Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í gegnum tíðina hefur Ísland fengið heilmikla athygli umheimsins vegna ýmiss konar yfirnáttúrulegra fyrirbæra sem talið er að fyrirfinnist hér á landi. Til að mynda hefur því verið haldið fram að einn frægasti svikari sögunnar, Júdas, sé geymdur í Heklu. Er þetta einungis ein af fjölmörgum sögum sem tengjast Heklu. Enn fremur hefur Snæfellsjökull verið vinsælt viðfangsefni hjá ekki ómerkari mönnum en Jules Verne.
Stórt og stæðilegt geimskip, með fasta búsetu.
Kostir Íslands fyrir geimverur eru fjölmargir. Eins og gefur að skilja eru Íslendingar öllu vanir. Ekki einungis hvað varðar dularfull eldfjöll heldur eru menn lítið að kippa sér upp við tröll sem fara út um hvippinn og hvappinn, Lagarfljótsorminn sívinsæla og drauga. Eins hafa álfar og huldufólk átt sér sína griðastaði hér á landi í árafjöld, eins og frægt er. Íslendingar hafa þar fyrir utan öðrum hnöppum að hneppa. Endalausar áhyggjur af fjármálum heimilanna, Evrópusambandinu og svo auðvitað hið bráðskemmtilega dómsmál í kringum Icesave.
Geimskipin eru því að mestu óáreitt. Uppi í Bæjarhálsi í Reykjavík má sjá eitt stórt og mikið geimskip, dulbúið sem höfuðstöðvar Orkuveitunnar. Að því er við best vitum er það eina geimskipið sem finnst á Höfuðborgarsvæðinu. En þau er flest að finna uppi á Kili. Ólíkt farfuglunum sem fljúga á vit ævintýranna þegar hausta tekur, þá eru geimskipin einungis hér yfir vetrartímann. Á sumrin færa þau sig enn norðar á bóginn en nákvæm staðsetning er starfsmönnum Vísindavefsins ókunn.
Geimveruleitardiskurinn á Höfn í Hornafirði er ógnarstór.
Eins og áður segir virðast Íslendingar hafa nóg annað að hugsa um. En þó sker Höfn í Hornafirði sig úr hvað það varðar. Af einhverjum ókunnum ástæðum hafa íbúar þar mikið dálæti á geimskipum og -verum. Það sést best á hinum geysistóra geimveruleitardiski sem staðsettur er rétt fyrir utan bæinn. Vegna sumarsetu geimskipanna á enn norðlægari slóðum hefur áhugamönnum um geimverur á Höfn ekki orðið kápan úr því klæðinu. Menn verða nefnilega að leita á réttu stöðunum!
Myndir:
Mynd af geimveruleitardiski á Höfn í eigu ritstjórnarmeðlims.
Hafi einhverjir lesendur ekki þegar áttað sig þá er rétt að taka fram að þetta er föstudagssvar. Ef einhver sannleikskorn finnast í því lentu þau þar fyrir misskilning.
Ritstjórn Vísindavefsins. „Hvar er mest af geimskipum á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 20. júlí 2012, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58586.
Ritstjórn Vísindavefsins. (2012, 20. júlí). Hvar er mest af geimskipum á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58586
Ritstjórn Vísindavefsins. „Hvar er mest af geimskipum á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 20. júl. 2012. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58586>.