Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er smekkur manna mismunandi?

Gunnar Harðarson

Segja má að í Evrópu sé ekki farið að nota hugtakið “smekkur” í fagurfræðilegri merkingu fyrr en á 18. öld (á Íslandi vart fyrr en um miðja 19. öld). Hugmyndir um smekk uxu upp úr kenningum um innra fegurðarskyn. Þekktustu rit um þessi efni eru ritgerð Humes um smekkvísi, On the Standard of Taste (1757), og rit Kants um dómgreindina, Kritik der Urtheilskraft (1790).

Í stuttu máli má segja að Hume telji að smekksdómar séu huglægir og byggist á reynslu. Þeir lýsa tilfinningalegri afstöðu einstaklingsins en ekki raunverulegum eiginleikum hluta. Þegar einhver bendir á landslag og segir “Sjáið hvað þetta er fallegt!” merkir það ekki að landslagið sjálft sé fallegt heldur vísar til þeirrar ánægjutilfinningar sem landslagið vekur. Fegurðin býr ekki í hlutunum, heldur í auga áhorfandans.

Þrátt fyrir þetta telur Hume að menn geti verið sammála um að sum listaverk séu í raun og veru betri en önnur. Hann telur þetta vera spurningu um reynslu, reynslan sýni einfaldlega að sum “klassísk” listaverk (eins og til dæmis Hómerskviður) veiti fleiri mönnum meiri ánægju en ýmislegt annað. Ástæðu þessa telur hann vera þá að fegurðarupplifunin stafi að einhverju leyti af eiginleikum í hlutunum sjálfum sem orka á skynfæri manna, þó að þeir eiginleikar séu “handan fegurðar og ljótleika” ef svo mætti segja.

Hume telur að mismunur á smekk stafi af því að menn séu misnæmir á blæbrigði hlutanna. Þannig þarf góður listrýnir að hafa til að bera sérstakt næmi á fegurð og list, hann þarf að hafa reynslu af list og þekkingu á henni, hann verður að vera fordómalaus og hugsa af skynsemi. Það sem slíkur maður telur að sé gott listaverk geta flestir fallist á að sé gott verk. Bent hefur verið á þá þversögn hjá Hume að mælikvarðinn á góða list sé sá að góðir gagnrýnendur telja hana góða list, en mælikvarðinn á góðan listrýni sé aftur á móti sá að hann kunni að meta góða list.

Með allmikilli einföldun má segja að Kant telji að smekksdómar séu huglægir, en þó algildir. Þeir eru huglægir vegna þess að þeir byggjast á tilfinningu, en jafnframt algildir vegna þess að þeir eru óháðir eiginhagsmunum áhorfandans. Þegar ég segi: “Þessi hlutur er fagur” er ég ekki að segja neitt um hlutinn og eðli hans, heldur er ég að segja að þessi hlutur falli mér í geð, en það sé samt óháð því sem sérkennir mig sem persónu, óháð hagsmunum mínum, löngunum og svo framvegis. Smekksdómurinn byggist því á almennum og sammannlegum þáttum og þess vegna er líklegt að aðrir muni komast að sömu niðurstöðu, þrátt fyrir að dómurinn sé tilfinningabundinn og huglægur.

Á það hefur verið bent að í kenningum Humes (og Kants) sé órannsökuð sú gefna forsenda að smekkurinn byggist á sammannlegu eðli. Femíniskir fræðimenn hafa tekið upp þessa hugmynd og bent á að ýmislegt í kenningum þessara heimspekinga um manneðlið, sem þeir telja að séu almenn og hlutlæg sannindi, sé þegar grannt er skoðað byggt á sérhagsmunum karla og hlutdrægt út frá þeirra sjónarhorni. Hér má einkum benda á kenninguna um “óhagsmunabundna” (e. disinterested) skoðun fagurra mynda (til dæmis af konum), en þær hugmyndir feli í sér klassísk karlmennskugildi eins og sjálfsstjórn og vald.

