Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Bókin sem gerði Thomas Malthus (1766-1834) frægan heitir Ritgerð um lögmál sem stýra mannfjölda (An Essay on the Principle of Population).1 Hún spratt af spjalli hans við föður sinn Daniel Malthus (1730-1800) um bók Williams Godwins (1756-1836),2 Rannsókn á pólitísku réttlæti (Enquiry Concerning Political Justice) sem kom út árið 1793. Í bók Godwins er lýst sjónarmiðum um jöfnuð manna og trú á að mannkynið geti bætt sig og fullkomnað í krafti skynsemi sinnar. Þar komu líka fram róttæk stjórnleysissjónarmið, til dæmis um að ríkisvaldið spilli valdamönnum og öðrum.3 Malthus ungi var alinn upp við ýmis skyld sjónarmið bæði hjá föður sínum og róttækum kennurum. En hann var um margt ósammála þeim og tók því saman minnisblað handa föður sínum með andmælum gegn stjórnleysisstefnunni og fullkomnunartrúnni.4 Faðirinn hreifst af minnisblaðinu og hvatti son sinn til að gefa það út. Minnisblaðið óx og varð að bók sem kom fyrst út árið 1798.
Bókin er einkum þekkt fyrir líkan sem lýsir fólksfjölgun. Malthus taldi sig alls ekki vera fyrsta manninn til að benda á ýmis augljós sannindi sem þar er fjallað um, enda hafði til dæmis David Hume (1711-1776), kunningi föður hans, löngu bent á ýmis þeirra og sömuleiðis Adam Smith (1723-1790). Í ritgerð Davids Hume um mannfjölda fornra þjóða (1752) segir til dæmis: „... Næstum sérhver maður, sem telur að hann geti framfleytt fjölskyldu, mun koma sér upp fjölskyldu. Og mannkynið myndi meira en tvöfaldast með hverri kynslóð, ef allir færu í sambúð um leið og kynþroska væri náð....“5 Einnig má finna mjög fróðlega umræðu um þetta efni hjá Adam Smith en Malthus vitnaði í báða þessa höfunda og þekkti þá vel.6 En hann taldi sig sjá fólksfjölgunarvandann frá fersku sjónarhorni.
Hann byggði mál sitt á þremur staðhæfingum. Í fyrsta lagi eru matvæli nauðsynleg til að menn geti komist af. Í öðru lagi er kynhvötin staðreynd og kynhvötin mun hvorki minnka né aukast að gagni frá því sem nú er. Sé fallist á þetta tvennt, vill Malthus bæta því við að mannfjölgunaraflið sé „ótakmarkað (e. indefinitely) miklu meira“ en „afl jarðarinnar til að framleiða lífsviðurværi fyrir menn“.7 Mannfjöldinn vaxi eins og jafnhlutfallaröð (e. geometric ratio) en lífsviðurværi geti vaxið eins og jafnmunaröð (e. arithmetic ratio).8
Malthus bar þessa ólíku vaxtarmöguleika saman. Jafnhlutfallaröðin 1, 2, 4, 8, 16, 32, 64, 128, 256, 512 og svo framvegis lýsti vaxtarmöguleikum mannfjöldans að mati Malthusar, miðað við að ekkert hamlaði mannfjölguninni. En góða hugmynd um möguleika á að auka matvælaframleiðslu mátti fá með jafnmunaröðinni 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10 og svo framvegis.9
Það blasir við að þessar talnarunur eru þess eðlis að það skilja fljótt leiðir með þeim. Þær virðast því sýna að hver svo sem upphafsstaðan er, komi fljótt að því að fólki hefur fjölgað svo mjög, að það verði ekki unnt að framleiða lífsviðurværi fyrir alla. Það sem kemur í veg fyrir að mannfjöldinn vaxi er að mati Malthusar ýmiss konar hömlur, sem hann skipti í fyrirbyggjandi hömlur og afdráttarlausar (pósitívar) hömlur. Flokkun hans á hömlum tók nokkrum breytingum í tímans rás.
Fyrirhyggjan eða forsjálnin verkar þannig að fólk tekur mið af fyrirsjáanlegum erfiðleikum og kostnaði við að ala upp börn og eignast færri börn en ella af þeim sökum. Það er dæmi um fyrirbyggjandi hömlur á fólksfjölgun.10 Aðrar fyrirbyggjandi hömlur voru getnaðarvarnir, fóstureyðingar, jafnvel vændi. Þessar síðarnefndu fyrirbyggjandi hömlur flokkaði Malthus sem „lesti“ en hafa ber í huga að Malthus var ekki aðeins hagfræðingur heldur einnig prestur.
Malthus kallaði þær hömlur, sem drógu úr fólksfjölgun með því að verka á lifandi fólk afdráttarlausar (pósitívar) hömlur. Þessar hömlur verkuðu ekki síst á lægstu og fátækustu stéttir samfélagsins. Dæmi um þær er barnadauði og allt það sem að honum stuðlar.11 Önnur dæmi um afdráttarlausar hömlur eru plágur, stríð og hungursneyð. Hömlur af þessu tagi kallaði Malthus „eymd“.
