Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hægt að færa rök fyrir tilvist Guðs út frá mögulegum útskýringum á tilvist alheimsins?

Gunnar Harðarson

Tilvist alheimsins hefur verið mönnum nokkurt undrunarefni svo langt sem heimildir ná, og að öllum líkindum lengur, svo að ekki þarf að koma á óvart þótt reynt hafi verið að leita svara við slíkum spurningum í tímans rás. Hefðbundið svar felst í svonefndum „heimsfræðirökum“, sem eru ein af nokkrum sígildum rökfærslum – eða réttara sagt tegundum af rökfærslum – sem notaðar hafa verið í því skyni að sýna fram á að Guð hljóti að vera til. Þær eru stundum kenndar við náttúrulega guðfræði (e. natural theology), því að tilgangurinn er að sanna tilveru Guðs með skynsemisrökum einum saman, það er með náttúrulegri skynsemi, án skírskotunar til neins handan náttúrulegs veruleika. Slíkar rökfærslur má finna hjá ýmsum heimspekingum. Þrjár þær helstu kallast verufræðirök, skipulagsrök og heimsfræðirök.

Verufræðirökin (e. ontological argument) má til dæmis lesa í ólíkum gerðum hjá Anselm af Canterbury (1033-1109) í Proslogion, René Descartes (1596-1650) í Orðræðu um aðferð og Hugleiðingum um frumspeki og Gottfried Leibniz (1640-1716) í Orðræðu um frumspeki og Mónöðufræðin. Sameiginlegt einkenni þeirra er að ganga út frá hugmynd okkar um Guð, guðshugtakinu, og kveða á um að af þeirri ástæðu að við hugsum okkur Guð á tiltekinn hátt sé sýnt að hann hljóti að vera til.

Skipulagsrökin (e. argument from design) ganga út frá skipan heimsins eða náttúrunnar og álykta frá henni til einhvers sem komið hefur þessari skipan á. Slíkar rökfærslur má lesa hjá stóuspekingum, hjá ýmsum miðaldaheimspekingum svo sem í „fimmtu leið“ Tómasar af Aquino (Summa theologiae, Ia, 2:3) og í framsetningu Davids Humes (1711-1776) á þessum rökum í Samræðum um trúarbrögðin, þó að markmið hans hafi reyndar verið að sýna fram á að þau fengju ekki staðist. Svonefnd „vitshönnun“ (e. intelligent design), er í rauninni ekkert annað en afbrigði af skipulagsrökunum.

Heimsfræðirökin (e. cosmological argument) eru þriðja tegundin af hinum klassísku rökfærslum og þau má finna hjá Platoni (427-347 f.Kr), Aristótelesi (384-322 f.Kr.), Tómasi af Aquino og fleiri heimspekingum. Þau ganga út á að tilvist heimsins krefjist skýringar sem ekki sé unnt að finna í honum sjálfum. Tilvera heimsins sé, þegar grannt er skoðað, ósjálfstæð eða ófullkomin – nauðsynjalaus. Því þurfi að gera ráð fyrir tilvist annarrar veru, sjálfstæðrar eða fullkominnar eða nauðsynlegrar. Slík vera eigi tilveru sína undir sjálfri sér – stundum orðað þannig að eðli hennar feli tilveru hennar í sér – og hún geri það að verkum að heimurinn sé til (til dæmis skapi hann) eða virki eins og hann gerir (til dæmis varðveiti hann).

Menn hafa lengi velt fyrir sér tengslum Guðs og alheimsins.

Ýmis afbrigði af heimsfræðirökunum hafa komið fram í sögu heimspekinnar. Tómas af Aquino notar slíkar röksemdir í fyrstu þremur af svonefndum „fimm leiðum“ sem hann notar til að sýna fram á að Guð hljóti að vera til. Fyrstu tvær byggjast á því að ekki sé hægt að gera ráð fyrir endalausum keðjum orsaka og afleiðinga, það er á vítarunum. Þetta eru í grunninn sömu röksemdir og Aristóteles notaði í Eðlisfræðinni og Frumspekinni. Þriðja leiðin byggist á hugmyndinni um nauðsynjaleysi þeirra hluta sem til eru. Ef allir hlutir í heiminum eru þannig að það sé mögulegt að þeir séu ekki til, þá kynni svo að vera að einhvern tíma hefði enginn hlutur verið til. En ef ekkert hefði verið til hefði ekkert getað orðið til. En nú er eitthvað til og því hlýtur eitthvað að hafa verið til í upphafi sem gerir það að verkum að aðrir hlutir hafa orðið til.

Þess má geta að ýmsir fræðimenn hafa talið að Tómas af Aquino hafi sótt þessa röksemdafærslu til Avicenna (um 980-1037). En heimspekingar og guðfræðingar úr arabísku hefðinni settu fram sérstakt afbrigði af heimsfræðirökunum, svonefnd Kalaam-heimsfræðirök sem eru í grunninn þannig: Allt sem verður til á sér orsök. Heimurinn varð til. Þess vegna á heimurinn sér orsök. Þessi rök eru ólík rökum Aristótelesar því að Aristóteles taldi að heimurinn hefði alltaf verið til (en væri þó þess eðlis að hann væri útskýringar þurfi).