Á undanförnum áratugum hafa einna athyglisverðustu kenningar um smekk komið fram hjá franska félagsfræðingnum Pierre Bourdieu. Í ritinu La Distinction: Une critique sociale du goût tengir Bourdieu smekk við félagslega stöðu og telur að með smekk sínum láti fólk í ljós gildismat sitt og samkennd með tilteknum þjóðfélaghópi, það er gefi til kynna hver þjóðfélagsstaða þess er. Þegar fólk velur sér til dæmis myndverk, bíl eða húsgögn sýnir smekkur þess hvaða þjóðfélagshópi það tilheyrir. Ástæðan fyrir þessu er sú, að mati Bourdieu, að fagurfræðilegur og listrænn smekkur er félagslega mótaður og lærður, en ekki náttúrulegur, hann er hliðstæður tungumáli sem einstaklingurinn þarf að læra að tileinka sér. Hæfileikinn til að “sjá” skilyrðist því af þekkingu sem fólk þarf að afla sér. Þessi félagsmótun er ómeðvituð og fer fram, meðal annars innan fjölskyldna, svo snemma að fólk áttar sig ekki á henni og vanmetur gjarnan þá “fræðslu” og “skilyrðingu” sem býr að baki mismunandi smekk fyrir hlutum og listaverkum. Smekkur fólks samsvarar þá félagslegri stigskiptingu og er mismunandi vegna þess að þjóðfélagið skiptist í fjölbreytilega hópa sem nota ýmsar aðferðir til að bera kennsl á þá sem tilheyra þeim.

Heimildir

George Dickie, Introduction to Aesthetics. An Analytic Approach, Oxford University Press, 1997

Carolyn Korsmeyer (ritstj.), Aesthetics: The Big Questions, Blackwell Publishers, 1998

Sjá einnig svar Kristjáns Árnasonar við spurningunni Hver er uppruni listarinnar? og svar Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur við spurningunni Er til algild fegurð?




Mynd af Hume: UCLA

Mynd af Kant: Marxists.org

Mynd af Bourdieu: Columbia University in the City of New York

Höfundur

Gunnar Harðarson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

21.6.2002

Spyrjandi

Guðrún Drífa

Tilvísun

Gunnar Harðarson. „Af hverju er smekkur manna mismunandi?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2514.

Gunnar Harðarson. (2002, 21. júní). Af hverju er smekkur manna mismunandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2514

Gunnar Harðarson. „Af hverju er smekkur manna mismunandi?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2514>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er smekkur manna mismunandi?
Segja má að í Evrópu sé ekki farið að nota hugtakið “smekkur” í fagurfræðilegri merkingu fyrr en á 18. öld (á Íslandi vart fyrr en um miðja 19. öld). Hugmyndir um smekk uxu upp úr kenningum um innra fegurðarskyn. Þekktustu rit um þessi efni eru ritgerð Humes um smekkvísi, On the Standard of Taste (1757), og rit Kants um dómgreindina, Kritik der Urtheilskraft (1790).

Í stuttu máli má segja að Hume telji að smekksdómar séu huglægir og byggist á reynslu. Þeir lýsa tilfinningalegri afstöðu einstaklingsins en ekki raunverulegum eiginleikum hluta. Þegar einhver bendir á landslag og segir “Sjáið hvað þetta er fallegt!” merkir það ekki að landslagið sjálft sé fallegt heldur vísar til þeirrar ánægjutilfinningar sem landslagið vekur. Fegurðin býr ekki í hlutunum, heldur í auga áhorfandans.

Þrátt fyrir þetta telur Hume að menn geti verið sammála um að sum listaverk séu í raun og veru betri en önnur. Hann telur þetta vera spurningu um reynslu, reynslan sýni einfaldlega að sum “klassísk” listaverk (eins og til dæmis Hómerskviður) veiti fleiri mönnum meiri ánægju en ýmislegt annað. Ástæðu þessa telur hann vera þá að fegurðarupplifunin stafi að einhverju leyti af eiginleikum í hlutunum sjálfum sem orka á skynfæri manna, þó að þeir eiginleikar séu “handan fegurðar og ljótleika” ef svo mætti segja.

