Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Núlifandi górillum er skipt niður í tvær tegundir, vesturgórillur (Gorilla gorilla) og austurgórillur (Gorilla beringei). Báðar tegundirnar greinast svo í tvær deilitegundir. Vesturgórillur skiptast í vestur-láglendisgórillur (Gorilla gorilla gorilla) og krossfljótsgórillur (Gorilla gorilla diehli), en austurgórillur greinast í austur-láglendisgórillur (Gorilla beringei graueri) og fjallagórillur (Gorilla beringei beringei).
Vesturgórilla (Gorilla gorilla)
Fyrstu rituðu heimildir sem til eru um górillur eru úr rómverskum ferðaannálum frá 5. öld f.Kr. Þar segir frá leiðangri sem farinn var meðfram vesturströnd Afríku. Líklegt þykir að leiðangursmenn hafi farið á land á því svæði þar sem nú er Kamerún. Þar sáu þeir sjálfsagt fyrstir Evrópubúa górillur, en að öllum líkindum var um vesturgórillur (Gorilla gorilla) að ræða.
Vesturlandabúar uppgötvuðu hins vegar ekki tilvist austurgórilla (Gorilla beringei) fyrr en löngur síðar, þegar þýskur kafteinn að nafni Robert von Beringe (1865-1940) fór fyrir leiðangri um skóga Mið-Afríku við upphaf 20. aldar.
Von Beringe starfaði í þýska hernum og var á árunum frá 1896 til 1906 staðsettur í Tansaníu og Rúanda. Í lok ágúst árið 1902 fór hann fyrir lítilli hersveit í leiðangur inn í landið sem nú heitir Búrúndí, til að heimsækja þar þýska herstöð og viðhalda góðu sambandi við þjóðflokka svæðisins.
Farið var um ógreiðfæra regnskóga og fjalllendi og hélt Von Beringe mjög nákvæma ferðadagbók þar sem hann lýsti öllu náttúrufari. Þann 17. október árið 1902 gengu leiðangursmenn svo fram á hóp fjallagórilla (Gorilla beringei beringei) í Virunga fjöllunum í Kongó.
Austurgórilla (Gorilla beringei).
Um fund þessa stórvaxna apa ritaði Von Beringe:
Frá búðunum sáum við hóp stórra svartra apa sem voru að reyna að klifra upp að hæsta punkti eldfjallsins. Okkur tókst að skjóta tvo stóra einstaklinga sem féllu niður urðina og niður í gíg nokkurn. Eftir fimm klukkutíma erfiði tókst okkur að ná öðru dýrinu upp með kaðli.
Von Beringe skoðaði dýrið mjög nákvæmlega og lýsti því sem stóru karldýri, hárlausu á bringu, með stórar hendur og fætur. Hann sagði það vera um 1,5 m á hæð og 100 kg að þyngd. Vegna stærðar dýrsins var hann var viss um að þetta væri ekki simpansi og ákvað því að senda það sem eftir var af dýrinu til dýrafræðisafnsins í Berlín til rannsóknar. Sá sem greindi dýrið til tegundar var prófessor Paul Matschie (1861-1926), en hann sá að hér var um nýja tegund af górilluapa að ræða. Nefndi hann þessa tegund Gorilla beringei eftir manninum sem fann hana.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Hvenær voru górillur uppgötvaðar af vesturlandabúum?“ Vísindavefurinn, 8. desember 2006, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6428.
Jón Már Halldórsson. (2006, 8. desember). Hvenær voru górillur uppgötvaðar af vesturlandabúum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6428
Jón Már Halldórsson. „Hvenær voru górillur uppgötvaðar af vesturlandabúum?“ Vísindavefurinn. 8. des. 2006. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6428>.