Malthus taldi að íbúarnir á Bretlandi, væru um 7 milljónir talsins þegar hann skrifaði bók sína. Hann tók mið af tölum um mannfjölgun í Bandaríkjunum þar sem mannfjöldinn var talinn tvöfaldast á 25 ára fresti. Þetta taldi Malthus að vísu ef til vill vera minni mannfjölgun en hugsanleg væri, en þó raunhæfa tölu. Þá mátti hugsa sér að mannfjöldinn hefði orðið um 14 milljónir 25 árum eftir að fyrsta útgáfa bókarinnar kom út og það mátti ímynda sér, að það tækist að rækta nógu mikið land til þess að allt þetta fólk fengi nóg að borða. En það var að mati Malthusar hæpið að hugsa sér að matvælaframleiðslan gæti fjórfaldast á næstu 50 árum eða áttfaldast á næstu 75 árum.
Þegar þessi kenning er vegin og metin, þarf að hafa í huga að því var auðvitað alls ekki haldið fram að mannfjölgun færi fram með þessum hraða. Hömlurnar koma í veg fyrir það. Og ein þeirra er einmitt sú, að fólk stillir sig stundum um barneignir þegar við blasir að erfitt geti verið að koma börnunum til manns.
Ekki er unnt að neita því að ritgerð Malthusar dregur upp heldur dapurlega mynd af aðstæðum manna og í ljósi hennar þarf ekki að undrast að hagfræðin sé stundum kölluð „hin dapurlegu vísindi“ (e. „the dismal science“). Greining hans varð að mikilvægum þætti í klassískri hagfræði. Sú hugmynd að það sé tilhneiging til þess í samfélaginu að laun séu aðeins nægilega há til þess að viðhalda hæfilegum fjölda launamanna á hverjum tíma, það er nauðþurftarlaun, sprettur eðlilega af henni. Og önnur hugmynd á sér þar einnig greinilegar forsendur, en það er greining Malthusar og Ricardos á rentu.
Ritgerð Malthusar hafði mikil áhrif langt út fyrir raðir hagfræðinga. Fyrsta útgáfa hennar, sem oftast er lesin, er mjög læsileg og vel stíluð. En boðskapurinn var ef til vill ekki mjög vinsæll. Meðal þeirra sem lásu þessa bók var Charles Darwin (1809-1882) sem byrjaði að lesa hana í októbermánuði árið 1838. Við lestur bókarinnar fékk hann hugmyndina um náttúruval eins og hann segir frá í sjálfsævisögu sinni og dagbókum:
Í októbermánuði 1838, það er að segja, fimmtán mánuðum eftir að ég hóf hina kerfisbundnu rannsókn mína, vildi svo til að ég las Malthus um mannfjölda mér til skemmtunar. Og vegna þess að ég var vel undir það búinn að hugsa um lífsbaráttuna sem alls staðar á sér stað, eftir hinar langvarandi athuganir mínar á siðum dýra og jurta, þá sló það mig skyndilega að við þessar aðstæður myndu heppileg afbrigði hafa tilhneigingu til að varðveitast og óheppileg afbrigði hafa tilhneigingu til að tortímast. Útkoman úr þessu yrði að nýjar tegundir yrðu til ...12
Alfred Russell Wallace (1823-1913), sem mótaði sams konar kenningu og Darwin og birti á sama tíma og hann, fékk hugmynd sína líka frá Malthusi, eins og hann sagði frá í ævisögu sinni, Ævi mín (My Life, 1905).13
Þá hefur ritgerð Malthusar haft margvísleg önnur áhrif jafnt á höfunda sem hafa verið andsnúnir boðskapnum sem þeim sem hafa talið Malthus hafa lög að mæla. Hins vegar virðist Malthus hafa verið vanræktur sem hagfræðingur, enda féll hann snemma í skuggann af vini sínum Ricardo.14 Að minnsta kosti var einn áhrifamesti hagfræðingur tuttugustu aldar, John Maynard Keynes (1883-1946), þessarar skoðunar. Hann segir svo, í lauslegri þýðingu, í ritgerð sinni um Malthus:
Hversu miklu vitrari og betri staður veröldin væri, ef aðeins Malthus hefði verið stofninn sem nítjándu aldar hagfræðin spratt upp af, en ekki Ricardo!15
