Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Kurt Lewin og hvert var framlag hans til fræðanna?

Ragna B. Garðarsdóttir

Kurt Lewin er gjarnan nefndur faðir félagssálfræðinnar og er frumkvöðull vísindalegra rannsókna á hópum og hegðun þeirra. Lewin var lærifaðir margra frægra félagssálfræðinga, til dæmis Festinger, White, Lippit, Schachter og fleiri, sem áttu eftir að halda nafni hans á lofti og marka framtíð fræðanna. Hugmyndafræði hans, kenningar, hugtök og rannsóknaraðferðir eru enn í notkun. Hann sýndi meðal annars fram á að flókin félagsleg fyrirbæri væri hægt að rannsaka með hreinum tilraunum. Það er því fyrir tilstilli Lewins að tilraunafélagssálfræði varð að útbreiddu fagi í bandarískum háskólum um og upp úr miðri síðustu öld. Gegnumgangandi þema í ævistarfi Lewins var hagnýting rannsóknarniðurstaðna; að rannsóknir hans gætu gagnast til að skapa betri heim, en döguðu ekki uppi í rykföllnum bókum.

Kurt Lewin (1890-1947).

Kurt Zadek Lewin fæddist 9. september 1890 í bænum Mogilno í Prússlandi sem nú tilheyrir Póllandi. Fimmtán ára að aldri flutti hann með fjölskyldu sinni til Berlínar. Þar lauk Lewin menntaskóla og því næst lá leiðin til Freiburg þar sem hann hóf nám í læknisfræði. Honum hugnaðist þó ekki læknisfræðin og fluttist til München til að læra líffræði. Ekki entist hann þar og árið 1910 hóf Lewin nám í sálfræði og heimspeki við Berlínarháskóla. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út var hann kallaður í þýska herinn en slasaðist á vígvellinum og fékk að snúa aftur heim til að ljúka doktorsprófi í sálfræði frá Berlínarháskóla árið 1914 undir leiðsögn Carls Strumpf en Strumpf var nemi Wilhelms Wundt sem margir vilja rekja upphaf sálfræðinnar til. Lewin var búsettur og starfandi í Berlín þegar Hitler komst til valda. Lewin var, eins og svo fjölmargir frægir félagssálfræðingar, gyðingur og stafaði því ógn af einræðisstjórn nasista. Honum tókst að flýja land árið 1933 en sömu sögu er ekki að segja af móður hans sem síðar lét lífið í útrýmingarbúðum nasista. Lewin flúði til Bandaríkjanna þar sem hann bjó og starfaði til dauðadags en hann lést úr hjartaáfalli í febrúar 1947, aðeins tæplega 57 ára að aldri.

Árið 1930, áður en hann gerðist landflótta, hafði Lewin verið gestaprófessor við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Þau sambönd sem hann tryggði sér þá auðvelduðu honum að fá fasta stöðu í Bandaríkjunum eftir að hann yfirgaf Þýskaland. Fyrst gegndi hann stöðu við Cornell (1933-1935), svo við háskólann í Iowa (1935-1944) og að lokum við MIT (Massachusetts Institute of Technology, 1944-1947). Einnig var hann gestaprófessor við Harvard-háskóla árin 1938 og 1939. Við MIT fékk hann tækifæri til að láta þann draum sinn rætast að koma á fót rannsóknarstofnuninni Research Center on Group Dynamics. Þetta hugtak group dynamics − eða hópöfl1 − setti Lewin fram sem samheiti yfir það svið sálfræðinnar sem tileinkað er rannsókum á hópum. Hugtakið er enn notað í þeirri merkingu. Hugtakið hópöfl vísar til þeirra eiginleika sem Lewin taldi hópa hafa, umfram það að vera einfalt samsafn einstaklinga. Rannsóknir hans og kenningar ganga út frá því að hópur sé meira en summa einstaklinganna; að hópar hafi annars konar afl og eiginleika en einstaklingarnir sem þá mynda og því muni hópar hegða sér á annan hátt en einstaklingar myndu gera. Þessi hugmynd Lewins er undir sterkum áhrifum hinnar þýsku skynheildarsálfræði (þýs. Gestalt).

