Rafmagnsgítar náði fyrst vinsældum á 4. og 5. áratug 20. aldar þegar stórsveitartónlist (e. big band) varð vinsæl. Til að hljómmikil blásturshljóðfærin yfirgnæfðu ekki gítarinn var nauðsynlegt að magna upp í honum hljóminn. Fyrstu rafmagnsgítararnir voru svokallaðir "archtop" gítarar. Þetta voru stálstrengjagítarar sem höfðu einkennandi sveigða lögun á fremri fleti gítarsins og voru tengdir við magnara. Hljómur þeirra þótti eiga einkar vel við blús, jazz, sveitatónlist og ákveðnar tegundir rokks.
Einir allra fyrstu rafmagnsgítararnir voru framleiddir á 4. áratug síðustu aldar af Rickenbacker-fyrirtækinu. Les Paul, frægur gítarleikari og uppfinningamaður, hannaði fyrsta rafmagnsgítarinn með gegnheilan gítarkassa árið 1942. Hann fór í framleiðslu hjá Gibson-gítarfyrirtækinu, en kom ekki á á markað fyrr en árið 1952. Þá hafði annað hljóðfærafyrirtæki þegar komið rafmagnsgítar á markaðinn fjórum árum fyrr. Fyrirtæki Leo Fender kom svo fyrsta rafmagnsgítarnum með gegnheilan gítarkassa á almennan markað árið 1948. Gítarinn hét upphaflega "Fender Broadcaster" en var endurnefndur "Fender Telecaster" árið 1950.
Árið 1954 kom endurbætt útgáfa af Telecaster á markaðinn undir heitinu Stratocaster, sem í daglegu tali er yfirleitt kallaður "Fender Strat". Þessi gítar er enn einn eftirsóttasti rafmagnsgítarinn á markaðnum. Fjölmörg fyrirtæki hafa því brugðið á það ráð að selja eftirlíkingar af Stratocaster sem þeir gefa þá svipuð heiti.
"Les Paul" gítar Gibson-fyrirtækisins varð einnig mjög vinsæll og er enn í dag einn vinsælasti gítar heims ásamt "Fender Strat". Útlit og hönnun þeirra beggja hefur haldist nánast óbreytt í 50 ár og enn endurspegla allir gegnheilir rafmagnsgítarar sem framleiddir eru þessa upprunalegu hönnun. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hve margar tegundir og gerðir eru til af gítar? eftir Ögmund Jónsson
- Hvert var fyrsta hljóðfærið? eftir Helga Sverrisdóttur
- Hvað aðgreinir tónlist frá hávaða? eftir Karólínu Eiríksdóttur
- Hver er líkleg þróun tónlistar? eftir Karólínu Eiríksdóttur