Vændi hefur lengi verið talið ósiðlegt. Litið hefur verið niður á vændiskonuna sem hefur verið kölluð miður fallegum nöfnum svo sem „skækja“ og „hóra“. Reynt hefur verið að koma lögum yfir vændi með ýmsum hætti en flestar aðferðirnar eiga það sameiginlegt að þar er vændiskonan talin vera rót vandans en lítið er fjallað um kaupandann. Hugmyndafræði þess háttar laga byggir á því viðhorfi að ekki er talið við hæfi að konur séu gerendur í kynferðismálum. Hegðun kaupandans, sem yfirleitt er karlmaður, er talin eðlileg en hegðun vændiskonunnar óeðlileg. Nú á dögum eru margir farnar að líta á vændi í stærra samhengi og benda á þá staðreynd að án kaupenda væri vændi ekki til. Einnig hefur umræðan opnast fyrir því að vændi fyrirfinnst í fleiri myndum en kaupum karlmanns á líkama konunnar. Það er þó algengasta form vændis og hér verður fjallað um það frá félagslegu og kynjafræðilegu sjónarhorni. Skýringar á því af hverju karlmenn kaupa vændi eru oft fábrotnar. Algengt er að heyra svar í þeim dúr að vændi sé nú einu sinni elsta atvinnugreinin og að karlar séu eins og karlar eru. Þetta skýrir hins vegar afar lítið. Af auglýsingum vændiskvenna, spjallrásum á netinu og viðtölum við kaupendur vændis má sjá að að ímynd vændiskvenna er á þann veg að þær séu alltaf „til í tuskið“ og séu fallegar, að minnsta kosti frá sjónarmiði viðskiptavinarins hverju sinni, hafi til dæmis stór brjóst ef því er að skipta og línurnar í fínu lagi. Lýsingar á „góðri“ vændiskonu snúast oft um útlit en „slæm“ vændiskona er talin vera peningagráðug og ágjörn og sinna starfi sínu illa (sjá til dæmis Bishop og Robinson 2002). Þannig eru vændiskonur hlutgerðar, líkamar þeirra ganga kaupum og sölum og mansal er stór þáttur í vændisheiminum eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu. Segja má að einstaklingarnir sem stunda vændi hætti þannig að vera persónur; þeir verða fyrst og fremst kroppar og njóta eingöngu virðingar ef líkamar þeirra falla að fegurðarmati viðskiptavinarins eða smekk að öðru leyti. Í þeim fáu rannsóknum sem gerðar hafa verið á karlmönnum sem kaupa vændi hefur komið í ljós að neytendahópurinn er afar breiður og í honum eru karlmenn úr öllum stéttum samfélagsins. Algeng goðsögn er að þeir sem kaupi vændi séu aðeins þeir „ljótu“ en í sænskri rannsókn sést að reynsla karla af keyptu kynlífi er hlutfallslega mest hjá þeim sem hafa mikla kynferðislega reynslu og hafa átt marga kynlífsfélaga (Månsson 1998: 240). Ástæður karla fyrir heimsóknum til vændiskvenna eru margar. Sumir segjast ekki fá nóg kynlíf, aðrir segja að þeir fái ekki „allt“ sem þeir vilja í kynlífi sínu en í báðum tilfellum er það afstætt hvað sé „nóg“ og „allt“. Enn aðrir segjast fara til vændiskvenna af því að þeir fái ekki neitt eða af því að þeir séu í einhvers konar kreppu. Allar þessar skýringar byggjast á því að karlar þurfi á miklu kynlífi að halda, meira en konur almennt. Sú skoðun á sér nokkuð sterkar rætur í menningu okkar. Samkvæmt henni þurfa karlar helst að fá „nóg“ eða að minnsta kosti „eitthvað“. Það tengist síðan þeirri gömlu hugmynd að meira yrði um nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi ef ekkert vændi væri í samfélaginu. Þannig er litið á vændi sem einhvers konar öryggisventil sem gegni mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Þessar hugmyndir hafa skapað vændi bæði með beinum og óbeinum hætti. Í seinni heimsstyrjöldinni sá japanska ríkisstjórnin til þess að vændiskonur væru alltaf nálægt vígvöllunum. Það sama var uppi á teningnum í Víetnamstríðinu, með óbeinum hætti þó (Ringdal 1997). Um leið hafa þessar menningarlegu hugmyndir réttlætt bágborna félagslega stöðu þeirra sem stunda vændið. Í þessu samfélagslega ljósi og út frá menningarlegum hugmyndum okkar ber að skoða vændi. Þá sést að hugmyndir okkar um kynin hafa skapað ójöfnuð, hlutgervingu á persónum og mansal svo eitthvað sé nefnt, en það er siðferðilega rangt. Heimildir:
- Bishop, Ryan & Robinson, Lillian S. 2002. “Traveller´s Tails: Sex Diaries of Tourists Returning from Thailand" í Thorbek, Susanne & Pattanaik, Bandana (ritstj.), Transnational Prostitution: Changing Patterns in a Global Context. London: Zed Books.
- Månsson, Sven-Axel 1998. ”Den köpta sexualiteten” í Lewin, B. (ritstj.), Sex i Sverige. Om sexuallivet i Sverige 1996. Stockholm: Folkehälsoinstitutet 1998:11.
- Ringdal, Niels Johan 1997. Kærlighed til salg: De prostitueredes verdenshistorie. København: Tiderne Skifter.