Hræðsla er sértæk og tengist ákveðnum stað, aðstæðum, einstaklingi eða atferli. Hræðsla er eðlilegt viðbragð við yfirvofandi hættu eða ógnun og þarf ekki að hamla athafnafrelsi. Hræðsla er mjög algeng hjá konum sem körlum. Hún er einnig algeng meðal barna og hverfur [oft] með tímanum.Þegar fólk verður óttaslegið fara ákveðin líffræðileg ferli af stað í líkamanum sem oft eru kölluð "flótta- eða árásarviðbragð" eða "fight or flight response". Líkaminn seytir þá hormónunum adrenalín, noradrenalín og kortisól sem koma líkamanum í viðbragðsstöðu og búa hann undir átök. Þessi hormón hafa áhrif á efnaskipti líkamans með því að losa næringarefni úr vöðvum og hækka þannig blóðsykurinn. Þau örva einnig hjartsláttinn og víkka æðar sem liggja til vöðva, hjarta, lungna og heila. Á sama tíma valda þau samdrætti í æðum til innyfla og húðar til að draga úr blóðflæði til þeirra. Þetta hækkar blóðþrýstinginn og eykur blóðflæði til líkamshluta sem eru mikilvægir fyrir átaksviðbrögðin. Öndun verður jafnframt hraðari, loftvegurinn víkkar og það dregur úr starfsemi ónæmiskerfisins. Noradrenalín hefur einnig áhrif á heilasvæði sem stýra hvatvísi og einbeitingu. Nánar má lesa um adrenalín og áhrif þess í svari Þuríðar Þorbjarnardóttur við spurningunni Hvað er adrenalín og hvernig er það myndað í líkamanum? og um kortisól í svari hennar við spurningunni Getur ofgnótt streituhormónsins kortisól valdið svefnleysi?
Það er því ljóst að hræðsluviðbrögð valda talsverðu álagi á líkamann. Þetta getur verið mjög hættulegt fyrir fólk sem þjáist af háþrýstingi eða hjartasjúkdómum. Verði slíkir einstaklingar mjög hræddir getur álagið á hjarta- og æðakerfið valdið hjartaáfalli eða heilablóðfalli.
Köngulær geta valdið miklu hugarangri og eru margir haldnir köngulóarfælni (Arachnophobia). Fólk sem þjáist af slíkri fælni er dauðhrætt við köngulær og fer líkami þeirra í "flótta- eða árásarviðbragð" þegar það sér eina slíka.
- Silverthorn, D.U. 2004. Human Physiology: An integrated approach. Pearson/Benjamin Cummings, San Francisco.
- Carlson, N.R. 2001. Physiology of Behavior. Allyn and Bacon, Boston.
- Wikipedia Encyclopedia
- triffophoto3.tripod.com