Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Flóðbylgjur geta orðið til vegna jarðskjálfta en einnig vegna eldgosa og skriðufalla eða blöndu af þessu þrennu. Þegar flóðbylgja verður til vegna jarðskjálfta er það sökum lóðréttra hreyfinga á hafsbotninum. Við það kemst hreyfing á sjóinn og flóðbylgja fer af stað. Þegar jarðskjálfti á sér stað verða ekki alltaf sömu hreyfingar á jarðskorpunni. Í jarðskjálftum hér á landi, til dæmis í hinum svokölluðu Suðurlandsskjálftum, á sér stað gliðnun og því hreyfast flekarnir ekki í lóðréttum hreyfingum heldur í láréttum, þeir nuddast saman.
Við samreksbelti, svo sem eyjaboga og virka meginlandsjaðra, eiga lóðréttar hreyfingar sér einkum stað. Þar mætast jarðskorpuflekar, líkt og í skjálftanum við Japansstrendur (11. mars 2011) og flóðbylgjunni sem fylgdi í kjölfarið, og þrýstingur á flekaskilunum byggist smátt og smátt upp. Á einhverjum tímapunkti er þrýstingur orðinn svo mikill að jarðskorpan gefur undan. Þá kemst hreyfing á sjávarbotninn og sjórinn kippist til.
Úti á hafi verður lítið vart við bylgjuna sem fylgir jarðskjálftanum þar sem öldulengdin er mikil og útslagið, það er hve hátt bylgjan nær, lítið. Þegar bylgjan kemur nær landi og að grynnra vatni minnkar hraði bylgjunnar töluvert og öldulengdin minnkar. Orkan sem býr í bylgjunni dreifist þá á minna rúmmál í sjónum og ölduhæðin eða útslagið vex. Það getur svo haft áhrif á stærð flóðbylgjunnar hvernig aðstæður við ströndina eru. Ef fjörðurinn þrengist því nær sem að landi kemur getur flóðbylgjan orðið mun hærri.
Eitt sem ber að varast við flóðbylgjur er sú staðreynd að fyrsta bylgjan er ekki endilega sú stærsta. Oftar en ekki er fyrsta bylgjan þannig að mikið útfiri verður í sjónum, það er að sjórinn virðist hopa til baka. Við þetta hafa margir flykkst niður að sjónum enda óvenjulegur hlutur á ferð. En í þann mund gæti komið stór flóðbylgja sem skolar öllu sem í vegi hennar er í burtu.
Þegar stór flóðbylgja skall á eyjunni Súmötru, annan dag jóla árið 2004, bjargaði ung skólastelpa lífi fjölmargra strandgesta. Hún hafði fylgst vel með í jarðfræðitímum í skólanum heima á Englandi og vissi því að áðurnefnt útfiri gæti þýtt að flóðbylgja væri í þann mund að skella á ströndinni. Hún aðvaraði því strandgestina og náðu flestir að forða sér upp á hæðir í grenndinni.
Textinn hér að ofan er lauslegur útdráttur, auk smá viðbótar, úr svari Páls Einarssonar við spurningunni: Hvernig myndast flóðbylgjur (tsunami)? Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.