Þau sambönd sem Lewin tryggði sér þegar hann var gestaprófessor við Stanford-háskóla auðvelduðu honum að fá fasta stöðu í Bandaríkjunum er hann flúði land vegna þeirrar ógnar sem stafaði af einræðisstjórn nasista.

Lewin taldi hegðun orsakast af samspili manneskjunnar og umhverfis hennar, að hvorki erfðir né umhverfi geti ein og sér skýrt allan breytileika í hegðun: Ekki væri hægt að skilja hegðun einungis út frá þeirri persónu sem maður hefur að geyma heldur skipti máli í hvaða umhverfi maðurinn er, sem hann vísaði til sem lifespace, og hvernig hann túlkar það umhverfi. Allar aðrar skýringar taldi Lewin ofureinfaldanir. Þessi nálgun hans hefur verið kölluð „Field Theory“ eða vettvangskenning. Til þess að skýra þetta setti Lewin fram formúluna $B=ƒ(P,E)$ sem þýðir að hegðun er fall af einstaklingi og umhverfi hans. Á þeim tíma sem hann setti fram þessa formúlu þótti hún byltingarkennd. Þágildandi skýringar á hegðun voru ýmist sóttar í fortíð einstaklingsins og undirmeðvitund, samanber Freudismi, eða í öfgakennda atferlisfræði (e. radical behaviourism) sem var þá tískubylgja í sálfræði og leyfði lítið rúm fyrir samspil einstaklings og umhverfis. Þessi formúla Lewins hefur mörgum þótt gagnrýniverð og hefur verið tekin sem dæmi af þeim fræðimönnum sem telja of langt gengið í að smætta mannlega hegðun niður í einfaldar reikniformúlur. Sú gagnrýni byggir þó á misskilningi því slík smættun var fjarri því að vera markmið Lewins. Formúluna setti hann fram sem eins konar þumalfingursreglu til að minna á að hegðun leiðir af flóknu samspili erfða og umhverfis.

Lewin, ásamt nemendum og samstarfsmönnum bæði við MIT og Iowa, gerði fjölmargar tilraunir á hóphegðun, en slíkri aðferðafræði hafði ekki verið áður beitt á hópa. Hann lagði mikla áherslu á að til þess að félagssálfræði gæti fleygt fram sem fagi yrði að notast við tilraunir. „Viljir þú skilja eitthvað í raun, reyndu að breyta því2“ sagði hann og vísaði þar til tilraunanna; rannsóknaraðferða sem gengu út á að reyna að breyta hegðun, hugsun og líðan. Þessa áherslu Lewins á breytingu má einnig rekja til löngunar hans til þess að hagnýta þekkingu sálfræðinnar til að leysa samfélagsleg vandamál. „Ekkert er gagnlegra en góð kenning3“ eru líklega þekktustu orð Lewins. Honum var það hjartans mál að kenningar hans og rannsóknarniðurstöður kæmu að gagni. Til þess að ná þessu markmiði taldi hann að sálfræðingar yrðu að gera meira en að lýsa atferli og hugsun, þeir yrðu að finna leiðir til að breyta atferli og hugsun. Hann átti því frumkvæði að svokölluðum athafnarannsóknum (e. action research) sem tvinnuðu saman kenningar og íhlutanir til þess að ná fram samfélagslegum breytingum. Ekki er ólíklegt að uppruni Lewins, gyðingatrú og samtímaatburðir hafi haft áhrif á þessa sannfæringu hans. Það Þýskaland sem hann flúði var undir oki einræðisherra. Lewin einsetti sér að sýna fram á að slíkir stjórnunarhættir hefðu slæm áhrif á líðan og hegðan einstaklinga en að lýðræði væri ákjósanlegasta stjórnarformið til að hámarka vellíðan samfélagsins.

Kurt Lewin hefur verið nefndur faðir vinnusálfræðinnar.

