
„Ég er fegurðardrottning, ég brosi í gegnum tárin“ söng Ragnhildur Gísladóttir í laginu Fegurðardrottning.
Í ritinu La Distinction: Une critique sociale du goût tengir Bourdieu smekk við félagslega stöðu og telur að með smekk sínum láti fólk í ljós gildismat sitt og samkennd með tilteknum þjóðfélagshópi, það er gefi til kynna hver þjóðfélagsstaða þess er. Þegar fólk velur sér til dæmis myndverk, bíl eða húsgögn sýnir smekkur þess hvaða þjóðfélagshópi það tilheyrir. Ástæðan fyrir þessu er sú, að mati Bourdieu, að fagurfræðilegur og listrænn smekkur er félagslega mótaður og lærður, en ekki náttúrulegur, hann er hliðstæður tungumáli sem einstaklingurinn þarf að læra að tileinka sér. Hæfileikinn til að „sjá“ skilyrðist því af þekkingu sem fólk þarf að afla sér.Við þetta mætti þó bæta að jafnvel þótt fegurðarsmekkur sé mögulega lærður virðast mörg okkar þrá fegurð í margvíslegum myndum. Og við metum hið fagra vegna þess að það er fallegra en eitthvað annað í hugum okkar. Hægt væri að spyrja hvort að slíkur samanburður feli ekki ávallt í sér keppni í víðum skilningi þessa orðs? Fegurðarsamkeppnir hafa lengi verið umdeildar en þær náðu fyrst almennum vinsældum um miðja tuttugustu öld. Eitt af fyrstu verkum Rauðsokkuhreyfingarinnar var að mæta í 1. maí gönguna árið 1970 með risastóra gifsstyttu af konu með fegurðaborða um sig miðja eins og tíðkast í fegurðarsamkeppnum. Á borðanum stóð „Manneskja - ekki markaðsvara“ og með styttunni var því mótmælt hvernig áhersla á útlit ýtir undir hlutgervingu á kvenlíkamanum. Gagnrýni af þessu tagi hefur verið eitt af meginstefum kvenréttindabaráttu. Skipuleggjendur fegurðarsamkeppna hafa að einhverju leyti brugðist við slíkri gagnrýni með því að bræða saman ytri fegurð og hinn innri mann, þar sem „fegurðin kemur að innan“. Með því verður mælikvarðinn á fegurð ekki aðeins hlutlægur heldur einnig huglægur. Slík samþætting hins góða og fallega er reyndar nokkuð algeng í hugmyndasögu þessara hugtaka og varpar í raun fram enn erfiðari spurningu en hér er reynt að svara, nefnilega: Er hægt að keppa í hinu góða eða í góðmennsku? Samband fegurðar, íþrótta og keppni felur einnig í sér aðra erfiða spurningu: Hvað er íþrótt? Erfitt er að greina íþrótt frá almennri hreyfingu, margvíslegum tómstundaformum eða menningarstarfsemi. Oft er keppt í dansi, þó ekki séu allar dansíþróttir skilgreindar sem íþróttagreinar. Nánast engin líkamleg hreyfing á sér stað í skák. Mjög algengt er að horfa til Ólympíuleikanna til þess að skilgreina keppnisíþróttir. Það er spurning hvort það verði nokkurn tíma keppt í fegurð á Ólympíuleikunum. Að minnsta kosti er erfitt að sjá fyrir hvert ólympíulágmark þeirrar íþróttar væri. Heimildir:
- Vísindavefurinn: Af hverju er smekkur manna mismunandi? (Skoðað 04.07.2013).
- Kvennasögusafn Íslands - Rauðsokkahreyfingin. (Skoðað 04.07.2013).
- Ungfrú Ísland - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Skoðað 04.07.2013).
- Rauðsokkahreyfingin - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Skoðað 04.07.2013).
- Módelfitness - reglur og framkvæmd. (Skoðað 04.07.2013).
- ÍSÍ. (Skoðað 04.07.2013).
- Beauty contest | Flickr - Photo Sharing! Myndrétthafi er Boston Public Library. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 04.07.2013).
- IMG_7860missnic12 | Flickr - Photo Sharing! Myndrétthafi er Jorge Mejía peralta. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 04.07.2013)
Hvers vegna er fegurð skilgreind sem íþrótt, samanber fegurðarsamkeppnir og módelfitness?