Fylgst var með svefni 11 ungra einstaklinga sem þjáðust af langvarandi svefnleysi og 13 heilbrigðra einstaklinga án svefntruflana í fjórar nætur samfellt. Á fjórða degi voru tekin blóðsýni og magn streituhormónanna kortisóls og SHNB mæld á hálftíma fresti. Eins og við mátti búast voru gæði svefns lítil í hópi þeirra sem þjáðust af svefnleysi í samanburði við hina. Þeir sem þjáðust af svefnleysi voru enn fremur með hærra magn af streituhormónum sólarhringinn þegar mælt var og þeir sem höfðu verstu svefntruflanirnar mældust með mest kortisól. Mest jókst magn streituhormónanna á kvöldin og fyrri hluta nætur, bæði hjá heilbrigðum og þeim sem þjáðust af langvarandi svefnleysi. Þessar niðurstöður gefa til kynna að viðvarandi ofurörvun streituviðbragðakerfisins leiði til langvarandi svefnleysis. Einfaldur svefnmissir virðist þó vera af öðrum toga; í svefnmissi kemur venjulega ekki fram aukning á magni streituhormóna eða truflun á dægursveiflu seytis þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægar fyrir lækna sem meðhöndla fólk með langvarandi svefnleysi. Í stað þess að grípa til lyfja sem auka syfju gætu önnur lyf (svo sem sum geðdeyfðarlyf) eða tækni sem dregur úr örvun streituviðbragðakerfisins reynst farsælli til lækningar á langvarandi svefnleysi. Þetta ætti ekki aðeins að bæta gæði nætursvefns heldur einnig hindra þróun líkamlegra og andlegra truflana, svo sem þunglyndi og kvíða, sem fylgja í kjölfar ofurvirkra streituviðbragða. Heimildir og mynd:
- A. N. Vgontzas, E. O. Bixler, H. Lin, P. Prolo, G. Mastorakos, A. Vela-Bueno, A. Kales og G. P. Chrousos. 2001. Chronic Insomnia Is Associated with Nyctohemeral Activation of the Hypothalamic-Pituitary-Adrenal Axis: Clinical Implications. The Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism. 86. árg. 8. tbl, bls. 3787-3794
- Dr. Joseph Mercola
- About.com - Healt & Fitness
- False Godz