Í lávarðadeildinni kvað ekki mikið að Rayleigh nema í málum sem snertu vísindin. En hann var alla tíð áhrifamikill sem ráðgjafi valdhafa um vísinda og tæknimál, enda nátengdur inn í forystu íhaldsflokksins sem mágur Arthur Balfour lávarðar. Rayleigh kom sér upp rannsóknarstofu á óðali sínu Terling eftir að hann lauk námi og starfaði þar lengst af sínum ferli sem vísindamaður. Tímabundnir erfiðleikar í landbúnaðarrekstri urðu til þess að hann tók við af James Clerk Maxwell (1831-1879) sem svonefndur Cavendish-prófessor í tilraunaeðlisfræði í Cambridge á árunum 1879 til 1884. Þegar rofaði til í landbúnaði og óðalið skilaði meiri tekjum sagði Rayleigh starfi sínu við Cambridge lausu til að losna við stjórnunarstörfin sem fylgdu háskólastarfinu og til að geta einbeitt sér að hugðarefnunum sem voru rannsóknir. Allur háskólanámsferill Williams Strutts Rayleighs og starfsferill eru varðaðir viðurkenningum og heiðursnafnbótum svo það hálfa væri nóg. Efst á þessum lista eru Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 1904. Afköst Rayleighs voru ótrúleg. Ritalisti hans telur 446 greinar og bækur, og samsvarar það um það bil 9 greinum á ári að meðaltali á 50 ára starfsferli. Hann lést 77 ára gamall árið 1919. Viðfangsefnin spanna margar sérgreinar svo sem rafsegulfræði, ljósfræði, hljóðfræði og straumfræði, auk vinnu í hreinni stærðfræði. Hann lagði grunn að eðlisfræði hljóðbylgna með tveggja binda bók sinni Theory of Sound. Fjöldi fyrirbæra bera nafn hans svo sem
- Rayleigh-ljósdreifing
- Upplausnarskilyrði Rayleighs
- Lögmál Rayleighs-Jeans
- Rayleigh-bylgjur
- Rayleigh-flæði
- Rayleigh-gígar finnast bæði á tunglinu og Mars.
Eitt af langtímaverkefnum Rayleighs var að kortleggja eðlismassa algengustu lofttegunda. Þetta verk vann hann að hluta í samvinnu við skoska eðlisfræðinginn Sir William Ramsay. Við skoðun á lofttegundinni nitur (N2) sem er meginuppistaða andrúmsloftsins kom fram misræmi í eðlisþyngd eftir uppruna. Nitur sem unnið var úr andrúmslofti reyndist örlítið þyngra en nitur sem unnið var úr öðrum efnum með efnahvörfum. Ein leið til að skýra þennan mun er að gera ráð fyrir að í andrúmsloftinu væri þung óþekkt gastegund. Þeir einangruðu þessa gastegund 1894 með því að fjarlægja súrefni, vatnsgufu, koltvísýring og nitur. Nýja gastegundin reyndist óvirk í efnahvörfum og fékk nafnið argon eftir gríska orðinu argos, sem merkir óvirkur eða latur. Þetta var fyrsta eðalgastegundin sem fannst og Ramsey bætti nokkrum öðrum við listann á næstu árum. Argon er algengasta eðalgastegundin í okkar umhverfi og myndar um 1% af andrúmsloftinu (rúmmálshlutfall) og er þannig algengara en koltvísýringur. Argon er mest notað í iðnaði sem hlífðargas, til að halda súrefni frá heitum flötum. Fyrir uppgötvun argons fengu báðir Nóbelsverðlaun árið 1904, Rayleigh í eðlisfræði og Ramsay í efnafræði. Myndir:
- Mynd af Rayleigh: John William Strutt, 3rd Baron Rayleigh á Wikipedia.org. Sótt 12. 4. 2011
- Mynd af Rayleigh og Ramsey: Science & Society Picture Library. Sótt 12. 4. 2011