Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þótt fagurfræði sé á íslenzku kennd við fegurð, er það hugtak þó frekar sjaldgæft í fræðilegri umræðu seinni tíma. Menn tala frekar um form eða listgildi.
Það fer eftir grunnviðhorfum í frumspeki og þekkingarfræði, hverjum augum menn líta fegurðina. Þeir sem telja að við höfum aðgang að einhverju sem nefnist raunveruleiki, líta gjarnan svo á, að fegurð sé einhverskonar eiginleiki hluta (náttúruhluta eða handaverka manna). Þeir sem líta svo á, að við höfum aðgang að vitundinni einni, segja að fegurð hljóti að vera einhverskonar reynsla, og athugun á fegurð sé því fólgin í því að afmarka, einkenna og lýsa þeirri reynslu.
Róttækir raunhyggjumenn (empíristar) líta svo á, að þar sem sérhver reynsla sé afstæð, einkaleg og persónubundin, hafi hver maður sinn smekk, og að um hann verði ekki deilt. Það er ekkert slíkt til sem heitir fegurð. Það sem einum finnst fagurt finnst öðrum ljótt, og við það verður að láta sitja.
Ef við aðhyllumst þá skoðun, að fegurð sé eiginleiki hluta, hljótum við að spyrja: Hvaða eiginleikar? Um tvennt er að ræða: Lit eða lögun. Við höfum heyrt talað um lostfagra liti. En hvernig vitum við, hvaða litir eru fagrir? Við getum litið svo á, að það fari ungri stúlku vel að vera rjóð í vöngum. En eru þá öll rjóð andlit fögur? Það yrði erfitt að skera úr því með mælingu.
Ef fegurð tilheyrir hlutum, verður hún að vera mælanleg. Og mælanlegir eru þeir eiginleikar sem verða í tölum taldir, lengd, breidd og hæð. Þá er hægt að skoða hvaða hlutföll þessara eiginleika hljóta að teljast fagrir. Sú skoðun var uppi í Grikklandi hinu forna, að fegurð væri fólgin í samræmi þessara hinna mælanlegu eiginleika (taxis). Enginn setur stórt stefni á lítinn bát, segir Aristóteles.
Séu stærðarhlutföllin í verkinu í góðu samræmi, er það fagurt. Þetta er kenningin um hlutföllin. Í þeirri kenningu fólst, að ákveðið hlutfall væri mælikvarði á fegurð, það er hlutfallið 5/8. Það heitir öðru nafni gullinsnið. Þetta sjónarmið er rótfast í menningu Vesturlanda. Það hefur margsinnis verið staðfest með tilraunum, að menn velja frekar hlut, sem býr yfir gullinsniði, en annan sem gerir það ekki og finnst sá fyrrnefndi fallegri. En hinir fornu Grikkir ráku sig á það í árdaga vesturlenzkrar heimspeki, að það var ekki hægt að halda reglunni um hlutföllin til streitu. Súlur, sem stóðu í röð með nákvæmlega útmældu millibili, sýndust hallast út, þegar horft var á þær framan frá. Það varð því að halla þeim örlítið hverri að annarri, svo að þær sýndust vera nákvæmlega lóðréttar.
Síðan gerðu menn sér glögga grein fyrir því, að ýmsar fleiri blekkingar eru innbyggðar í sjónskynið og að það yrði að taka tillit til þeirra bæði í byggingar- og myndlist. Þegar Leonardó da Vinci og Leon Battista Alberti hugðust á endurreisnartímanum smíða kenningu um vísindalega endursköpun "veruleikans" í mynd, byggðist hún á því hvernig myndin af honum lítur út í skynjun eins auga. Allir vita að hlutir sýnast smækka í hlutfalli við fjarlægð og að samsíða línur sýnast skerast í fjarlægð. Allt þetta verður til þess að brennidepill athyglinnar færist frá hlutfallakenningunni og inn á hið huglæga svið. Menn hætta að tala um, að hið fagra sé í mælanlegum hlutföllum, heldur í upplifun og reynslu af "veruleikanum". En hvernig sér til átta í hugarheimum? Hvaða reynsla hefur þann eiginleika að vera fögur (eða ljót)?
Davíð Hume áleit að hugtakið smekkur sé sá sjónarhóll, sem horfa beri frá. En hvernig getum við með tilstyrk smekksins greint hið fagra frá hinu ljóta? Einungis víðtæk og endurtekin reynsla getur brýnt smekkinn, svo að hann geti orðið að mælikvarða. Tveir menn smökkuðu á víni úr tunnu nokkurri. Annar kvaðst finna keim af leðri, en hinn af járni. Aðrir þeir sem slokuðu í sig víni úr ámunni hlógu að hinum tveim bjálfum. En þegar kom að því að súpa dreggjarnar kom í ljós að þar lá lykill með nautshúðarbleðil bundinn við.
Kant andmælti þessu: það er ekki hægt að leggja að jöfnu góðan smekk fyrir ýmsum lífsins gæðum og smekk fyrir hinu fagra. Hann viðurkenndi, að smekksdómar hljóti ætíð að vera huglægir (og þar með afstæðir), en hlytu þó að gera kröfu til að vera almennir og þar með mælikvarði á hið fagra. En hvernig má þetta tvennt fara saman? Ég get gert kröfu til að smekksdómur minn gildi einnig fyrir aðra, ef hann einskorðast við form. Slíkir smekksdómar hafa sameiginlegan grunn og gilda því almennt, þótt þeir séu lýsing einkalegrar reynslu.
Kant olli straumhvörfum. En hvernig á að vinna úr hugsun hans? Hvernig veit ég, nánar tiltekið, hvaða form er fagurt? Höfundur nokkur (Clive Bell) kvað það form fagurt, sem virkar á mig sem merkingarhlaðið. En þessi hugsun bítur í skottið á sér: Hið fagra form er það sem það er, af því ég finn merkingu í því. Áhrifin sem formið hefur á mig gerir það að verkum að það er það sem það er.
Fagurfræðileg umræða síðustu áratuga hefur hallazt að því, að fella niður allt tal um fegurð og ljótleika. Þess í stað hefur umræðan beinzt að því, að tiltaka, hvað verk (hlutur) þarf að hafa til að bera, svo að hægt sé að telja það listaverk (umræða um listgildi).
Til eru þeir, sem segja, að sérhvað það sem listheimurinn viðurkennir sem listaverk, sé listaverk. En hvað er listheimur og hvernig fer hann að því að taka ákvarðanir? Enn sem fyrr er umræðan um hið fagra frá tvennskonar sjónarhorni: Hinu hlutlæga, því að sérhver fagur hlutur hlýtur að hafa formgerð, og svo frá hinu huglæga: hið fagra hefur sérstök áhrif á okkur. Hvortveggja sjónarmiðin liggja að baki rökræðunni í riti Aristótelesar um skáldskaparlistina. Jafnvel í fornöld sveif hugur jafn hátt.
Arnór Hannibalsson (1934-2012). „Hvað er fegurð og hvað er ljótleiki? Í hverju felst fegurðin?“ Vísindavefurinn, 5. júlí 2002, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2567.
Arnór Hannibalsson (1934-2012). (2002, 5. júlí). Hvað er fegurð og hvað er ljótleiki? Í hverju felst fegurðin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2567
Arnór Hannibalsson (1934-2012). „Hvað er fegurð og hvað er ljótleiki? Í hverju felst fegurðin?“ Vísindavefurinn. 5. júl. 2002. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2567>.