Til að sýna fram á þetta gerði hann tilraunir, meðal annars með börnum og á vinnustöðum, þar sem aðstoðarmenn hans fengu fyrirmæli um að stjórna hópum þátttakenda ýmist á lýðræðislegan (e. democratic) eða drottnandi (e. authoritarian) hátt. Frammistaða og líðan hópanna var svo mæld. Sagan segir að fyrir tilviljun hafi Lewin einnig uppgötvað þriðja stjórnarformið, aðgerðalausa stjórnun (fr. laissez-faire), sem má rekja til þess að einn latur aðstoðarmaður hans nennti ekki að fara að fyrirmælum, setti þess í stað fætur upp á borð og skipti sér ekki af hópnum sem honum var gert að stjórna. Í stuttu máli má segja að hópar undir stjórn þess aðgerðalausa uppskáru lítið í hópstarfinu en kunnu yfirleitt vel við stjórnandann. Framleiðni var mikil undir drottnandi stjórn, en aðeins ef stjórnandinn var á staðnum. Undir drottnandi stjórnanda urðu þátttakendur fjandsamlegir, árásargjarnir og óánægðir. Undir stjórn lýðræðislegs stjórnanda urðu þátttakendur hugmyndaríkari og vinalegri og hópurinn samstilltari en hinir tveir hóparnir. Niðurstöðurnar bentu ótvírætt til þess að lýðræðislegir stjórnunarhættir væru æskilegastir eins og Lewin taldi. Þessar rannsóknir Lewins eru upphaf rannsókna innan hagnýtrar vinnusálfræði á áhrifum stjórnunarstíls á vinnustöðum. Vegna þessa og vegna rannsókna á hegðun hópa, svo sem starfsmanna, hefur Lewin einnig verið nefndur faðir vinnusálfræðinnar.

Lewin taldi að lýðræði væri lært; að hver kynslóð þyrfti að rækta lýðræði og kenna næstu kynslóð. Rannsóknir hans á börnum í Iowa bentu til þess að það væri fljótlegt að bæla niður fólk undir drottnandi stjórn en að langan tíma tæki að kenna fólki lýðræðislega hugsun. Einræði er þröngvað upp á einstaklinginn en lýðræði þarf hann að læra. Þar sem hagnýting var gegnumgangandi í hugsun Lewins kemur ekki á óvart að hann leit á rannsóknir í félagsvísindum sem mikilvægt tæki til að rækta lýðræði. Hann taldi að án þekkingar á hópöflum, hóphugsun og hóphegðun gæti lýðræði ekki orðið virkt.

Heimildir:
  • Brown, R. (1988) Group Processes. Dynamics within and between groups. Oxford: Blackwell.
  • Farr, R.M. (1996). The roots of modern social psychology. Oxford: Blackwell.
  • Lewin, K., Lippitt, R. and White, R. (1939) ‘Patterns of aggressive behaviour in experimentally created “social climates”’, Journal of Social Psychology 10: 271-99.
  • Smith, M. K. (2001) 'Kurt Lewin: groups, experiential learning and action research', the encyclopedia of informal education. (Skoðað 17.7.2012).
  • Psychology History - Kurt Lewin. (Skoðað 17.7.2012).

Myndir:


1 Þessu hugtaki skal ekki rugla saman við nútímafyrirbærið hópefli en það er heiti yfir samverustundir og samkvæmisleiki sem sumir ráðgjafar telja geta bætt frammistöðu starfsmanna, gert þá kunnugri kostum og göllum hvers annars og aukið vinalegheit starfsmanna á milli. Ekki eru sannfærandi rannsóknarniðurstöður því til stuðnings.

2 If you want truly to understand something, try to change it.

3 There is nothing so practical as a good theory.

Höfundur

Ragna B. Garðarsdóttir

dósent í félagssálfræði við Sálfræðideild HÍ

Útgáfudagur

27.8.2012

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ragna B. Garðarsdóttir. „Hver var Kurt Lewin og hvert var framlag hans til fræðanna?“ Vísindavefurinn, 27. ágúst 2012, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62936.