Hume telur að mismunur á smekk stafi af því að menn séu misnæmir á blæbrigði hlutanna. Þannig þarf góður listrýnir að hafa til að bera sérstakt næmi á fegurð og list, hann þarf að hafa reynslu af list og þekkingu á henni, hann verður að vera fordómalaus og hugsa af skynsemi. Það sem slíkur maður telur að sé gott listaverk geta flestir fallist á að sé gott verk. Bent hefur verið á þá þversögn hjá Hume að mælikvarðinn á góða list sé sá að góðir gagnrýnendur telja hana góða list, en mælikvarðinn á góðan listrýni sé aftur á móti sá að hann kunni að meta góða list.

Með allmikilli einföldun má segja að Kant telji að smekksdómar séu huglægir, en þó algildir. Þeir eru huglægir vegna þess að þeir byggjast á tilfinningu, en jafnframt algildir vegna þess að þeir eru óháðir eiginhagsmunum áhorfandans. Þegar ég segi: “Þessi hlutur er fagur” er ég ekki að segja neitt um hlutinn og eðli hans, heldur er ég að segja að þessi hlutur falli mér í geð, en það sé samt óháð því sem sérkennir mig sem persónu, óháð hagsmunum mínum, löngunum og svo framvegis. Smekksdómurinn byggist því á almennum og sammannlegum þáttum og þess vegna er líklegt að aðrir muni komast að sömu niðurstöðu, þrátt fyrir að dómurinn sé tilfinningabundinn og huglægur.

Á það hefur verið bent að í kenningum Humes (og Kants) sé órannsökuð sú gefna forsenda að smekkurinn byggist á sammannlegu eðli. Femíniskir fræðimenn hafa tekið upp þessa hugmynd og bent á að ýmislegt í kenningum þessara heimspekinga um manneðlið, sem þeir telja að séu almenn og hlutlæg sannindi, sé þegar grannt er skoðað byggt á sérhagsmunum karla og hlutdrægt út frá þeirra sjónarhorni. Hér má einkum benda á kenninguna um “óhagsmunabundna” (e. disinterested) skoðun fagurra mynda (til dæmis af konum), en þær hugmyndir feli í sér klassísk karlmennskugildi eins og sjálfsstjórn og vald.

Á undanförnum áratugum hafa einna athyglisverðustu kenningar um smekk komið fram hjá franska félagsfræðingnum Pierre Bourdieu. Í ritinu La Distinction: Une critique sociale du goût tengir Bourdieu smekk við félagslega stöðu og telur að með smekk sínum láti fólk í ljós gildismat sitt og samkennd með tilteknum þjóðfélaghópi, það er gefi til kynna hver þjóðfélagsstaða þess er. Þegar fólk velur sér til dæmis myndverk, bíl eða húsgögn sýnir smekkur þess hvaða þjóðfélagshópi það tilheyrir. Ástæðan fyrir þessu er sú, að mati Bourdieu, að fagurfræðilegur og listrænn smekkur er félagslega mótaður og lærður, en ekki náttúrulegur, hann er hliðstæður tungumáli sem einstaklingurinn þarf að læra að tileinka sér. Hæfileikinn til að “sjá” skilyrðist því af þekkingu sem fólk þarf að afla sér. Þessi félagsmótun er ómeðvituð og fer fram, meðal annars innan fjölskyldna, svo snemma að fólk áttar sig ekki á henni og vanmetur gjarnan þá “fræðslu” og “skilyrðingu” sem býr að baki mismunandi smekk fyrir hlutum og listaverkum. Smekkur fólks samsvarar þá félagslegri stigskiptingu og er mismunandi vegna þess að þjóðfélagið skiptist í fjölbreytilega hópa sem nota ýmsar aðferðir til að bera kennsl á þá sem tilheyra þeim.

Heimildir

George Dickie, Introduction to Aesthetics. An Analytic Approach, Oxford University Press, 1997

Carolyn Korsmeyer (ritstj.), Aesthetics: The Big Questions, Blackwell Publishers, 1998

Sjá einnig svar Kristjáns Árnasonar við spurningunni Hver er uppruni listarinnar? og svar Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur við spurningunni Er til algild fegurð?




Mynd af Hume: UCLA

Mynd af Kant: Marxists.org

Mynd af Bourdieu: Columbia University in the City of New York...