Samkvæmt Fyrstu Mósebók skapaði Guð heiminn. Tómas af Aquino og flestir aðrir heimspekingar leggja því orsök heimsins eða hina nauðsynlegu veru að jöfnu við Guð eins og hann birtist í trúarbrögðunum. En í rauninni er það sérstakt vandamál að ígrunda hvort röksemdafærslurnar leyfi það og þá hvaða rök gætu legið til þess. Er til dæmis sú orsök eða vera sem heimspekingarnir komast að ópersónuleg eða persónuleg? Munurinn gæti til dæmis falist í því hvort svo sé litið á að frumorsökin sé byrjunin á einhvers konar vélrænni orsakakeðju eða hvort í henni felist skynsamleg ætlun á bak við sköpun heimsins.

Heimsfræðirökin fela í sér margvíslegar snúnar heimspekilegar spurningar sem lúta meðal annars að möguleikum og takmörkunum mannlegrar skynsemi, nauðsynjahugtakinu (til dæmis muninum á eðlisnauðsyn og röknauðsyn) og orsakahugtakinu.

Svarið við ofangreindri spurningu er því þetta: Já, það er hægt, en hvort slík rök standast hefur verið og er umdeilt.

Heimildir og mynd

  • Anthony Kenny, The Five Ways. St. Thomas Aquinas‘ Proofs of God‘s Existence, London, 1969.
  • Peterson et al., Philosophy of Religion.
  • Robert E. Maydole, “Aquinas’ Third Way Modalized”. (Skoðað 18.2.2013).
  • Bruce Reichenbach, “Cosmological Argument”, Stanford Encyclopedia of Philosophy. (Skoðað 18.2.2013).
  • Sigurjón Árni Eyjólfsson, Tilvist, trú og tilgangur, Reykjavík, 2008.
  • Richard Swinburne, The Existence of Gog, Clarendon Press, 2004.
  • Um tilvist Guðs. Fimm ritgerðir um trúarheimspeki, ritstj. Arnór Hannibalsson, Reykjavík, 1982.
  • Mynd: NASA - Milky Way Neighbor. (Sótt 18.2.2013).

Höfundur

Gunnar Harðarson

prófessor í heimspeki við HÍ

Útgáfudagur

11.3.2013

Spyrjandi

Valur Arnarson

Tilvísun

Gunnar Harðarson. „Er hægt að færa rök fyrir tilvist Guðs út frá mögulegum útskýringum á tilvist alheimsins?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2013, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60938.

Gunnar Harðarson. (2013, 11. mars). Er hægt að færa rök fyrir tilvist Guðs út frá mögulegum útskýringum á tilvist alheimsins? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60938

Gunnar Harðarson. „Er hægt að færa rök fyrir tilvist Guðs út frá mögulegum útskýringum á tilvist alheimsins?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2013. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60938>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hægt að færa rök fyrir tilvist Guðs út frá mögulegum útskýringum á tilvist alheimsins?
Tilvist alheimsins hefur verið mönnum nokkurt undrunarefni svo langt sem heimildir ná, og að öllum líkindum lengur, svo að ekki þarf að koma á óvart þótt reynt hafi verið að leita svara við slíkum spurningum í tímans rás. Hefðbundið svar felst í svonefndum „heimsfræðirökum“, sem eru ein af nokkrum sígildum rökfærslum – eða réttara sagt tegundum af rökfærslum – sem notaðar hafa verið í því skyni að sýna fram á að Guð hljóti að vera til. Þær eru stundum kenndar við náttúrulega guðfræði (e. natural theology), því að tilgangurinn er að sanna tilveru Guðs með skynsemisrökum einum saman, það er með náttúrulegri skynsemi, án skírskotunar til neins handan náttúrulegs veruleika. Slíkar rökfærslur má finna hjá ýmsum heimspekingum. Þrjár þær helstu kallast verufræðirök, skipulagsrök og heimsfræðirök.

Verufræðirökin (e. ontological argument) má til dæmis lesa í ólíkum gerðum hjá Anselm af Canterbury (1033-1109) í Proslogion, René Descartes (1596-1650) í Orðræðu um aðferð og Hugleiðingum um frumspeki og Gottfried Leibniz (1640-1716) í Orðræðu um frumspeki og Mónöðufræðin. Sameiginlegt einkenni þeirra er að ganga út frá hugmynd okkar um Guð, guðshugtakinu, og kveða á um að af þeirri ástæðu að við hugsum okkur Guð á tiltekinn hátt sé sýnt að hann hljóti að vera til.

Skipulagsrökin (e. argument from design) ganga út frá skipan heimsins eða náttúrunnar og álykta frá henni til einhvers sem komið hefur þessari skipan á. Slíkar rökfærslur má lesa hjá stóuspekingum, hjá ýmsum miðaldaheimspekingum svo sem í „fimmtu leið“ Tómasar af Aquino (Summa theologiae, Ia, 2:3) og í framsetningu Davids Humes (1711-1776) á þessum rökum í Samræðum um trúarbrögðin, þó að markmið hans hafi reyndar verið að sýna fram á að þau fengju ekki staðist. Svonefnd „vitshönnun“ (e. intelligent design), er í rauninni ekkert annað en afbrigði af skipulagsrökunum.

