Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þegar fólksfjöldi er metinn er litið til náttúrulegrar fjölgunar (e. natural growth) og fólksflutninga á milli ríkja. Náttúruleg fjölgun er munurinn á fjölda fæðinga og fjölda andláta innan ríkja. Íbúaþéttleiki er yfirleitt mældur sem hlutfall milli fjölda einstaklinga og ákveðinnar svæðiseiningar og yfirleitt settur fram sem fjöldi íbúa á ferkílómetra (km2). Vert er að taka fram að þær tölur sem notast er við í þessu svari eru frá árunum 2008 og 2009.
Hægt er að ímynda sér íbúaþéttleika í Evrópu út frá ljósmyndum úr geimnum að næturlagi.
Fjölmennasta ríki Evrópu er Rússland en þar búa tæplega 143 milljónir íbúa. Rússland er stærsta land í heimi en landsvæði þess liggur í tveimur heimsálfum, Evrópu og Asíu. Íbúaþéttleikinn er ekki mikill eða 8,4 íbúar á km2 enda er landið rúmlega 17 milljónir km2 að stærð. Ekki eru til nákvæmar upplýsingar um hvernig fólksfjöldi í Rússlandi skiptist á milli Evrópu- og Asíuhlutans en ganga má frá því sem vísu að ekkert annað Evrópuríki sé í líkingu við Evrópuhluta Rússlands hvað íbúafjölda varðar. Fólksfjöldi í Rússlandi náði rúmum 148 milljónum íbúa árið 1991 en eftir fall Sovétríkjanna fækkaði Rússum um 0,5% að meðaltali á hverju ári. Um síðustu aldamót hafði ástandið í landinu batnað og árið 2009 mældist aftur fólksfjölgun í Rússlandi.
Ef Rússland er talið með, þó það liggi í tveimur heimsálfum, þá er Þýskaland næstfjölmennasta ríki Evrópu með tæplega 82 milljónir íbúa og 229,9 íbúa á km2. Þriðja fjölmennasta ríkið er Frakkland með 65 milljónir íbúa og 99,6 íbúa á km2. Frakkland spannar mest landsvæði af aðildarríkjum Evrópusambandsins (um 643 þúsund km2) eða sem nemur um það bil 14,6% af heildarlandsvæði Evrópusambandsríkjanna. Fjórða fjölmennasta Evrópulandið er Bretland með rúmlega 62 milljónir íbúa. Bretland er jafnframt með sjötta mestan íbúaþéttleika í Evrópu eða 251,7 íbúa á km2 á eftir Mónakó (16.403 íbúar á km2), Möltu (1305 íbúar á km2), San Marínó (454,6 íbúa á km2), Hollandi (396,9 íbúar á km2) og Belgíu (352 íbúar á km2). Rétt er að nefna að í Mónakó er mesti íbúaþéttleiki í heimi (Macau er reyndar stundum sett í fyrsta sætið, en það er ekki sjálfstætt land heldur sjálfstjórnarhérað í Kína) enda er landið það næst smæsta í heimi að flatarmáli, 1,95 ferkílómetra, með rúmlega 32 þúsund íbúa. Ítalía og Spánn eru í fimmta og sjötta sæti á lista yfir fjölmennustu ríkin í Evrópu en á Ítalíu búa rúmlega 60 milljónir íbúa (200 íbúar á km2) og á Spáni búa um 47 milljónir (93,4 á km2.)
Fjölmennustu ríkin
Landsvæði í km2
Íbúafjöldi í þúsundum
Íbúaþéttleiki í km2
Rússland
17.075.400
142.905.208
8,3
Þýskaland
357.021
81.751.600
229,9
Frakkland
643.548
65.075.300
99,6
Bretland
244.820
62.435.700
251,7
Ítalía
301.320
60.626.400
200,4
Spánn
504.782
47.190.400
93,4
Samkvæmt mælingum Eurostat frá árinu 2009 búa samanlagt 499,7 milljónir manna í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Íbúaþéttleiki í sambandinu er áætlaður 116 íbúar á km2 að meðaltali. Íbúum innan sambandsins fjölgaði um 4,1% árið 2008 en í þeim mælingum er bæði gert ráð fyrir náttúrulegri fjölgun sem og fólksflutningum frá ríkjum utan sambandsins. Þessar niðurstöður viðhalda áframhaldandi fólksfjölgun Evrópusambandsins sem hefur verið stöðug síðan árið 1960. Þrátt fyrir stöðuga fólksfjölgun innan sambandsins skiptist hún ójafnt niður á milli ríkja en íbúum fækkaði í sjö aðildarríkjum af 27.
Náttúrleg fjölgun hefur þó minnkað á síðastliðnum áratugum og fólksflutningar orðið veigameiri þáttur í fólksfjölguninni. Ein meginástæða þess er að fæðingartíðni hefur lækkað. Hæsta fæðingartíðni innan sambandsins er í Írlandi en sú lægsta er í Þýskalandi þar sem fæðingartíðnin var 1,4 árið 2010. Tíðni fæðinga innan sambandsins hefur lækkað úr 2,5 börnum á konu á sjöunda áratugnum í 1,6 barn á hverja konu árin 2006 til 2008. Almennt er talið að fæðingartíðni þurfi að vera í kringum 2,1 barn á konu svo að fólksfjöldi haldist stöðugur til lengri tíma ef ekki er hægt að treysta á stöðuga fólksflutninga.
Heimildir og myndir:
Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hver eru sex fjölmennustu löndin í Evrópu og hver er íbúaþéttleiki þeirra?“ Vísindavefurinn, 3. febrúar 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58781.
Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. (2012, 3. febrúar). Hver eru sex fjölmennustu löndin í Evrópu og hver er íbúaþéttleiki þeirra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58781
Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson. „Hver eru sex fjölmennustu löndin í Evrópu og hver er íbúaþéttleiki þeirra?“ Vísindavefurinn. 3. feb. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58781>.