Í útliti líkist brúnn fituvefur meira kirtilvef en ljósum fituvef og getur það valdið ruglingi. Litur vefjarins getur verið allt frá dökkrauðum yfir í ljósbrúnan og er háður fituinnihaldi hvatbera hans. Í köldu umhverfi minnka fitubirgðirnar og liturinn dökknar. Brúnn fituvefur er mjög æðaríkur, ólíkt þeim ljósa, enda hefur hann mun meiri þörf fyrir súrefni. Einnig inniheldur hann ómýldar taugar sem flytja driftaugaboð til brúnu fitufrumnanna. Brúnar fitufrumur mynda óvenjumikið af prótíni sem hefur áhrif á orkuefnaskiptin í hvatberum þeirra. Þetta prótín (e. mitochondrial uncoupling protein eða thermogenin) gerir hvatberunum kleift að nýta orkurík hvarfefni til varmamyndunar í stað myndunar ATP (orkuefni líkamans). Kuldi hefur þau áhrif að driftaugakerfið sendir örvandi boð til fitufrumna, en noradrenalín frá driftaugaendum binst viðtökum í fitufrumunum sem í kjölfarið sundra fitusameindum (þríglýseríðum). Munurinn á fituvefjunum tveimur liggur þó í því að brúnu fitufrumurnar sundra fitusýrum um leið og þær myndast og við það verður mikil varmalosun, þökk sé prótíninu sem nefnt var hér að framan. Í ljósum fituvef er fitusýrum hins vegar ekki sundrað heldur eru þær fluttar með blóðrásinni frá fituvefnum til annarra vefja, til dæmis lifrar. Fitufrumur myndast á síðustu þremur mánuðum fósturskeiðs og síðan aftur við upphaf kynþroskaskeiðs. Á seinna tímabilinu kemur fram mismunandi dreifing fitunnar eftir kynjum. Þegar konur fitna veldur fitudreifingin því að þær verða perulagaðar en eplalögun einkennir hins vegar karla. Eftir kynþroskaskeiðið fjölgar fitufrumum ekki, heldur stækka aðeins þær sem fyrir eru þegar við fitnum. Nánar má lesa um fitu og fitufrumur í svari sama höfundar við spurningunni Myndast nýjar fitufrumur þegar við fitnum?
Við fæðingu er ekki mikil ljós fita í líkamanum til að einangra hann fyrir kulda og geyma varma. Reyndar eru fitufrumur til staðar en lítil fita er í þeim. Meginaðferð nýbura til að mynda varma er að sundra fitusameindum brúnu fitufrumnanna eins og áður var lýst. í Þetta er sama aðferð og dýr í vetrardvala nota. Þegar nýburar fara að borða safnast ljós fita fljótlega fyrir og brúna fitan hverfur smám saman. Yfirleitt finnst engin brún fita í fullorðnum einstaklingum. Þar sem svo lítil fita er í fitufrumum við fæðingu og því lítið fitulag undir húðinni, skortir nýbura mjög hitaeinangrun. Nýburar, og þá sérstaklega fyrirburar, eru sérlega viðkvæmir fyrir kulda og er ofkæling ein megindánarorsök nýbura. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu, svo sem að hlutfall yfirborðsflatarmáls og rúmmáls er hærra í þeim en öðrum og því er hlutfallslega meira yfirborð sem varmatap getur orðið um. Höfuð þeirra er jafnframt hlutfallslega stærra, en líkaminn losar mikinn varma um höfuðið og því er mikilvægt að verja það. Vöðvamassi nýbura er einnig lítill og þeir skjálfa yfirleitt ekki. Nýburar geta heldur ekki framkvæmt hluti sem eldri einstaklingar gera nánast ósjálfrátt eins og að færa sig burt frá kuldagjafa eða trekki, klæða sig í hlý föt eða gera líkamsæfingar, þurrka húðina og svo framvegis. Taugakerfi þeirra er einnig óþroskað og bregst því ekki rétt eða nógu hratt við kulda, eins og að draga saman æðar í húð Önnur svör á Vísindavefnum:
- Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu? eftir Magnús Jóhannsson
- Hver eru áhrif hita og kulda á mannslíkamann? eftir Stefán B. Sigurðsson
- Hvernig brennir maður prótíni, kolvetni og fitu? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Er offita arfgeng? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Af hverju breytast vöðvar í fitu eftir að þjálfun er hætt? eftir Þórarin Sveinsson
- MedicineNet.com
- Hypertexts for Biomedical Sciences
- Brown adipose tissue á Wikipedia.org
- HowStuffWorks
- Mynd af ungbarni: Trudi Canavan's Website
- Skýringarmynd af hvítum og brúnum fitufrumum: Encyclopedia of Sports Medicine and Science
- Myndir af fituvef: The Ahima Lab - University of Pennsylvania