A) Skólesít er dæmi um þráð- eða prismalaga kristalform. B) Stilbít er dæmi um plötulaga kristalform. C) Kabasít er dæmi um kistu- eða kubbslaga kristalform. Zeólítar, sem og aðrar holufyllingar falla út úr vatnslausn við ummyndun basaltsins þegar það grefst og hitnar upp. Uppleystu efnin í grunnvatninu hafa skolast úr berginu sem jafnframt tekur efnafræðilegum breytingum við ummyndunina. Eins og sést í töflunni hér fyrir neðan er stöðugleiki hinna ýmsu zeólíta háður hitastigi: við lægstan hita myndast til dæmis kabasít en við hæstan hita laumontít. Af þessu sökum finnst kabasít ofarlega í fjallshlíðum tertíeru jarðmyndunarinnar en laumontít neðst – til dæmis við bæinn Teigarhorn í Berufirði sem er frægasti fundarstaður zeólíta á Íslandi. Sama hitaháða röð finnst í borholum á jarðhitasvæðum og á slíkum gögnum er taflan byggð.
Þess má geta að zeólítar í holufyllingum eru háðir samsetningu (kísilmettun) bergsins sem þeir myndast í og þetta notfærði Walker sér við jarðfræðikortlagninguna eystra. Í „ólivín-basalti“ (sem Walker nefndi svo) eru til dæmis kabasít, thomsonít og skólesít ásamt kalkspati en í „þóleiíti“ eru til dæmis mordenít og heulandít ásamt kvarsi. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um berg og steindir, til dæmis:
- Hver er munurinn á grágrýti og blágrýti?
- Hvaða bergtegundir fyrirfinnast nær eingöngu á Íslandi eða hafa séríslensk einkenni?
- Eru til sérstakir íslenskir steinar?
- Hvað eru eðalsteinar?
- Axel Kaaber, Einar Gunnlaugsson, Kristján Sæmundsson. 1991. Íslenskir steinar, 2. útg., Bjallan, Reykjavík.
- Páll Imsland. 1988. Prófessor G.P.L. Walker á Hawaii sæmdur heiðursdoktorstitli við Háskóla Íslands og nokkur orð um jarðfræðirannsóknir á Íslandi. Náttúrfræðingurinn 58: 199-211.
- Mynd af heulandít: Allan Krill
- Myndir af skólesít og kabasít: The Mineral Gallery
- Mynd af stilbít: Mindat.org
- Tafla yfir zeólíta: Tobias Weisenberger