Á flekamótum þar sem einn fleki þrýstist undir annan verða svokallaðir þrýstigengisskjálftar. Allra stærstu skjálftar á jörðinni eru gjarnan af þessari gerð og þessir skjálftar eru best fallnir til að mynda flóðbylgjur eða tsunami.Austan við Japan er Kyrrahafsflekinn og í jarðskjálftanum sem varð 11. mars 2011 gekk hann til vesturs undir annan fleka við Japan. Flekaskil við Japan eru nokkuð flókin og samanstanda af nokkrum smáflekum. Japan situr á einum slíkum. Vestan við Japan er svo Evrasíuflekinn sem austurhluti Íslands situr á. Þegar Kyrrahafsflekinn sekkur undir flekann sem er vestan megin verður til fyrirstaða. Við það læsast flekarnir saman á kafla en að lokum losna þeir og við það skelfur jörðin.
Á skilum þar sem flekarnir renna hvor fram hjá öðrum eru algengastir svokallaðir sniðgengisskjálftar og ef brotið nær yfirborði geta vegir, girðingar og annað hliðrast um jafnvel nokkra metra. Það fer meðal annars eftir þykkt jarðskorpunnar á flekaskilunum hversu mikil spenna getur byggst upp og þar með hversu stórir þessir skjálftar geta orðið. Stærstu skjálftarnir á Íslandi eru af þessari gerð, samanber Suðurlandsskjálftarnir. Hér á landi verða skjálftar ekki stærri en um 7,2 á Richterskvarða, en í Kaliforníu geta þeir orðið þó nokkuð stærri.Sniðgengisskjálftar valda mjög sjaldan flóðbylgjum. Í jarðskjálftanum í Japan voru svokallaðar lóðréttar hreyfingar þegar landið fór upp og niður. Við það fór flóðbylgja af stað. Í sniðgengisskjálftum er þessi lóðrétta hreyfing hverfandi og þannig litlar líkur á flóðbylgju af völdum þeirra. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvar varð öflugasti jarðskjálfti sem mælst hefur á jörðinni? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hvað er sjávarskafl eða tsunami? eftir Halldór Björnsson
- Hvernig myndast flóðbylgjur og af hverju? eftir ÍDÞ
- Yahoo News - AFP. Sótt 17.3.2011.
Af hverju kom flóðið í Japan?
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.