Ragna B. Garðarsdóttir. (2012, 27. ágúst). Hver var Kurt Lewin og hvert var framlag hans til fræðanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62936

Ragna B. Garðarsdóttir. „Hver var Kurt Lewin og hvert var framlag hans til fræðanna?“ Vísindavefurinn. 27. ágú. 2012. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62936>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Kurt Lewin og hvert var framlag hans til fræðanna?
Kurt Lewin er gjarnan nefndur faðir félagssálfræðinnar og er frumkvöðull vísindalegra rannsókna á hópum og hegðun þeirra. Lewin var lærifaðir margra frægra félagssálfræðinga, til dæmis Festinger, White, Lippit, Schachter og fleiri, sem áttu eftir að halda nafni hans á lofti og marka framtíð fræðanna. Hugmyndafræði hans, kenningar, hugtök og rannsóknaraðferðir eru enn í notkun. Hann sýndi meðal annars fram á að flókin félagsleg fyrirbæri væri hægt að rannsaka með hreinum tilraunum. Það er því fyrir tilstilli Lewins að tilraunafélagssálfræði varð að útbreiddu fagi í bandarískum háskólum um og upp úr miðri síðustu öld. Gegnumgangandi þema í ævistarfi Lewins var hagnýting rannsóknarniðurstaðna; að rannsóknir hans gætu gagnast til að skapa betri heim, en döguðu ekki uppi í rykföllnum bókum.

Kurt Lewin (1890-1947).

Kurt Zadek Lewin fæddist 9. september 1890 í bænum Mogilno í Prússlandi sem nú tilheyrir Póllandi. Fimmtán ára að aldri flutti hann með fjölskyldu sinni til Berlínar. Þar lauk Lewin menntaskóla og því næst lá leiðin til Freiburg þar sem hann hóf nám í læknisfræði. Honum hugnaðist þó ekki læknisfræðin og fluttist til München til að læra líffræði. Ekki entist hann þar og árið 1910 hóf Lewin nám í sálfræði og heimspeki við Berlínarháskóla. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út var hann kallaður í þýska herinn en slasaðist á vígvellinum og fékk að snúa aftur heim til að ljúka doktorsprófi í sálfræði frá Berlínarháskóla árið 1914 undir leiðsögn Carls Strumpf en Strumpf var nemi Wilhelms Wundt sem margir vilja rekja upphaf sálfræðinnar til. Lewin var búsettur og starfandi í Berlín þegar Hitler komst til valda. Lewin var, eins og svo fjölmargir frægir félagssálfræðingar, gyðingur og stafaði því ógn af einræðisstjórn nasista. Honum tókst að flýja land árið 1933 en sömu sögu er ekki að segja af móður hans sem síðar lét lífið í útrýmingarbúðum nasista. Lewin flúði til Bandaríkjanna þar sem hann bjó og starfaði til dauðadags en hann lést úr hjartaáfalli í febrúar 1947, aðeins tæplega 57 ára að aldri.

Árið 1930, áður en hann gerðist landflótta, hafði Lewin verið gestaprófessor við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum. Þau sambönd sem hann tryggði sér þá auðvelduðu honum að fá fasta stöðu í Bandaríkjunum eftir að hann yfirgaf Þýskaland. Fyrst gegndi hann stöðu við Cornell (1933-1935), svo við háskólann í Iowa (1935-1944) og að lokum við MIT (Massachusetts Institute of Technology, 1944-1947). Einnig var hann gestaprófessor við Harvard-háskóla árin 1938 og 1939. Við MIT fékk hann tækifæri til að láta þann draum sinn rætast að koma á fót rannsóknarstofnuninni Research Center on Group Dynamics. Þetta hugtak group dynamics − eða hópöfl1 − setti Lewin fram sem samheiti yfir það svið sálfræðinnar sem tileinkað er rannsókum á hópum. Hugtakið er enn notað í þeirri merkingu. Hugtakið hópöfl vísar til þeirra eiginleika sem Lewin taldi hópa hafa, umfram það að vera einfalt samsafn einstaklinga. Rannsóknir hans og kenningar ganga út frá því að hópur sé meira en summa einstaklinganna; að hópar hafi annars konar afl og eiginleika en einstaklingarnir sem þá mynda og því muni hópar hegða sér á annan hátt en einstaklingar myndu gera. Þessi hugmynd Lewins er undir sterkum áhrifum hinnar þýsku skynheildarsálfræði (þýs. Gestalt).

