Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var G. Stanley Hall og hvert var hans framlag til sálfræðinnar?

Aldís Guðmundsdóttir

Granville Stanley Hall var fjölvirkur fræðimaður sem hafði gott orð á sér sem háskólakennari. Hall var Bandaríkjamaður og gegndi lykilhlutverki í að móta sálfræðina sem fræðigrein á upphafsárum hennar þar vestra. Hann var frumkvöðull í ýmsu tilliti, varð til dæmis fyrstur til að hljóta doktorsnafnbót í sálfræði í Bandaríkjunum, stofnaði fyrsta bandaríska sálfræðitímaritið, var fyrsti forseti bandaríska sálfræðingafélagsins og fyrsti rektor Clark-háskólans, svo það helsta sé nefnt. Hann stofnaði einnig eina af fyrstu tilraunastofunum í sálfræði vestanhafs við Johns Hopkins-háskólann. Loks má nefna að hann dvaldi hjá frumkvöðli tilraunasálfræðinnar, Wilhelm Wundt, í Leipzig, átti drýgstan þátt í að fá Sigmund Freud til Bandaríkjanna árið 1909 – sú ferð var lengi í minnum höfð – en nú er hann líklega þekktastur sem faðir þroskasálfræðinnar.

G. Stanley Hall fæddist árið 1844 á sveitabæ í Massachusetts og var elstur níu systkina. Hann mun ekki hafa hneigst til búskapar en foreldrar hans virðast hafa sýnt því skilning því þau studdu hann til frekara náms. Árið 1867 lauk hann BA-gráðu í guðfræði og mun hafa ætlað að gerast klerkur eða kirkjunnar maður. Hann hélt því áfram námi í guðfræði en svo virðist sem það hafi ekki fullnægt fróðleiksþorsta hans því árið 1869 hélt hann til Berlínar til að leggja stund á heimspeki. Þar varð hann meðal annars fyrir sterkum áhrifum af heimspeki Hegels og íhugaði að gerast heimspekingur. Úr því varð þó ekki og hann sneri aftur til Bandaríkjanna og hélt sínu fyrra striki, en þó með hliðarsporum því nú fór hann að leggja eyrun við því sem Charles Darwin og Herbert Spencer höfðu boðað. En eins og kunnugt er hefur þróunarkenningin ekki átt upp á pallborðið hjá öllum kirkjunnar mönnum vestanhafs.

Smám saman virðist hann hafa orðið fráhverfur guðfræðinni og leitað á önnur mið. Það mun hafa haft mikil áhrif á hann þegar hann las fyrsta bindið af lífeðlislegu sálfræðinni eftir Wundt (Grundzüge der physiologischen Psychologie) og sagan segir að þá hafi hann ákveðið að snúa sér að sálfræðinni. Hall lauk síðan fyrstur manna doktorsprófi í sálfræði undir handleiðslu Williams James frá Harvard-háskóla árið 1878. Að námi loknu dvaldi hann meðal annars um tíma í tilraunastofu Wundts í Leipzig, fyrstur margra bandarískra stúdenta sem þangað sóttu.

Halls er ekki minnst í dag vegna kenninga sinna um sálarlífið heldur fyrst og fremst fyrir dugnað og framtakssemi sem má segja að hafi skapað jarðveg fyrir hugmyndir, rannsóknir og kenningar annarra. Það tók reyndar mikinn tíma og orku frá honum að byggja upp hinn nýja Clark-háskóla í Massachusetts en hann var rektor hans frá stofnun 1887 og allt til 1920 eða lungann úr starfsævi sinni. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann kæmi ýmsu öðru í verk. Árið 1887 stofnaði hann til að mynda vísindatímaritið American Journal of Psychology (sem enn kemur út) og árið 1893 annað tímarit Pedagogical Seminary (sem síðar varð Journal of Genetic Psychology) en það var til vitnis um áhuga hans á kennslufræði.

G. Stanley Hall situr í fremri röð fyrir miðju, Sigmund Freud er honum á hægri hönd og Carl G. Jung á vinstri. Standandi frá vinstri eru A. A. Brill, Ernest Jones og Sandor Ferenczi.

Hann var líka einn af stofnendum bandaríska sálfræðingafélagsins (American Psychological Association) og fyrsti forseti þess árið 1892. Auk þess ritaði hann fjölda bóka og meira en 400 greinar og smærri ritsmíðar. Í minningarorðum, sem birtust í The American Journal of Psychology, segir að hann hafi kannski fyrst og fremst verið skapandi rómantíker en ekki lagt eins mikið upp úr nákvæmni eða smáatriðum. Honum var hins vegar lagið að hrífa aðra með sér og í því liggur arfleifð hans meðal annars.