1 Í þessu svari er talsvert byggt á ritgerðum í John Eatwell, Murray Milgate og Peter Newman (ritstjórar): The New Palgrave, A Dictionary of Economics. Macmillan Press Limited, London, 1998. Einna mest hefur verið litið til ritgerðarinnar „Malthus, Thomas Robert“, eftir J. M. Pullen. Þá er stuðst við æviágrip um Malthus eftir J. M. Keynes, „Robert Malthus“ sem birtist í ritgerðasafni hans, Essays in Biography, Mercury Books, London 1961, bls. 81-124. Sú útgáfa af ritgerðinni sem einkum er stuðst við er: Thomas Robert Malthus. An Essay on the Principle of Population. Norton Critical Editions. Ritstj. Philip Appelman. W.W. Norton & Company Inc. New York. 1976. Einnig hefur verið litið til inngangs Anthony Flew að Ritgerðinni í: Thomas Robert Malthus. An Essay on the Principle of Population. Penguin Books, Harmondsworth, Middlesex, England 1970. Þá má vísa til umfjöllunar um Malthus og klassísku hagfræðingana í Mark Blaug: Economic Theory in Retrospect, 5. útg., Cambridge University Press, Cambridge, 1999. Auk þess má nefna bækurnar I. H. Rima: Development of Economic Analysis, 5. útgáfa, Richard D. Irwin Inc., USA, 1991, og Charles E. Staley: A History of Economic Thought: From Aristotle to Arrow, Blackwell Publishers, Oxford, 1989. 2 Þess má geta að William Godwin giftist Mary Wollstonecraft, sem er þekkt í sögu kvenréttindabaráttunnar. Þau áttu saman dótturina Mary Shelley, höfund skáldsögunnar um Frankenstein. 3 „William Godwin“. The Oxford Companion to Philosophy. Ritstj. Ted Honderich. OUP 1995, bls. 321. 4 Sjá Thomas Robert Malthus. An Essay on the Principle of Population. Norton Critical Editions. Ritstj. Philip Appelman. W.W. Norton & Company Inc. New York. 1976. Bls. 18. 5 David Hume. Of the Populousness of Antient Nations (1752). Lausleg þýðing svarshöfundar. Tilvitnun fengin úr broti ritgerðarinnar sem birt er á bls. 3 í Thomas Robert Malthus. An Essay on the Principle of Population. Norton Critical Editions. Ritstj. Philip Appelman. W.W. Norton & Company Inc. New York. 1976. Bls. 3. 6 Sjá einkum í Adam Smith, Auðlegð þjóðanna. Þýð. Þorbergur Þórsson. Bókafélagið, Reykjavík 1997. Sjá einkum 1. bók, 8. kafla, um vinnulaun, bls. 63-65 eða efnisgreinar 36-40. 7 Sjá An Essay on the Principle of Population, 1976, bls. 19-20. 8 Sjá An Essay on the Principle of Population, 1976, bls. 20. 9 An Essay on the Principle of Population, Norton Critical Edition, ritstj. Philiip Appelman. W.W. Norton & Company, New York, 1976, bls. 23. (Þetta er vönduð útgáfa af bókinni eins og hún kom út í fyrstu útgáfu 1798.) Mannfjölgun gat þannig átt sér stað í „geómetrísku hlutfalli“ eða líkt og jafnhlutfallaröð, en vöxtur lífsviðurværis gat aðeins átt sér stað líkt og í jafnmunaröð eða „arithmetical ratio“. 10 Sjá An Essay on the Principle of Population, 1976, bls. 34-35. 11 Sjá An Essay on the Principle of Population, 1976, bls. 36. 12 Sjá inngang Anthony Flew að útgáfu hans að fyrstu útgáfu ritgerðar Malthusar. Thomas Robert Malthus. An Essay on the Principle of Population. Penguin Books, Harmondsworth, Middlesex, England 1970. Inngangur, bls. 49-50. Tilvitnunin fengin frá Charles Darwin, Autobiography, ritstj. N. Barlow, Collins, 1958, bls. 120. 13 Sjá inngang Anthony Flew að útgáfu hans að fyrstu útgáfu ritgerðar Malthusar, bls. 50-51. Hann vísar til A.R. Wallace, My Life, Chapman and Hall, 1905, vol. 1. bls. 232. 14 Það er til eitt eintak af bók Malthusar um hagfræði, Lögmálum stjórnmálahagfræðinnar (Principles of Political Economy considered with a view to their practical application), í þeim íslensku bókasöfnum sem skrá bækur sínar í Gegni. En það eru 6 færslur yfir rit Davids Ricardos, og ein þeirra nær yfir 10 binda fræðilega útgáfu af höfundarverki hans. Slík útgáfa hefur ekki komið á verkum Malthusar. 15 J. M. Keynes. „Robert Malthus“ , Essays in Biography, Mercury Books, London 1961, bls. 120. Lausleg þýðing svarshöfundar.
Þorbergur Þórsson. „Hvaða áhrif hafði Thomas Malthus á hagfræðina?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2011, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=59473.
Þorbergur Þórsson. (2011, 20. apríl). Hvaða áhrif hafði Thomas Malthus á hagfræðina? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=59473
Þorbergur Þórsson. „Hvaða áhrif hafði Thomas Malthus á hagfræðina?“ Vísindavefurinn. 20. apr. 2011. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=59473>.