Þau sambönd sem Lewin tryggði sér þegar hann var gestaprófessor við Stanford-háskóla auðvelduðu honum að fá fasta stöðu í Bandaríkjunum er hann flúði land vegna þeirrar ógnar sem stafaði af einræðisstjórn nasista.

Lewin taldi hegðun orsakast af samspili manneskjunnar og umhverfis hennar, að hvorki erfðir né umhverfi geti ein og sér skýrt allan breytileika í hegðun: Ekki væri hægt að skilja hegðun einungis út frá þeirri persónu sem maður hefur að geyma heldur skipti máli í hvaða umhverfi maðurinn er, sem hann vísaði til sem lifespace, og hvernig hann túlkar það umhverfi. Allar aðrar skýringar taldi Lewin ofureinfaldanir. Þessi nálgun hans hefur verið kölluð „Field Theory“ eða vettvangskenning. Til þess að skýra þetta setti Lewin fram formúluna $B=ƒ(P,E)$ sem þýðir að hegðun er fall af einstaklingi og umhverfi hans. Á þeim tíma sem hann setti fram þessa formúlu þótti hún byltingarkennd. Þágildandi skýringar á hegðun voru ýmist sóttar í fortíð einstaklingsins og undirmeðvitund, samanber Freudismi, eða í öfgakennda atferlisfræði (e. radical behaviourism) sem var þá tískubylgja í sálfræði og leyfði lítið rúm fyrir samspil einstaklings og umhverfis. Þessi formúla Lewins hefur mörgum þótt gagnrýniverð og hefur verið tekin sem dæmi af þeim fræðimönnum sem telja of langt gengið í að smætta mannlega hegðun niður í einfaldar reikniformúlur. Sú gagnrýni byggir þó á misskilningi því slík smættun var fjarri því að vera markmið Lewins. Formúluna setti hann fram sem eins konar þumalfingursreglu til að minna á að hegðun leiðir af flóknu samspili erfða og umhverfis.

Lewin, ásamt nemendum og samstarfsmönnum bæði við MIT og Iowa, gerði fjölmargar tilraunir á hóphegðun, en slíkri aðferðafræði hafði ekki verið áður beitt á hópa. Hann lagði mikla áherslu á að til þess að félagssálfræði gæti fleygt fram sem fagi yrði að notast við tilraunir. „Viljir þú skilja eitthvað í raun, reyndu að breyta því2“ sagði hann og vísaði þar til tilraunanna; rannsóknaraðferða sem gengu út á að reyna að breyta hegðun, hugsun og líðan. Þessa áherslu Lewins á breytingu má einnig rekja til löngunar hans til þess að hagnýta þekkingu sálfræðinnar til að leysa samfélagsleg vandamál. „Ekkert er gagnlegra en góð kenning3“ eru líklega þekktustu orð Lewins. Honum var það hjartans mál að kenningar hans og rannsóknarniðurstöður kæmu að gagni. Til þess að ná þessu markmiði taldi hann að sálfræðingar yrðu að gera meira en að lýsa atferli og hugsun, þeir yrðu að finna leiðir til að breyta atferli og hugsun. Hann átti því frumkvæði að svokölluðum athafnarannsóknum (e. action research) sem tvinnuðu saman kenningar og íhlutanir til þess að ná fram samfélagslegum breytingum. Ekki er ólíklegt að uppruni Lewins, gyðingatrú og samtímaatburðir hafi haft áhrif á þessa sannfæringu hans. Það Þýskaland sem hann flúði var undir oki einræðisherra. Lewin einsetti sér að sýna fram á að slíkir stjórnunarhættir hefðu slæm áhrif á líðan og hegðan einstaklinga en að lýðræði væri ákjósanlegasta stjórnarformið til að hámarka vellíðan samfélagsins.

