikatengslum. Einstaklingur talar þá hátt og mikið, skiptir ört um umræðuefni, er mjög jákvæður, sjálfstraustur og mannblendinn, er á miklu iði og missir auðveldlega einbeitingu. Einnig geta einkenni á við ofskynjanir og ofsjónir fylgt geðhvarfasýki. Þunglyndi er algengara einkenni en oflæti og margir sjúklingar finna ekki fyrir raunverulegu oflæti. Þó geta þeir upplifað skemmri tímabil af óeðlilegri jákvæðni og ofsagleði þegar þeir eru að jafna sig af þunglyndinu.

Öll ofantalin einkenni þurfa ekki að koma fram hjá sama einstaklingi til þess að hann greinist með geðhvarfasýki. Styrkur og eðli einkenna hjá hverjum og einum ræður því hvers kyns geðhvarfasýki einstaklingur telst hafa. Viðmið eru aðeins breytileg milli landa en eru samhljóða hvað varðar helstu atriði.

Einkenni geðhvarfasýki eru oflæti (e. mania) og þunglyndi, en mjög mismunandi er milli einstaklinga hvernig þau koma fram.

Einstaklingar með geðhvarfasýki I hafa upplifað að minnsta kosti eitt tímabil oflætis eða blandað tímabil með slæmu þunglyndi þess á milli og einkenni eru það alvarleg að einstaklingar getur ekki sinnt daglegum störfum. Tímabil oflætis eru ýkt og geta jafnvel verið hættuleg svo í sumum tilvikum er sjúkrahúsvistunar þörf. Einstaklingar með geðhvarfasýki II upplifa vægara form oflætis (e. hypomania) en þess á milli koma slæm þunglyndistímabil og eru þau meira ríkjandi í sjúkdómnum. Geðhvarfasýki II hefur áhrif á daglegt líf en kemur þó ekki í veg fyrir að einstaklingar sinni daglegri rútínu og ástandið kallar ekki á sjúkrahúsvistun. Hringhygli veldur vægari tilfinningalegum hæðum og lægðum en geðhvarfasýki I og II. Einstaklingar upplifa vægt oflæti og þunglyndistímabil sem eru þó ekki eins alvarleg og í geðhvarfasýki II og einstaklingar upplifa hvorki oflæti í sinni venjulegri mynd né blönduð tímabil. Þar sem ástandið eykur líkur á að þróa með sér geðhvarfasýki I eða II er sérstaklega mikilvægt að einstaklingar fái viðeigandi meðferð.

Lífeðlisfræðileg orsök geðhvarfasýki hefur ekki verið fundin og almennt er talið að ástandið stafi af samspili margra þátta. Geðhvarfasýki er algengari í sumum fjölskyldum en öðrum og rannsóknir benda til þess að erfðaþáttur sé til staðar. Sjúkdómurinn stafar þá líklega af fjölmörgum mögulegum mismunandi sjúkdómsgenasamsætum þar sem að tilvist hverrar og einnar samsætu eykur hættuna á þróun sjúkdómsins aðeins lítið en samlegðaráhrif margra sjúkdómssamsæta auka líkurnar mikið. Dæmi eru um eineggja tvíbura þar sem annar er með geðhvarfasýki en ekki hinn. Þannig skipta fleiri þættir en eingöngu gen máli við þróun sjúkdómsins.

Ekki er heldur vitað fyrir víst hvaða hlutar heilans verða helst fyrir áhrifum en ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar. Með framförum í tækni, til dæmis í segulómun (e. MRI, magnetic resonance imaging), er nú hægt að rannsaka heilastarfsemi fólks með geðhvarfasýki samanborið við aðra. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að framheilabörkur (e. prefrontal cortex) fólks með geðhvarfasýki sé minni að stærð og virkni en í öðrum. Þessi hluti heilans kemur að þáttum eins og að leysa vandamál og taka ákvarðanir. Bygging hans og tengsl við önnur svæði heilans þroskast á unglingsárum sem gæti skýrt það hvers vegna geðhvarfasýki kemur gjarnan fram um það leyti.

Þunglyndislyf og sum fíkniefni, líkt og kókaín, sem auka styrk mónóamína, svo sem serótóníns, adrenalíns og dópamíns, geta komið af stað oflæti. Það bendir til þess að þessi taugaboðefni komi við sögu í ástandinu. Einnig eru vísbendingar um að glútamat spili hlutverk í bæði geðhvarfasýki og alvarlegu þunglyndi en krufningar á framheila (e. frontal lobe) einstaklinga með báðar þessar raskanir hafa leitt í ljós aukinn styrk glútamats.

Hér eru aðeins talin upp dæmi um möguleg tengsl við geðhvarfasýki en listinn er langur og lengist með auknum fjölda rannsókna sem gerðar eru. Líkt og gildir um marga aðra geðsjúkdóma er orsök sjúkdómsins líklega flókið samspil erfða og umhverfis. Með tímanum verður þó líklega hægt að varpa frekara ljósi á ástandið og stuðla þannig að framförum í meðferð.

Mynd:

Spurningin í heild sinni hljóðaði svo:
Hvað getið þið sagt mér um geðhvarfasýki 2 og að hvaða leyti er hún ólík cyclothymiu? Hvað halda vísindamenn að séu lífeðlisfræðileg orsök hypomaníunnar og hvaða hlutar heilans verða fyrir mestum áhrifum?

...