Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það er eðlilegt að karlar framleiði estrógen í einhverju mæli, bæði örlítið í nýrnahettum en einnig í eistum. Talið er að estrógen sé nauðsynlegt fyrir frjósemi karla og rannsóknir sýna að það hefur áhrif á vatns- og jónajafnvægi í þekjuvef innri æxlunarfæra og þroskun sáðfrumna. Það er aftur á móti ekki eðlilegt að karlar framleiði meira af estrógeni en testósteróni, sem er helsta karlkynhormónið.
Þar sem estrógen er kvenhormón er ekki óeðlilegt að kveneinkenni komi fram hjá þeim körlum þar sem ójafnvægi er á kynhormónaframleiðslunni. Jákvæð áhrif estrógens í körlum eru minni hætta á gelgjubólum, hjartaáfalli og skallamyndun. Einnig virðist estrógen í eðlilegu magni bæta skammtímaminni og frjósemi. Neikvæð áhrif of mikils estrógens í körlum er minni kynhvöt og minni skeggvöxtur, aukin hætta á blóðtappa og þá heilaáfalli, brjóstamyndun, stækkun blöðruhálskirtils, vandamál við þvaglát, risvandamál, sykursýki, ofnæmi, þunglyndi, þreyta, erfiðleikar við að einbeita sér, ófrjósemi og beinþynning.
Estrógen í eðlilegu magni í körlum virðist bæta skammtímaminni og frjósemi. Neikvæð áhrif of mikils estrógens í körlum er meðal annars minni kynhvöt og minni skeggvöxtur, brjóstamyndun, aukin hætta á blóðtappa, sykursýki, ofnæmi þunglyndi og þreyta.
Þegar karlmenn eldast eykst framleiðsla estrógens en framleiðsla testósteróns minnkar. Testósterónframleiðsla fer að minnka við 35 ára aldur og heldur sú þróun áfram eftir það. Töluverður samdráttur er orðinn á framleiðslunni strax við 40-50 ára aldur og við 80 ára aldur er testósterónmagnið orðið svipað og í drengjum fyrir kynþroska.
Líkamlegar breytingar, svo sem öldrun, eru þó ekki einu ástæðurnar fyrir breyttu hormónajafnvægi. Í umhverfinu er fullt af svokölluðum xenóestrógenum, en svo nefnast tilbúin efni sem eru upprunnin úr olíu og hafa mikla estrógenlíka verkun. Þau finnast í andrúmsloftinu, eldsneyti, skordýraeitri, sveppaeitri, plastefnum, fötum og snyrtivörum. Enn fremur finnast hormón í fæðu sums staðar, því eldisdýrum eru gefin hormón til að auka kjöt-, mjólkur- og eggjaframleiðslu dýranna. Þetta er þó ekki leyft hér á landi.
Í sojabaunum, graskerum, sætum kartöflum, fennel og fleiri plöntuafurðum eru svokölluð plöntuestrógen (e. phytoestrogen). Svokölluð paraben-efni í sápum og sjampóum eru einnig plöntuestrógen. Karlmenn sem hafa of mikið estrógen ættu að sneiða hjá þessum vörum eftir því sem kostur er.
Getnaðarvarnarpillur brotna ekki niður í náttúrunni og því geta kvenhormón úr þeim komist í neysluvatn og jarðveg og fundist þar í nokkra áratugi. Þau geta því haft áhrif á komandi kynslóðir.
Heimildir:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða áhrif hefur of mikið estrógen á karlmenn?“ Vísindavefurinn, 2. febrúar 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60828.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 2. febrúar). Hvaða áhrif hefur of mikið estrógen á karlmenn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60828
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvaða áhrif hefur of mikið estrógen á karlmenn?“ Vísindavefurinn. 2. feb. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60828>.