Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í sálfræði, ekki síður en öðrum greinum, hefur orðið vinsælt, í anda Tómasar Kuhn, að segja söguna með áherslu á byltingar. Sumir sjá þá byltingu við hvert fótmál, atferlisbyltingu á fyrri hluta 20. aldar og hugræna tölvubyltingu á síðari hluta aldarinnar. Sumir sjá jafnvel enn fleiri, en aðrir eru sparari á byltingavottorð. En ef aðeins mætti nefna einn byltingarmann í sögu sálfræðinnar yrðu flestir sammála um að nefna Wilhelm Wundt (1832-1920). Því að hvað sem líður byltingum í vali viðfangsefna og aðferða í sálfræðilegum rannsóknum þá væri engin nútímasálfræði til án upphafsskrefsins: Að beita náttúruvísindalegri aðferð til rannsókna á sálarlífinu. Þetta skref var stigið í Þýskalandi á 19. öld og nafn Wilhelms Wundt er fyrir löngu verðskuldað tákn um þetta skref.
Reyndar var Wundt ekki sérstaklega byltingalegur í fasi. Hann smellpassaði við þýska nítjándualdarhefð í mótun háskólaprófessora þar sem fór saman elja og skipulag. Nútímasálfræði varð þannig til við tengingu náttúruvísindalegrar aðferðar við hugarheimspeki á 19. öld. Rannsóknir voru þegar hafnar á sambandi áreitisstyrks og skynjunar í lífeðlisfræði og þær má telja til undanfara rannsókna í sálfræði. Wundt var læknir að mennt og nam meðal annars hjá þeim mikla lífeðlisfræðingi Hermanni von Helmholz (1821-1894) og varð einna fyrstur til að stunda hlutlægar rannsóknir á vitund og skynjun undir merkjum sérstaks fags, sálfræðinnar. Hann stofnaði rannsóknarstofu í sálfræði og gegndi háskólastöðum sem kenndar voru við greinina bæði á vegum lífeðlisfræði- og heimspekideilda þar sem hann kenndi þúsundum nemenda og útskrifaði hundruð doktora, innlenda og erlenda. Áhrif hans náðu því langt út fyrir landsteina Þýskalands.
Við Wundt eru kenndar tvær meginlínur í sálfræðilegri hugsun. Sú fyrri, kennd við tímann sem hann vann í Heidelberg, er eindregin tilraunaaðferð með áherslu á vélræna hlið sálarlífs og rannsóknir á tilraunastofum, stundum með tilhneigingu til smættunar sálarlífsfyrirbæra í lífeðlisfræði. Síðari línan er kennd við Leipzig, þar sem Wundt vann langlengst. Sú lína leggur áherslu á þátt aðstæðna, sögu og menningar í mótun hugsunar, einkum viljastýrðrar hugsunar eða æðra hugarstarfs. Þar var í bland beitt aðferðum utan tilraunastofu, sem áttu ýmislegt sammerkt með málvísindum og sagnfræði. Fyrri línan hefur orðið lífseigari í sálfræði 20. og 21. aldar.
Hér má sjá Wilhelm Wundt (sitjandi) með samstarfsmönnum sínum í rannsóknarstofu í sálfræði, fyrstu sinnar tegundar í heiminum, að talið er.
Wundt er oft nefndur upphafsmaður rannsóknarsálfræði og telja margir rannsóknarstofu í sálfræði sem hann stofnsetti í Leipzig þá fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Wundt lagði áherslu á svonefnda tilraunainnskoðun sem fólst í því að þjálfa fólk í að skýra hlutlægt frá meðvitaðri reynslu, einkum skynreynslu. Hann taldi að þannig tækist honum að lyfta heimspekilegum vangaveltum um eðli hugans inn á svið rannsókna sem byggðust á náttúruhyggju og hlutlægni. Þessi tegund innskoðunar byggðist á þeirri hugarheimspeki að bein og greið leið til að rannsaka sálarlíf væri að gaumgæfa eigin hugsun og var um margt í anda heimspeki Descartes. Þessari kartísku sýn og meðfylgjandi rannsóknaraðferð Wundts höfnuðu sálfræðingar í upphafi 20. aldar, einhyggjumenn í leit að hlutlægri aðferð.
Hluti af hugmyndum Wundts eru nú taldar til stefnu í skynjunarsálfræði sem kölluð er formgerðarstefna (e. structuralism). Þar var á dagskrá að skilgreina og einangra frumeindir skynjunarinnar líkt og frumefni í efnafræði og raða í kerfi eins og Dimítri Mendelíev lagði um svipað leyti til með lotukerfinu. Formgerðarsinnarnir töldu að þegar einstakir hlutar skynjunarinnar væru fundnir mætti útskýra verkan skynfæranna. Helsta rannsóknartækið var fyrrnefnd innskoðun (e. introspection) eða lýsing á eigin meðvitund. Henni var hafnað einkum vegna þess að erfitt reyndist að finna mælingar sem voru stöðugar, það er að segja eins dag eftir dag og sama hver mældi og hvar.
Wundt var því um skeið kynntur til sögunnar sem eins konar safngripur, talsmaður úreltrar aðferðar. En sú kynning lítur fram hjá því að náttúruhyggja hans og áhersla á vísindalega rannsókn á sálarlífi lifði áfram í sálfræði og lifir enn þó að innskoðun hans hafi liðið undir lok. Og sú kynning lítur líka fram hjá því að mikið af rannsóknum sem gerðar voru á vegum Wundts eru á margan hátt nútímalegar. Þannig má rekja margt af því sem nú er þekkt um skynjun birtu og birtuskila til uppgötvana á rannsóknarstofu hans. Greindarpróf sem enn eru notuð eiga rótarskot í rannsóknum hans. Ljóst er að framlag Wundts til þróunar sálfræðinnar sem vísindagreinar heldur nafni hans á lofti um ókomna tíð. Hann lagði grunninn að sálfræði sem vísindagrein sem reiðir sig á tilraunir og tilgátuprófanir. Í því felst bylting Wundts.
Myndir:
Árni Kristjánsson og Sigurður J. Grétarsson. „Hver var Wilhelm Wundt og hvernig lagði hann grunninn að sálfræði sem vísindagrein?“ Vísindavefurinn, 2. febrúar 2011, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58336.
Árni Kristjánsson og Sigurður J. Grétarsson. (2011, 2. febrúar). Hver var Wilhelm Wundt og hvernig lagði hann grunninn að sálfræði sem vísindagrein? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58336
Árni Kristjánsson og Sigurður J. Grétarsson. „Hver var Wilhelm Wundt og hvernig lagði hann grunninn að sálfræði sem vísindagrein?“ Vísindavefurinn. 2. feb. 2011. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58336>.