Á vettvangi þroskasálfræðinnar fjallaði Hall til dæmis töluvert um unglingsárin og gaf út fyrsta fræðiritið um það æviskeið árið 1904. Það nefndist Adolescence: Its Psychology and Its Relations to Physiology, Anthropology, Sociology, Sex, Crime, Religion and Education. Með þessu tveggja binda verki má segja að hann hafi fest unglingsárin í sessi sem fræðilegt hugtak. Hann taldi hugtakið hafa hagnýtt gildi bæði í þroskarannsóknum og á sviði kennslufræði. Þarna liggur eitt merkasta framlag hans: að leggja grunninn að þroskasálfræðinni og tengja hana við kennslumál.

Hann notaði orðin storma og streitu til að lýsa þeim átökum sem oft eru talin fylgja unglingsárunum. Hugmyndin um storma og streitu felur í sér að togstreita geti skapast á þessum árum milli unglinga og foreldra vegna skapsveiflna og áhættusækni þeirra fyrrnefndu. Ástand sem oft hefur verið kallað unglingaveiki á íslensku. Því er stundum haldið fram að Hall hafi talið að hér væri um algilda hegðun að ræða sem ætti rætur að rekja til líffræðilegra breytinga gelgjuskeiðsins. Það er ekki alls kostar rétt. Hann áttaði sig á því að margir aðrir þættir, ekki síst menningarlegir, skiptu líka máli. Þannig taldi hann að unglingar sem byggju í borgarsamfélögum væru líklegri til að sýna merki storma og streitu, meðal annars vegna þess að heimili, skólar og aðrar samfélagsstofnanir áttuðu sig ekki á eðli unglingsáranna og tregðuðust við að koma til móts við þarfir æskunnar.

Á grundvelli rannsókna sinna taldi Hall að skipta mætti þroskaferli mannsins niður í fimm skeið: bernsku, unglingsár, manndómsár, efri ár, og loks ævilok. Þessi skipting, með nokkrum tilbrigðum, lifir enn í þroskasálfræðinni. Í rannsóknum sínum um þroskaferilinn notaði Hall spurningalista sem áttu að veita upplýsingar um hegðun og viðhorf barna og unglinga. Þessa lista lét hann leggja fyrir börnin sjálf, foreldra þeirra og kennara. Þetta er einn fyrsti vísirinn að eiginlegum þroskarannsóknum.

Í þroskasálfræðinni er Hall líka þekktur fyrir þá tilgátu að þróunarferill mannsins endurspeglist í þroskaferli barnsins. Barnið lengst til vinstri gengur á fjórum „fótum“, í miðið notar það alla útlimina til að halda um pelann og loks liggur það í eins konar fósturstellingu en allt geta þetta talist leifar af þróunarlegri fortíð mannsins. Þessi „kenning“ er samt ekki í hávegum höfð í sálfræðinni í dag.

Þegar Hall lést árið 1924 má segja að sálfræðin hafi verið komin af frumbernskuskeiði. Hann átti verulegan þátt í því að efla vestanhafs hina nýju grein sem átti eftir að festa sig enn frekar í sessi er leið á 20. öldina.

Heimildir og myndir:
  • Arnett, J. J. (1999). Adolescent storm and stress, reconsidered. American Psychologist, 54, 317–326.
  • Cole, M., Cole, S. R. & Lightfoot, C. (2005). The development of children (5. útg.). New York: Worth Publishers. [Meðal annars þriðja myndin með börnunum.]
  • Diehl, L. A. (2000). Hall, Granville Stanley. Í A. E. Kazdin (ritstj.), Encyclopedia of Psychology (4. bindi, bls. 50–53). Oxford: Oxford University Press.
  • E. C. S. (1924). Granville Stanley Hall 1846-1924. (Æviágrip). The American Journal of Psychology, 35, 313–321.
  • G. Stanley Hall. (2011). Í Encyclopædia Britannica. Skoðað 25. júlí 2011.
  • Goodchild, L. F. (2001). Hall, Granville Stanley (1844–1924). International Encyclopedia of the Social & Behavioral Sciences, 6466–6469.
  • Harris, M. & Butterworth, G. (2002). Developmental psychology. Hove: Psychology Press.
  • Mynd af G. Stanley Hall frá um 1910. en.wikipedia.org - G. Stanley Hall. Sótt 27.7.2011.
  • Hópmynd. New World Encyclopedia - Hall, G. Stanley. Sótt 27.7.2011.

Höfundur

sálfræðikennari

Útgáfudagur

16.8.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Aldís Guðmundsdóttir. „Hver var G. Stanley Hall og hvert var hans framlag til sálfræðinnar?“ Vísindavefurinn, 16. ágúst 2011, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=60354.

