[…] eins og Kleanþes taldi að Grikkir ættu að ákæra Aristarkos fyrir guðlast á þeim forsendum að hann væri að hrófla við eldstæði alheimsins, þar eð að maðurinn var að reyna að bjarga sýndinni og gerði ráð fyrir að himinninn stæði í stað en að jörðin snerist í kring á sporbaug og snerist á sama tíma um möndul sinn.“ (Plút., De faciae quae in orbe lunae apparet 6).Af þessum vitnisburði virðist ljóst hver meginatriðin voru í kenningunni. Í stað þess að gera ráð fyrir að sólin og fastastjörnurnar snerust ásamt himinhvolfinu í kringum jörðina gerði Aristarkos ráð fyrir að jörðin snerist á sporbaug um sólina og snerist einnig um möndul sinn. Í öðru lagi gekk hann út frá þessu með það fyrir augunum að gefa betri skýringu á sýnilegri hreyfingu fyrirbæra á himni. Reyndar hafði Herakleides frá Pontos um það bil einni kynslóð áður lagt til að jörðin snerist um möndul sinn en að fastastjörnurnar stæðu í stað. En hann gekk þó ekki út frá sólmiðjukenningu, heldur taldi hann að jörðin væri í miðju alheimsins. Af tilvitnuninni að ofan er einnig greinileg ein ástæða þess að kenningin átti erfitt uppdráttar: tillagan þótti vera ósæmileg ef ekki vera hreint svívirðileg. Tökum eftir að Plútarkos segir Aristarkos hafa ætlað að bjarga sýndinni (τὰ φαινόμενα σῴζειν). Sýnilegir atburðir, svo sem hvernig himnafyrirbæri virðast hreyfast, virðast ekki hafa verið helsta þrætueplið; kenningunni var ekki andmælt vegna þess að henni tækist ekki að skýra sýnilega hreyfingu fyrirbæra á himni, heldur var henni andmælt á öðrum forsendum. Grikkir áttu í fyrsta lagi enga sjónauka, svo að frekari rannsóknir voru erfiðar, en í öðru lagi var markhyggja ríkjandi viðhorf en það er sú kenning að skýringar eigi að höfða til tilgangs. Grikkjum reyndist alltaf erfitt að sjá tilgang þess að jörðin væri ekki í miðju alheimsins, heldur snerist hún í kringum sólina. Straton, kennari Aristarkosar, hafði reyndar að mestu losað sig undan markhyggjunni, sem annars var ætíð sterk jafnt í aristótelískri heimspeki sem víðar. Eigi að síður var það á forsendum markhyggju og eðlisfræði sem kenningunni var andmælt en ekki vegna skýringargildis hennar.

Aristarkos gerði tilraun til að reikna stærð og fjarlægð sólarinnar og tunglsins frá jörðu. Síða úr grísku handriti frá 10. öld af verki hans.
- Toomer, G.J., „Aristarchus“ hjá Simon Hornblower og Antony Spawforth (ritstj.), Oxford Classical Dictionary, 3ja útg. (Oxford: Oxford University Press, 1996).
- Mynd af Aristarkos: Russell Cottrell. Sótt 6. 12. 2011.
- Mynd af teikningu: Astronomy Today. Sótt 6. 12. 2011.