Kurt Lewin hefur verið nefndur faðir vinnusálfræðinnar.

Til að sýna fram á þetta gerði hann tilraunir, meðal annars með börnum og á vinnustöðum, þar sem aðstoðarmenn hans fengu fyrirmæli um að stjórna hópum þátttakenda ýmist á lýðræðislegan (e. democratic) eða drottnandi (e. authoritarian) hátt. Frammistaða og líðan hópanna var svo mæld. Sagan segir að fyrir tilviljun hafi Lewin einnig uppgötvað þriðja stjórnarformið, aðgerðalausa stjórnun (fr. laissez-faire), sem má rekja til þess að einn latur aðstoðarmaður hans nennti ekki að fara að fyrirmælum, setti þess í stað fætur upp á borð og skipti sér ekki af hópnum sem honum var gert að stjórna. Í stuttu máli má segja að hópar undir stjórn þess aðgerðalausa uppskáru lítið í hópstarfinu en kunnu yfirleitt vel við stjórnandann. Framleiðni var mikil undir drottnandi stjórn, en aðeins ef stjórnandinn var á staðnum. Undir drottnandi stjórnanda urðu þátttakendur fjandsamlegir, árásargjarnir og óánægðir. Undir stjórn lýðræðislegs stjórnanda urðu þátttakendur hugmyndaríkari og vinalegri og hópurinn samstilltari en hinir tveir hóparnir. Niðurstöðurnar bentu ótvírætt til þess að lýðræðislegir stjórnunarhættir væru æskilegastir eins og Lewin taldi. Þessar rannsóknir Lewins eru upphaf rannsókna innan hagnýtrar vinnusálfræði á áhrifum stjórnunarstíls á vinnustöðum. Vegna þessa og vegna rannsókna á hegðun hópa, svo sem starfsmanna, hefur Lewin einnig verið nefndur faðir vinnusálfræðinnar.

Lewin taldi að lýðræði væri lært; að hver kynslóð þyrfti að rækta lýðræði og kenna næstu kynslóð. Rannsóknir hans á börnum í Iowa bentu til þess að það væri fljótlegt að bæla niður fólk undir drottnandi stjórn en að langan tíma tæki að kenna fólki lýðræðislega hugsun. Einræði er þröngvað upp á einstaklinginn en lýðræði þarf hann að læra. Þar sem hagnýting var gegnumgangandi í hugsun Lewins kemur ekki á óvart að hann leit á rannsóknir í félagsvísindum sem mikilvægt tæki til að rækta lýðræði. Hann taldi að án þekkingar á hópöflum, hóphugsun og hóphegðun gæti lýðræði ekki orðið virkt.

Heimildir:
  • Brown, R. (1988) Group Processes. Dynamics within and between groups. Oxford: Blackwell.
  • Farr, R.M. (1996). The roots of modern social psychology. Oxford: Blackwell.
  • Lewin, K., Lippitt, R. and White, R. (1939) ‘Patterns of aggressive behaviour in experimentally created “social climates”’, Journal of Social Psychology 10: 271-99.
  • Smith, M. K. (2001) 'Kurt Lewin: groups, experiential learning and action research', the encyclopedia of informal education. (Skoðað 17.7.2012).
  • Psychology History - Kurt Lewin. (Skoðað 17.7.2012).

Myndir:


1 Þessu hugtaki skal ekki rugla saman við nútímafyrirbærið hópefli en það er heiti yfir samverustundir og samkvæmisleiki sem sumir ráðgjafar telja geta bætt frammistöðu starfsmanna, gert þá kunnugri kostum og göllum hvers annars og aukið vinalegheit starfsmanna á milli. Ekki eru sannfærandi rannsóknarniðurstöður því til stuðnings.

2 If you want truly to understand something, try to change it.

3 There is nothing so practical as a good theory....