Aldís Guðmundsdóttir. (2011, 16. ágúst). Hver var G. Stanley Hall og hvert var hans framlag til sálfræðinnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=60354

Aldís Guðmundsdóttir. „Hver var G. Stanley Hall og hvert var hans framlag til sálfræðinnar?“ Vísindavefurinn. 16. ágú. 2011. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=60354>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var G. Stanley Hall og hvert var hans framlag til sálfræðinnar?
Granville Stanley Hall var fjölvirkur fræðimaður sem hafði gott orð á sér sem háskólakennari. Hall var Bandaríkjamaður og gegndi lykilhlutverki í að móta sálfræðina sem fræðigrein á upphafsárum hennar þar vestra. Hann var frumkvöðull í ýmsu tilliti, varð til dæmis fyrstur til að hljóta doktorsnafnbót í sálfræði í Bandaríkjunum, stofnaði fyrsta bandaríska sálfræðitímaritið, var fyrsti forseti bandaríska sálfræðingafélagsins og fyrsti rektor Clark-háskólans, svo það helsta sé nefnt. Hann stofnaði einnig eina af fyrstu tilraunastofunum í sálfræði vestanhafs við Johns Hopkins-háskólann. Loks má nefna að hann dvaldi hjá frumkvöðli tilraunasálfræðinnar, Wilhelm Wundt, í Leipzig, átti drýgstan þátt í að fá Sigmund Freud til Bandaríkjanna árið 1909 – sú ferð var lengi í minnum höfð – en nú er hann líklega þekktastur sem faðir þroskasálfræðinnar.

G. Stanley Hall fæddist árið 1844 á sveitabæ í Massachusetts og var elstur níu systkina. Hann mun ekki hafa hneigst til búskapar en foreldrar hans virðast hafa sýnt því skilning því þau studdu hann til frekara náms. Árið 1867 lauk hann BA-gráðu í guðfræði og mun hafa ætlað að gerast klerkur eða kirkjunnar maður. Hann hélt því áfram námi í guðfræði en svo virðist sem það hafi ekki fullnægt fróðleiksþorsta hans því árið 1869 hélt hann til Berlínar til að leggja stund á heimspeki. Þar varð hann meðal annars fyrir sterkum áhrifum af heimspeki Hegels og íhugaði að gerast heimspekingur. Úr því varð þó ekki og hann sneri aftur til Bandaríkjanna og hélt sínu fyrra striki, en þó með hliðarsporum því nú fór hann að leggja eyrun við því sem Charles Darwin og Herbert Spencer höfðu boðað. En eins og kunnugt er hefur þróunarkenningin ekki átt upp á pallborðið hjá öllum kirkjunnar mönnum vestanhafs.

Smám saman virðist hann hafa orðið fráhverfur guðfræðinni og leitað á önnur mið. Það mun hafa haft mikil áhrif á hann þegar hann las fyrsta bindið af lífeðlislegu sálfræðinni eftir Wundt (Grundzüge der physiologischen Psychologie) og sagan segir að þá hafi hann ákveðið að snúa sér að sálfræðinni. Hall lauk síðan fyrstur manna doktorsprófi í sálfræði undir handleiðslu Williams James frá Harvard-háskóla árið 1878. Að námi loknu dvaldi hann meðal annars um tíma í tilraunastofu Wundts í Leipzig, fyrstur margra bandarískra stúdenta sem þangað sóttu.

Halls er ekki minnst í dag vegna kenninga sinna um sálarlífið heldur fyrst og fremst fyrir dugnað og framtakssemi sem má segja að hafi skapað jarðveg fyrir hugmyndir, rannsóknir og kenningar annarra. Það tók reyndar mikinn tíma og orku frá honum að byggja upp hinn nýja Clark-háskóla í Massachusetts en hann var rektor hans frá stofnun 1887 og allt til 1920 eða lungann úr starfsævi sinni. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann kæmi ýmsu öðru í verk. Árið 1887 stofnaði hann til að mynda vísindatímaritið American Journal of Psychology (sem enn kemur út) og árið 1893 annað tímarit Pedagogical Seminary (sem síðar varð Journal of Genetic Psychology) en það var til vitnis um áhuga hans á kennslufræði.

G. Stanley Hall situr í fremri röð fyrir miðju, Sigmund Freud er honum á hægri hönd og Carl G. Jung á vinstri. Standandi frá vinstri eru A. A. Brill, Ernest Jones og Sandor Ferenczi.

Hann var líka einn af stofnendum bandaríska sálfræðingafélagsins (American Psychological Association) og fyrsti forseti þess árið 1892. Auk þess ritaði hann fjölda bóka og meira en 400 greinar og smærri ritsmíðar. Í minningarorðum, sem birtust í The American Journal of Psychology, segir að hann hafi kannski fyrst og fremst verið skapandi rómantíker en ekki lagt eins mikið upp úr nákvæmni eða smáatriðum. Honum var hins vegar lagið að hrífa aðra með sér og í því liggur arfleifð hans meðal annars.