Heimsfræðirökin (e. cosmological argument) eru þriðja tegundin af hinum klassísku rökfærslum og þau má finna hjá Platoni (427-347 f.Kr), Aristótelesi (384-322 f.Kr.), Tómasi af Aquino og fleiri heimspekingum. Þau ganga út á að tilvist heimsins krefjist skýringar sem ekki sé unnt að finna í honum sjálfum. Tilvera heimsins sé, þegar grannt er skoðað, ósjálfstæð eða ófullkomin – nauðsynjalaus. Því þurfi að gera ráð fyrir tilvist annarrar veru, sjálfstæðrar eða fullkominnar eða nauðsynlegrar. Slík vera eigi tilveru sína undir sjálfri sér – stundum orðað þannig að eðli hennar feli tilveru hennar í sér – og hún geri það að verkum að heimurinn sé til (til dæmis skapi hann) eða virki eins og hann gerir (til dæmis varðveiti hann).

Menn hafa lengi velt fyrir sér tengslum Guðs og alheimsins.

Ýmis afbrigði af heimsfræðirökunum hafa komið fram í sögu heimspekinnar. Tómas af Aquino notar slíkar röksemdir í fyrstu þremur af svonefndum „fimm leiðum“ sem hann notar til að sýna fram á að Guð hljóti að vera til. Fyrstu tvær byggjast á því að ekki sé hægt að gera ráð fyrir endalausum keðjum orsaka og afleiðinga, það er á vítarunum. Þetta eru í grunninn sömu röksemdir og Aristóteles notaði í Eðlisfræðinni og Frumspekinni. Þriðja leiðin byggist á hugmyndinni um nauðsynjaleysi þeirra hluta sem til eru. Ef allir hlutir í heiminum eru þannig að það sé mögulegt að þeir séu ekki til, þá kynni svo að vera að einhvern tíma hefði enginn hlutur verið til. En ef ekkert hefði verið til hefði ekkert getað orðið til. En nú er eitthvað til og því hlýtur eitthvað að hafa verið til í upphafi sem gerir það að verkum að aðrir hlutir hafa orðið til.

Þess má geta að ýmsir fræðimenn hafa talið að Tómas af Aquino hafi sótt þessa röksemdafærslu til Avicenna (um 980-1037). En heimspekingar og guðfræðingar úr arabísku hefðinni settu fram sérstakt afbrigði af heimsfræðirökunum, svonefnd Kalaam-heimsfræðirök sem eru í grunninn þannig: Allt sem verður til á sér orsök. Heimurinn varð til. Þess vegna á heimurinn sér orsök. Þessi rök eru ólík rökum Aristótelesar því að Aristóteles taldi að heimurinn hefði alltaf verið til (en væri þó þess eðlis að hann væri útskýringar þurfi).

Samkvæmt Fyrstu Mósebók skapaði Guð heiminn. Tómas af Aquino og flestir aðrir heimspekingar leggja því orsök heimsins eða hina nauðsynlegu veru að jöfnu við Guð eins og hann birtist í trúarbrögðunum. En í rauninni er það sérstakt vandamál að ígrunda hvort röksemdafærslurnar leyfi það og þá hvaða rök gætu legið til þess. Er til dæmis sú orsök eða vera sem heimspekingarnir komast að ópersónuleg eða persónuleg? Munurinn gæti til dæmis falist í því hvort svo sé litið á að frumorsökin sé byrjunin á einhvers konar vélrænni orsakakeðju eða hvort í henni felist skynsamleg ætlun á bak við sköpun heimsins.

Heimsfræðirökin fela í sér margvíslegar snúnar heimspekilegar spurningar sem lúta meðal annars að möguleikum og takmörkunum mannlegrar skynsemi, nauðsynjahugtakinu (til dæmis muninum á eðlisnauðsyn og röknauðsyn) og orsakahugtakinu.

Svarið við ofangreindri spurningu er því þetta: Já, það er hægt, en hvort slík rök standast hefur verið og er umdeilt.

Heimildir og mynd

  • Anthony Kenny, The Five Ways. St. Thomas Aquinas‘ Proofs of God‘s Existence, London, 1969.
  • Peterson et al., Philosophy of Religion.
  • Robert E. Maydole, “Aquinas’ Third Way Modalized”. (Skoðað 18.2.2013).
  • Bruce Reichenbach, “Cosmological Argument”, Stanford Encyclopedia of Philosophy. (Skoðað 18.2.2013).
  • Sigurjón Árni Eyjólfsson, Tilvist, trú og tilgangur, Reykjavík, 2008.
  • Richard Swinburne, The Existence of Gog, Clarendon Press, 2004.
  • Um tilvist Guðs. Fimm ritgerðir um trúarheimspeki, ritstj. Arnór Hannibalsson, Reykjavík, 1982.
  • Mynd: NASA - Milky Way Neighbor. (Sótt 18.2.2013).
...