Litur bergs ræðst af myndunarhætti þess og efnasamsetningu, það er hvaða frumefni eru í þeim steindum sem bergið mynda. Bergtegundum er skipt í þrjá meginflokka eftir uppruna: Storkuberg sem myndast þegar kvika úr iðrum jarðar storknar, setberg sem verður til úr lausu seti sem myndað hefur þykk setlög og myndbreytt berg sem verður til þegar storkuberg eða setberg umbreytist við mikinn hita og þrýsting.
Á Íslandi eru flestir steinar gráir af því að basalt, sem er ein tegund storkubergs og það berg sem hér er algengast, hefur þannig efnasamsetningu að það verður dökkt eða gráleitt að lit. Reyndar er ekki allt basalt eins á litinn; blágrýti er dökkt eða jafnvel svart á meðan grágrýti, sem er önnur gerð basalts, er grátt. Bergtegundir í öðrum litum er þó einnig að finna hér á landi þótt þær séu ekki eins útbreiddar. Sem dæmi má nefna líparít eða ljósgrýti sem einnig er storkuberg. Líparít getur vissulega verið grátt eða jafnvel svart (hrafntinna) en getur einnig verið ljóst, gulleit eða bleikt á litinn. Erlendis, þar sem bæði setberg og myndbreytt berg eru algengari en hér á landi, má sjá steina í öðrum litum en við eigum að venjast. Sem dæmi má nefna kalkstein sem er algengt setberg erlendis og myndar jafnvel heilu fjöllin. Kalksteinn er ljós á lit, jafnvel nánast hvítur. Dæmi um þekktar jarðmyndanir úr kalksteini eru Dólómítafjöllin sem eru í suðaustanverðum Ölpunum og Doverklettarnir á Englandi. Annað dæmi um kalkstein, sem reyndar er myndbreyttur, er marmari, en hann finnst í ýmsum litum. Sandsteinn er önnur gerð setbergs sem er til í mörgum litum. Til dæmis er kvarsríkur sandsteinn (kvars er ein gerð steinda) oft brún- eða rauðleitur sökum járnmengunar.
Hér hefur ekki verið fjallað sérstaklega um steindir en þær geta verið í ýmsum litum. Sem dæmi má nefna kvarssteindirnar ametyst, sem er fjólublátt, reykkvars sem er reyklitað, mó- eða brúnleitt, jaspis sem er ýmist grænn, rauður eða móleitur og ópala sem einnig geta verið grænir, mó- eða rauðleitir. Hér hafa aðeins verið nefnd nokkur dæmi um mismunandi liti steina en þau eru miklu fleiri. Að lokum má benda lesendum á svar Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni: Af hverju eru steinar mismunandi á litinn? Á Vísindavefnum er einnig að finna fleiri svör um berg og steindir, til dæmis:
- Hvað eru "íslandít" og "Iceland spar"? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvernig myndast zeólítar? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hvað eru eðalsteinar? eftir Kristján Jónasson
- Þorleifur Einarsson. 1991. Myndun og mótun lands. Reykjavík: mál og menning
- Jóhann Ísak Pétursson og Jón Gauti Jónsson. 2001. Jarðfræði. Reykjavík: Iðnú
- Limestone á Wikipedia - the free encyclopedia
- Mynd af basalti: Basalt á Wikipedia - the free encyclopedia
- Mynd frá Dover: Smugmug: Bo Allen