Á vettvangi þroskasálfræðinnar fjallaði Hall til dæmis töluvert um unglingsárin og gaf út fyrsta fræðiritið um það æviskeið árið 1904. Það nefndist Adolescence: Its Psychology and Its Relations to Physiology, Anthropology, Sociology, Sex, Crime, Religion and Education. Með þessu tveggja binda verki má segja að hann hafi fest unglingsárin í sessi sem fræðilegt hugtak. Hann taldi hugtakið hafa hagnýtt gildi bæði í þroskarannsóknum og á sviði kennslufræði. Þarna liggur eitt merkasta framlag hans: að leggja grunninn að þroskasálfræðinni og tengja hana við kennslumál.

Hann notaði orðin storma og streitu til að lýsa þeim átökum sem oft eru talin fylgja unglingsárunum. Hugmyndin um storma og streitu felur í sér að togstreita geti skapast á þessum árum milli unglinga og foreldra vegna skapsveiflna og áhættusækni þeirra fyrrnefndu. Ástand sem oft hefur verið kallað unglingaveiki á íslensku. Því er stundum haldið fram að Hall hafi talið að hér væri um algilda hegðun að ræða sem ætti rætur að rekja til líffræðilegra breytinga gelgjuskeiðsins. Það er ekki alls kostar rétt. Hann áttaði sig á því að margir aðrir þættir, ekki síst menningarlegir, skiptu líka máli. Þannig taldi hann að unglingar sem byggju í borgarsamfélögum væru líklegri til að sýna merki storma og streitu, meðal annars vegna þess að heimili, skólar og aðrar samfélagsstofnanir áttuðu sig ekki á eðli unglingsáranna og tregðuðust við að koma til móts við þarfir æskunnar.

Á grundvelli rannsókna sinna taldi Hall að skipta mætti þroskaferli mannsins niður í fimm skeið: bernsku, unglingsár, manndómsár, efri ár, og loks ævilok. Þessi skipting, með nokkrum tilbrigðum, lifir enn í þroskasálfræðinni. Í rannsóknum sínum um þroskaferilinn notaði Hall spurningalista sem áttu að veita upplýsingar um hegðun og viðhorf barna og unglinga. Þessa lista lét hann leggja fyrir börnin sjálf, foreldra þeirra og kennara. Þetta er einn fyrsti vísirinn að eiginlegum þroskarannsóknum.

Í þroskasálfræðinni er Hall líka þekktur fyrir þá tilgátu að þróunarferill mannsins endurspeglist í þroskaferli barnsins. Barnið lengst til vinstri gengur á fjórum „fótum“, í miðið notar það alla útlimina til að halda um pelann og loks liggur það í eins konar fósturstellingu en allt geta þetta talist leifar af þróunarlegri fortíð mannsins. Þessi „kenning“ er samt ekki í hávegum höfð í sálfræðinni í dag.

Þegar Hall lést árið 1924 má segja að sálfræðin hafi verið komin af frumbernskuskeiði. Hann átti verulegan þátt í því að efla vestanhafs hina nýju grein sem átti eftir að festa sig enn frekar í sessi er leið á 20. öldina.

Heimildir og myndir:
  • Arnett, J. J. (1999). Adolescent storm and stress, reconsidered. American Psychologist, 54, 317–326.
  • Cole, M., Cole, S. R. & Lightfoot, C. (2005). The development of children (5. útg.). New York: Worth Publishers. [Meðal annars þriðja myndin með börnunum.]
  • Diehl, L. A. (2000). Hall, Granville Stanley. Í A. E. Kazdin (ritstj.), Encyclopedia of Psychology (4. bindi, bls. 50–53). Oxford: Oxford University Press.
  • E. C. S. (1924). Granville Stanley Hall 1846-1924. (Æviágrip). The American Journal of Psychology, 35, 313–321.
  • G. Stanley Hall. (2011). Í Encyclopædia Britannica. Skoðað 25. júlí 2011.
  • Goodchild, L. F. (2001). Hall, Granville Stanley (1844–1924). International Encyclopedia of the Social & Behavioral Sciences, 6466–6469.
  • Harris, M. & Butterworth, G. (2002). Developmental psychology. Hove: Psychology Press.
  • Mynd af G. Stanley Hall frá um 1910. en.wikipedia.org - G. Stanley Hall. Sótt 27.7.2011.
  • Hópmynd. New World Encyclopedia - Hall, G. Stanley. Sótt 27.7.2011.
...